Þetta er verulega góð spurning, enda hefur íslenskt djammlandslag breyst til muna síðustu mánuði. Kannski er sniðugt að byrja á því að benda fólki á það sem er ekki sniðugt. Ég mæli til að mynda gegn því að þú bjóðir 90 til 99 manns í partí, til þess að rétt sleppa við hundrað manna takmarkið. Ég held að Víðir fíli ekki þannig. Betra að vera öruggur og bjóða aðeins minni hóp, eða miklu minni hóp.
Þá eru knús og kossar talsvert hættulegri en áður fyrr. Það segir sig í rauninni sjálft, þar sem það er mjög erfitt að knúsa og kyssa fólk sem er í tveggja metra fjarlægð. Ef þú trúir mér ekki þá hvet ég þig til að prófa.
Ég held að spilakvöld séu einn besti möguleikinn í heimsfaraldursdjamminu. Spilakvöld innihalda nánast aldrei fleiri en tíu manns (yfirleitt bara fjórir til sjö einstaklingar). Og þá er tveggja metra reglan algjör blessun þegar maður er að spila, því með henni hættir fólk að kíkja á spilin manns. Þá finnst mér gott að benda þeim á að nánast öllum spilum er hægt að breyta í drykkjuleik: Bjór-Lúdó, KampavínsKani og Skot-Catan hljóma eins og geggjaðir leikir.
Helsti galli spilakvöldanna eru sameiginlegu snertifletirnir sem Alma D. Möller er dugleg að minnast á, þannig vandamál ættu þó að minnka umtalsvert ef maður er duglegur að spritta. Ef maður vill vera sérstaklega öruggur þá er eflaust best að spila úti. Bara kveikja á kertum í lukt, setja upp seríu og setja góða tónlist á út um gluggann.
Eflaust lærðu margir af því að skemmta sér um verslunarmannahelgina. Sjálfur fór ég ásamt nokkrum félögum á eyðibýli úti á landi. Þó að ég geti ekki lofað því að við höfum fylgt tveggja metra reglunni allan tímann, þá held ég að slík ferðalög séu ansi góð smitvörn sé ferðast í litlum hóp (helst smitlausum). Þá eiga borgarbörn eins og ég auðvelt með að gleyma því hvað íslensk náttúra er geggjuð og hvað hún er kjörin fyrir djamm. Ég get til að mynda fullyrt að bjór gerist eiginlega ekki betri en fyrir framan varðeld yfir íslenska sumarnótt.
Ég verð reyndar að viðurkenna að ég er ekki bara að þvælast úti á landi. Það hefur nefnilega komið fyrir að ég sæki kaffihús, veitingahús og bari sem eru niðri í bæ. Ætli maður sér að leyfa sér slíkan munað í dag er tveggja metra reglan mjög mikilvæg, auk þess sem maður ætti að reyna að sitja úti. Þá er einnig mjög hentugt að mæta með hanska og jafnvel grímu á kaffihús. Einnota hanskar eru í tísku þessa dagana, sérstaklega á meðan maður snæðir eða fær sér drykk.
Svo eru það stefnumótin, eða deitin, eins og við unga fólkið köllum þau. Þar er hægt að fara á áðurnefnd kaffihús eða halda fámenn spilakvöld. Svo hef ég heyrt af fólki sem hefur farið á Zoom/Skype/ Face Time-stefnumót, sem eru auðvitað alveg snertilaus, lykillinn að þeim er að vera með gott skipulag. Til dæmis er geggjað að búa til Kahoot (spurningaleikur sem fer fram á netinu).
Góð regla er ábyggilega að vera bara sparsamur í skemmtanalífinu. Ég ræð fólki til að mynda frá því að fara í ratleik um fjölförnustu staði borgarinnar, eða þá að djamma þrjá daga í röð með þremur mismunandi hópum. Sjálfum finnst mér til dæmis gott að taka eitt eða tvö kvikmyndakvöld, inn á milli þeirra þegar ég djamma og skemmti mér. Hvort sem Adam Sandler eða Ingmar Bergman verður fyrir valinu, þá er alltaf gott að horfa á góða „ræmu“ hanskalaus.