Alls greindust 15 manns á föstudag og laugardag með Covid-19. Þar af er eitt ungabarn sem er nú í einangrun. Barnið sýnir mild einkenni og líður ekki illa að sögn Morgunblaðsins.
Barnið smitaðist á Austurlandi en er ekki búsett þar. Í tilkynningu frá aðgerðastjórn á Austurlandi í gær kom fram að hún hefði miklar áhyggjur af stöðu mála í landshlutanum. Smitum hafi fjölgað úr tveimur í sjö og eru íbúar á Austurlandi hvattir til að huga vel að einstaklingsbundnum sóttvörnum.
Nú eru því fjögur börn 12 ára og yngri í einangrun með kórónuveirusmit, eitt ungabarn yngra en eins árs, eitt barn í aldurshópnum 1-5 ára og tvö börn á aldrinum 6-12 ára. Alls eru 121 í einangrun og 560 manns í sóttkví.
Ekki til útlanda eftir morgundaginn
Frá og með 19. ágúst næstkomandi verða öll lönd og svæði heims skilgreind sem áhættusvæði. Íbúum hér á landi er ráðlagt að ferðast ekki til áhættusvæða og er þeim í raun ráðið frá öllum ferðalögum til útlanda. Heimkomusmitgátt hefur verið hert og er nú er farið fram á tvöfalda sýnatöku við komu til landsins.