Að leikfimisæfingum loknum byrjar hinn 94 ára gamli Páll Bergþórsson hvern einasta morgun á því að setjast við tölvuna sína og skrifa hnitmiðaða veðurspá sem hann birtir á Facebook, en veðrið er og hefur alltaf verið aðal ástríða þessa ljúfa manns sem flutti veðurfréttir í sjónvarpinu í ein tuttugu og þrjú ár.
Margrét H. Gústavsdóttir settist við eldhúsborðið hjá Páli og saman ræddu þau meðal annars veðurfarsbreytingar, umdeildar skoðanir hans á fóstureyðingum og hvernig hann fer að því að líta út fyrir að vera sjötugur, kominn á tíræðisaldur.
Páll fæddist í Fljótstungu í Hvítársíðu þann 13. ágúst árið 1923. Fyrstu tíu ár ævinnar bjó hann í burstabæ ásamt foreldrum sínum og sex systkinum en þrjú eru enn á lífi. Aðeins eitt systkini Páls lést fyrir áttrætt en öll hafa orðið áttatíu og fimm ára eða eldri.
Sem ungur maður var Páll afbragðs nemandi. Hann lauk gagnfræðaskólaprófi frá Héraðsskólanum í Reykholti þar sem hann kenndi svo ári síðar en stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík lauk hann árið 1944. Á þeim árum var mjög óalgengt að óbreyttir bændasynir yrðu stúdentar, hvað þá að þeir færu svo í framhaldsnám erlendis.
„Þetta þekktist varla í minni tíð. Ég útskrifaðist árið 1944 en sá næsti á undan mér úr sveitinni útskrifaðist árið 1911. Það var prestssonur af Gilsbakka. Pétur hét hann Magnússon og var þingmaður og ráðherra á tímabili. Þó var mikið af duglegu námsfólki í sveitinni en það þótti bara ekki eiga við að fara í skóla. Var hálf illa séð á þessum árum. Hér í Reykjavík var maður dálítið einangraður innan um borgarbörnin í Menntaskólanum því þetta voru hér um bil allt börn betri borgara en nú eru komin sjötíu og fjögur ár síðan ég varð stúdent og margt sem hefur breyst.“
Hvað kom til að þú fórst sjálfur í Menntaskólann?
„Það var nú hálf einkennilegt. Foreldrar mínir höfðu farið í Alþýðuskólann á Hvítárbakka í byrjun aldarinnar. Þau sendu mig í Reykholt en þar var ég svo heppinn að verða hæstur í bekknum fyrsta veturinn. Presturinn tók þá upp á því að bjóða mér að hjálpa til við kennslu og í staðinn myndu kennararnir búa mig undir gagnfræðapróf svo ég kæmist í Menntaskólann. Ég þáði boðið en mér lá svo á að ég las þrjá menntaskólabekki utan skóla; þriðja, fjórða og fimmta bekk. Skrapp svo í borgina til að taka prófin en var ekki á skólabekk heilan vetur fyrr en síðasta veturinn í sjötta bekk. Það kom mér því skemmtilega á óvart þegar ég reyndist sá fjórði hæsti í bekknum.“
Í framhaldinu hélt Páll í Háskóla Íslands og byrjaði að læra verkfræði sem átti illa við hann. Það var svo dag einn sem Teresía Guðmundsson veðurstofustjóri gerði sér ferð í Háskólann í þeim tilgangi að finna frambærilegan veðurfræðinema. Kennarinn benti á Pál og upp úr því fór honum virkilega að líka lífið, eins og hann segir sjálfur.
„Þarna uppgötvaði ég að þetta var það sem mig hafði í raun dreymt um að gera alla ævi,“ segir Páll sem var strax ráðinn til starfa á Veðurstofunni en þar vann hann í eitt ár áður en hann hélt utan til Stokkhólms að læra veðurfræði. Þetta var á árunum 1947 til 1949 en fjórum árum síðar fór hann aftur út og var þá í námi og starfi hjá prófessor sem var sá fyrsti til að gera veðurspá með nýtilkominni tölvutækni.
„Mitt verkefni var að láta tölvuna teikna veðurkort sem hafði aldrei verið gert áður í heiminum. Til að byrja með gat maður ekki sett nema fimm stöðvar inn í tölvuna til að gera kortið en þetta varð þó grunnurinn að þeirri tækni sem er enn notuð í dag. Verkefni okkar tókst svo vel að það var strax hægt að notast við aðferðirnar í Svíþjóð en seinna var byrjað að nota þær í Bandaríkjunum og Rússlandi. Nú hefur þessari tölvutækni farið óskaplega hratt fram en það er óneitanlega gaman að hafa átt hlut í þessari þróun á sínum tíma.“
Páll kynntist eiginkonu sinni, Huldu Baldursdóttur, á Veðurstofunni eftir að hann kom heim frá námi í Svíþjóð en hún hafði þá tekið að starfa þar sem ritari. Þau Páll felldu fljótt hugi saman og eignuðust soninn Baldur árið 1951. Ári síðar kom dóttir þeirra Kristín í heiminn og Bergþór fæddist árið 1957. Í dag eru barnabörnin níu og barnabarnabörnin sextán talsins.
Fjölskyldan bjó í Skaftahlíð í ein tuttugu ár, að undanskildum árunum tveimur þegar Páll var í framhaldsnáminu í Svíþjóð. Síðar fluttu þau í Bústaðahverfið og þar hefur hann búið í sama húsinu frá árinu 1970.
Hulda lést á Hrafnistu árið 2013 en aðskilnaðurinn var báðum erfiður og Páll ósáttur við að fá ekki að vera með konu sinni á hjúkrunarheimilinu.
„Ég kvartaði mikið yfir þessu en loksins þegar mér tókst að fá að vera hjá henni dag og nótt þá lifði hún í hálfan mánuð eftir það. Hún var orðin níræð og mikið lasin þegar hún lést en ég fékk að vera hjá henni síðustu stundirnar og er þakklátur fyrir það. Mér skilst að þetta hafi verið í fyrsta sinn sem hjón fengu það í gegn að fá að vera saman við þessar aðstæður. Okkur fannst mjög erfitt að vera aðskilin enda virkar þetta í raun bara eins og óumbeðinn skilnaður og það finnst mér mjög óásættanlegt. Það á ekki að gera lífið erfiðara fyrir hjón sem eru komið á þennan aldur.“
Heldur þú að aldraðir hafi það betra núna en kannski fyrir fjörtíu árum?
„Það er ekki gott að segja. Öldum saman voru ekki miklar breytingar á lifnaðarháttum Íslendinga. Foreldrar mínir lifðu alveg sama lífi og afar þeirra og ömmur og það var ekki fyrr en upp úr stríðinu að það fór að bera á miklum breytingum í þjóðfélaginu. Þrátt fyrir mikinn skort fannst fólki það yfirleitt alltaf hafa nóg. Ég man aldrei eftir því að neinn hafi kvartað undan skorti þegar ég var ungur maður í Borgarfirði. Betra veðurfar gerði þjóðinni líka lífið léttara smám saman,“ segir Páll og tekst þannig að leiða talið að helstu ástríðu sinni í lífinu, nefnilega veðrinu.
„Áður en ég fæddist voru mikil harðindi á Íslandi. Svo mikil að margir flúðu til Vesturheims í leit að betra lífi eins og frægt er orðið. Árið 1918 kom svo aftur frostavetur sem sögur fara af en fljótlega upp úr því fór veðrið að breytast til hins betra. Þá hlýnaði mikið á milli ára og þessu hefur til dæmis verið auðvelt að fylgjast með, með því að skoða snjóskaflinn í Gunnlaugsskarði í Esjunni. Árið 1929 hvarf skaflinn í fyrsta skipti alveg en það hafði enginn sem þá lifði séð frá því á miðri nítjándu öld – eða í ein áttatíu ár. Svo varð aftur mikil hitabreyting á fyrstu tíu árum þessarar aldar sem við lifum núna, eða frá 2000 til 2010. Þá hvarf skaflinn á hverju einasta sumri en hefur svo aftur loðað við síðustu sjö ár.“
Hefur þá kólnað í veðri frá árinu 2010?
„Það er ekki gott að segja enn sem komið er. Flestir veðurfræðingar spá mikilli hlýnun á næstunni en ég sker mig dálítið úr með þetta. Ég vil láta kólna svolítið í svona þrjátíu til fjörtíu ár, eða frá og með núna og fram undir miðja öld. Ég virðist einn um þessa skoðun sem ég byggi aðallega á reynslu. Það hlýnar alltaf og kólnar á víxl, á um þrjátíu og fimm ára fresti, en ofan á bætist stöðug, vaxandi hlýnun. Það má líkja þessu við tröppugang sem fer sífellt hærra en þrepin eru kulda- og hitaskeiðin sem skiptast á,“ segir hann og bætir við að sumir samtímamenn hafi brosað að þessari kenningu hans.
Það hlýnar alltaf og kólnar á víxl, á um þrjátíu og fimm ára fresti, en ofan á bætist stöðug, vaxandi hlýnun.
Lífaldur sem spannar tæpa öld gæti þó gefið mörgum tilefni til að álykta að Páll viti sínu viti enda vakinn og sofinn yfir veðrinu áratugum saman en líkt og með aðra framúrskarandi fagmenn leitar hann að áskorunum við hæfi. Og við erum ekki að tala um spá sem nær tíu daga fram í tímann, því síðasta rúma árið hefur hann unnið að samantekt með útreikningum um þróun veðurfars, og hita og kuldabreytingum á jörðinni fram að næstu aldamótum, eða til ársins 2100. Hann hefur skoðað breytingar á bæði suður- og norðurhveli og við miðbik jarðar og niðurstöðurnar vonast hann til að fá birtar í vísindaritinu Jökli, helst innan árs.
Hvaða hitastig sérðu fyrir þér að verði á Íslandi árið 2040?
„Þá verður orðið dálítið kaldara en núna en svo hlýnar aftur smám saman. Í kringum árið 2080 verður hins vegar orðið mjög hlýtt en þó ekki eins mikið og margir spá. Þar spila þó möguleg áhrif af mannavöldum inn í og þau verða ekki eins mikil ef við drögum úr losun koltvísýrings,“ segir hann íbygginn og bætir við að flest bendi til að á suðurhvelinu muni ekki hlýna eins mikið og margir veðurfræðingar vilja meina.
„Á suðurhveli jarðar er mikið hafsvæði sem temprar hitastigið en hér á norðurhveli, sérstaklega á sléttum Alaska og yfir Síberíu, er gríðarlegt landsvæði þakið snjó og það er þessi snjór sem viðheldur loftslagsbreytingum á norðurhvelinu. Meðan það snjóar ofan í hafið á suðurhveli hitnar ekki eins mikið eins og þegar snjórinn leggst í fleiri lögum yfir þetta víðfeðma landsvæði á norðurhveli. Snjór á snjó ofan viðheldur kulda þar til kuldastigið nær hámarki og þá kólnar ekki meira. Það tekur að hlýna aftur sem orsakar minni snjó og svo koll af kolli og svona endurtekur þetta sig á um þrjátíu og fimm ára fresti. Það kólnar sem sagt og hlýnar aftur á víxl en ofan á það bætist hlýnun jarðar. Frá árunum 2040 til 2075 verða skilin skörp og hlýnun mikil. Það stafar eins og fyrr segir af losun koltvísýrings út í andrúmsloftið. Því þarf nauðsynlega að stemma stigu við og mannkynið þarf að vera samstíga,“ segir hann ákveðið: „Við jarðarbúar erum búnir að brenna þvílíkum lifandis ósköpum af olíu, kolum og gasi en þetta gæti haft ófyrirséðar afleiðingar fyrir komandi kynslóðir ef ekkert er aðhafst.“
Við vendum kvæði okkar alveg í kross og ræðum umdeildar og óvanalegar skoðanir Páls á fóstureyðingum. Hann er mikið á móti þeim og segir vangaveltur sínar um barnæskuna hafa mótað þessa afstöðu. Að einstaklingurinn verði til strax við getnað, samsetning úr 23.000 genum sé þá tilbúin fyrir einstaklinginn og mannsævin því hafin. Hann segir að lífskjörin í dag ættu að geta boðið flestum skikkanlegt líf og nóg sé af fólki sem langar að taka að sér börn. Ólíkt mörgum sem eru á móti fóstureyðingum hefur Páll þó ekkert út á getnaðarvarnir að setja. Hann segir þær allt annars eðlis en fóstureyðingar.
„Það skiptir engu máli á hvaða stigi meðgöngunnar fóstureyðing er framkvæmd. Ef mér hefði verið eytt þá væri ég ekki til í dag. Svo einfalt er það. Félagslegar aðstæður og möguleikar eru mikið betri nú en áður. Þess utan eru getnaðarvarnir góðar og fólk getur alveg ráðið því hvenær það eignast börn.“
En hvað með atvik eins og nauðganir, framhjáhald og þess háttar?
„Slíkar undantekningar geta mögulega verið öðruvísi en þessar venjulegu fóstureyðingar en þegar allt er heilbrigt, foreldrar með atvinnu og eftirspurn eftir ættleiðingum, þá ætti fólk kannski að hugsa sig betur um? Þetta er bara mín skoðun og ég vil fá hvern einasta mann til að hugsa aðeins út í þetta og spyrja kannski sjálfan sig: Hvað ef mér hefði verið eytt?“
Margir hafa furðað sig á því hvernig þessi keiki öldungur heldur sér jafn vel og raun ber vitni. Eins og fyrr segir varð hann 94 ára í ágúst en afmælisdeginum fagnaði hann með því að ganga upp hálfa Esjuna með vinum og ættingjum. Geri aðrir betur!
Hver er galdurinn?
„Jú, hann er tvenns konar. Ég var óþarflega feitur fyrst eftir að ég fór á eftirlaun en stefndi að því að verða skikkanlegur og reyna að halda heilsunni. Eftir sjötugt þarf maður að leggja sig fram um að hægja á ellinni og seinka hrörnun en það hef ég reynt að gera með því að hafa mataræðið þannig að ég geti haldið góðri þyngd og svo legg ég stund á daglega hreyfingu, meðal annars með því að fara út að ganga í hálftíma á hverjum degi, helst um hádegi til að njóta líka dagsbirtunnar,“ segir Páll og gerir stutt hlé á máli sínu til að afhjúpa hvað leynist undir lítilli skál á miðju eldhúsborðinu. Hann tekur lokið af og býður blaðamanni að smakka svolítið af yngingarformúlunni sem hann borðar í hádeginu á hverjum degi og unir vel.
„Þetta eru 100 grömm af fiski, 100 grömm af kartöflum, 50 af hvoru gulrótum og gulrófum og matskeið af hrísgrjónum. Svo stappa ég þetta með soðinu til að næringarefnin fari ekki til spillis,“ útskýrir Páll vandlega.
„Þá nota ég smjör, tómatsósu, salt og krydd til að bragðbæta þetta en ég er alveg hættur að nota salt. Á morgnana fæ ég mér grófa brauðsamloku með ávaxtaáleggi, eplum, banönum, perum eða þess háttar og bolla af kakói. Það geri ég svo aftur um miðjan dag en á kvöldin fæ ég mér bolla af pakkasúpu.“
En hvað með jólin? Hvað borðar þú þá?
„Ég ét allt sem mér er boðið á jólunum, já, já, já,“ segir Páll og hlær. „Það gerir ekkert til. Það vita það allir í kringum mig hvernig ég borða vanalega, en á jólunum er í lagi að breyta aðeins til.“
Þegar kemur að leikfimisæfingum þá segist hann byrja á þeim áður en hann stígur fram úr rúminu á morgnana. Slíkt sé heppilegt fyrir fólk á tíræðisaldri enda jafnvægisskynið ekki eins gott og áður og því upplagt að gera æfingar liggjandi.
„Ég byrja á því að hreyfa liðina, beygja handleggi og fætur, kreppa og rétta. Svo nudda ég líkamann til að halda blóðflæðinu góðu. Þetta geri ég með því að grípa þétt í upphandleggsvöðvana að aftan og framan, allan handlegginn fram í lófa, svo lærvöðvana að framan og aftan alla leið og endurtek þrisvar sinnum. Þá eru komnar átta til tíu mínútur og ég er orðinn eins og nýr maður. Þegar ég stend upp er ég bæði stöðugri og sterkari og þá sný ég mér að veðrinu,“ segir Páll sem eins og fyrr segir hefur birt tíu daga veðurspár á Facebook-síðu sinni á hverjum einasta morgni.
„Það er liður í því að halda mér við. Bæði að vakna tímanlega og hafa eitthvert verkefni í stað þess að vera bara að bara að bíða eftir endalokunum. Þetta finnst mér óskaplega mikils virði. Ég á fimm þúsund Facebook-vini en það eru kannski ekki nema tvö til þrjú hundruð sem fylgjast með spánum mínum daglega. Svo eru um sjötíu góðir vinir sem tilkynna mér það á hverjum degi. Ég má kannski ekki segja frá því … en það eru mest eldri konur,“ segir hann og hlær dátt.
„Karlar telja kannski að þeir viti meira og hafi því ekki eins mikla þörf fyrir spárnar mínar, ég veit ekki hvers vegna þeir eru færri en þetta gæti spilað inn í. Mér þykir hins vegar virkilega vænt um að fá þessar kveðjur á Facebook,“ segir Páll að lokum.