Fjölmiðlamaðurinn Gunnar Smári Egilsson vandar Reykjavíkurborg ekki kveðjurnar eftir að hafa runnið í hálkunni og axlarbrotnað.
„Ég axlarbrotnaði í hálkunni og fer í aðgerð á morgun þar sem öxlin verður skrúfuð saman. Þegar ég vakna eftir aðgerðina ætla ég að hefja undirbúning framboðs til borgarstjórnarkosninga,“ segir Gunnar á Facebook-síðu sinni. Hann er þegar farinn að huga að stefnumálum.
„Þetta verður listi þeirra sem hafa brotnað vegna vanrækslu borgarinnar við að sandbera eða salta gangstéttir, hefnd hinna brotnu gegn borgaryfirvöldum sem er fyrirmunað að sinna einföldustu hlutum sem snúa að öryggi og lífskjörum borgarbúa. Kannski víkkum við framboðið út svo það nái líka yfir láglaunafólk sem borgarstjórn greiðir skammarleg laun og kann ekki að skammast sín fyrir. Og lífeyrisþega, láglaunafólk og annað fátækt fólk sem hefur mátt þola grimma húsnæðiseklu á meðan borgin byggir aðeins fyrir túrista og hina ríku. Og kannski fleiri, fer eftir því hvernig svæfingin fer í mig,“ segir Gunnar Smári að lokum.