Gates og eiginkona hans, Melinda Gates, hafa fram að þessu gefið 350 milljónir dollara til þróunar á bóluefni gegn kórónuveirunni. Í viðtali við Bloomberg ræddi Gates væntingar sínar til bóluefnis.
„Fyrsta bóluefnið verður ekki fullkomið hvað varðar virkni gegn sjúkdómnum og smiti. Það mun ekki veita langvarandi vörn og það verður aðallega notað í ríkum löndum sem bráðabirgðalausn. Við erum heppin ef við fáum bóluefni fyrir árslok. En á næsta ári verði nokkur bóluefni örugglega samþykkt.“
Sagði hann.
En þrátt fyrir að hann hafi dælt peningum í bóluefnaþróun hefur það ekki orðið til þess að allir hafi trú á því sem hann er að gera. Meðal vinsælla samsæriskenninga um Gates er að á bak við gjafmildi hans liggi óhugnanlegar fyrirætlanir. Til dæmis að hann sé að reyna að þróa bóluefni sem geti hjálpað honum að ná stjórn á heilum fólks í gegnum 5G tæknina.
Hann ræddi þetta aðeins í viðtalinu og sagði þetta vera undarlegt.
„Þeir líta á þá staðreynd að ég tengist þróun bóluefnis og snúa á hvolf, svo þetta líti út fyrir að í staðinn fyrir að ég gefi peninga til einhvers sem bjargar mannslífum þá græði ég á einhverju sem drepur fólk. Ef þetta verður til þess að fólk lætur ekki bólusetja sig eða vill ekki nota andlitsgrímur, þá er það stórt vandamál.“