fbpx
Miðvikudagur 27.nóvember 2024

Davíð Þór: „Ég var ekki tilbúinn til að axla þessa ábyrgð“

Eignaðist barn 18 ára – Slóst við Stein Ármann – Erótískar myndatökur óvissuferð – Átti ekki fyrir páskaeggjum

Kristinn H. Guðnason
Föstudaginn 8. desember 2017 18:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Davíð Þór Jónsson, sóknarprestur í Laugarneskirkju, hefur komið víða við í lífi sínu á sviði lista og fræða. Kristinn Haukur heimsótti hann í kirkjuna og spurði meðal annars út í grínferilinn, ritstjórnina á Bleiku og bláu, prestsstörfin og baráttuna við áfengið.

Dagskráin er þétt hjá séra Davíð enda komin aðventa og sá tími þegar börn í leik- og grunnskólum landsins heimsækja kirkjur. Slíkar heimsóknir hafa þó verið umdeildar á undanförnum árum. Þegar blaðamaður hitti Davíð fyrir í safnaðarheimilinu í Laugarneskirkju var hann nýbúinn að taka á móti hóp af fimmtu bekkingum. „Hér pössum við upp á að þessar heimsóknir séu alltaf að frumkvæði skólans og á forsendum hans. Við eru ekki með trúboð nema upp að því marki að hægt sé að kalla fræðslu um kristna trú trúboð. Börnin eru ekki látin taka þátt í neinni trúariðkun eins og bænum eða biblíulestri.“ Hann segir börnin læra um kirkjuna sjálfa og starfið sem þar fer fram.

Agnúast fólk út í þessar heimsóknir við ykkur?

„Já, já, það kemur alltaf fyrir. Ég get ekkert fullyrt um hvernig þessar skólaheimsóknir hafa verið í gegnum tíðina og ábyggilega er ástæða til þess að fetta fingur út í eitt og annað sem þar hefur verið gert. Það er alltaf slæmt þegar börn eru tekin út úr hópnum. Þess vegna leggjum við áherslu á að komið sé með allan hópinn, börn trúlausra foreldra og íslömsk börn. Þeim er alveg óhætt hér og verða ekki fyrir neinni innrætingu.“

Davíð telur að trúfrelsi eigi að vera opið og jákvætt þannig að fólk fái fræðslu um starf allra trúfélaga. Ef dyrnar eru lokaðar viti enginn hvað gerist á bak við þær og fordómar þrífast. „Við hlökkum mjög til þegar moskan verður loksins komin upp og farið verður í skólaheimsóknir á ramadan til að fá fræðslu. Ég held til dæmis að íslamskir krakkar yrðu fyrir mun minni fordómum og tortryggni ef bekkurinn færi allur saman í moskuna og sæi að þetta er ekkert nema öðruvísi kirkja.“ Hann segir að foreldrar eigi rétt á því að börnum þeirra séu ekki innrætt trúarbrögð í skólum en ekki rétt á að neita þeim um fræðslu.

Missti af uppeldinu

Davíð ólst fyrstu tíu ár ævi sinnar upp á Seljaveginum í vesturbæ Reykjavíkur en flutti þá í Hafnarfjörðinn þar sem hann bjó fram á fullorðinsár.

Telur þú þig vera gaflara?

„Ég er alls ekki gaflari og verð aldrei. Í Reykjavík er ég Hafnfirðingur en í Hafnarfirði er ég Reykvíkingur. Eins og enginn vilji kannast við mig, nema Eskfirðingar, guð blessi þá. Ég var búinn að búa í þrjár vikur á Eskifirði þegar ég var orðinn Eskfirðingur. Þeir tóku mér opnum örmum.“

  1. júní árið 1978, þegar Davíð var þrettán ára gamall, tók hann fyrsta áfengissopann. Á þessum árum segist hann hafa verið vandræðaunglingur, „stjórnlaus og ábyrgðarlaus“, áður en hann gekk í Flensborgarskólann. Í miðri skólagöngu, þegar hann var 18 ára gamall, eignaðist hann dóttur en hann og barnsmóðir hans voru ekki í sambandi.

Hvernig var að verða faðir svo ungur?

„Ég var nú í raun ekki faðir átján ára gamall nema í líffræðilegum skilningi. Ég hafði engan þroska til þess að reynast dóttur minni faðir. En hún var svo lánsöm að móðir hennar eignaðist skömmu seinna mjög góðan mann og eignaðist litla systur áður en hún fór að muna eftir sér. Hún ólst upp í afskiptaleysi mínu því ég var ekki tilbúinn til að axla þessa ábyrgð.“

„Þegar ég sá þau börn vaxa úr grasi þá rann mér til rifja að ég ætti enn eitt barn“

Hann segist ekki hafa farið að axla föðurhlutverkið fyrr en hann eignaðist tvö önnur börn með þáverandi eiginkonu sinni, Elínu Ellingsen, 26 og 27 ára gamall. „Þegar ég sá þau börn vaxa úr grasi þá rann mér til rifja að ég ætti enn eitt barn.“

Var eftirsjáin mikil?

„Já, auðvitað. En kannski var betra fyrir hana að eiga stabílan og ábyggilegan föður heldur en þennan vitleysing sem ég var á þessum tíma.“

Um þetta leyti var elsta dóttir Davíðs orðin stálpuð og samskipti þeirra jukust. Þau hafi verið góðir vinir síðan en hún býr nú í Danmörku með tveimur börnum. Í dag er Davíð í sambúð með Þórunni Grétu Sigurðardóttur, tónskáldi og formanni Tónskáldafélags Íslands. Eiga þau saman eins árs gamlan son.

Kynntust í slagsmálum

Davíð dreymdi um að verða leikari og reyndi í þrígang að komast inn í Leiklistarskóla Íslands. Það gekk ekki en farveginn inn í skemmtanabransann fann hann með æskuvini sínum, Steini Ármanni Magnússyni, og saman mynduðu þeir hið goðsagnakennda grínistadúó Radíusbræður. „Við Steinn Ármann áttum það sameiginlegt að vera á jaðrinum, við vorum ekki vinsælustu strákarnir í bekknum og hálfgerðir furðufuglar. Við kynntumst þannig að okkur var att saman í slagsmál þegar við vorum tíu ára.“

Hver hafði betur?

„Ég. En þegar við höfum slegist síðan, sem hefur nú verið í góðu, hef ég ekki átt séns í hann,“ segir Davíð og skellir upp úr.

Radíusbræður náðu fyrst vinsældum á Aðalstöðinni og síðar komu þeir fram á öðrum útvarpsstöðvum, í sjónvarpi og á sviði. Hann segir húmorinn hafa verið samsuðu af því sem vinsælast var í útlöndum, absúrdisma og groddalegheitum. „Við vorum siðbótarmenn í íslensku gríni. Með fullri virðingu fyrir því sem hér var í gangi þegar við vorum að fara af stað; Spaugstofunni, Ómari Ragnarssyni, Gísla Rúnari og fleirum sem eru miklir snillingar á sínu sviði, þá er þetta mikill „slap-stick“ húmor. Við vorum að horfa á ameríska uppistandara eins og Eddie Murphy og Andrew Dice Clay og einnig Monty Python.“

Davíð segir þá hafa lagt áherslu á að vera með nýtt og ferskt efni í hvert sinn. „Þetta var gígantískt magn af gríni sem við framleiddum og auðvitað var það misgott og misfyndið. Stundum þurfti maður að fylla upp í tímann með einhverju. En mér finnst bestu hugmyndirnar okkar hafa enst bara býsna vel.“

Augun erótískasti líkamshlutinn

Í gegnum tíðina hefur Davíð tekið þátt í ýmsum verkefnum, svo sem uppsetningu leikrita, þýðingum, spurningaþáttum, tónlistarútgáfu og mörgu fleiru. Til ársins 1997 var hans aðalstarf hins vegar dagskrárgerð í útvarpi. „Ég var orðinn leiður á útvarpinu og sé það eftir á að þetta var kulnun í starfi. Að vera í beinni útsendingu og geta ekki átt vondan dag. Ég var líka á þeim stað í lífi mínu að ég átti hlutfallslega fleiri vonda daga en ella. Þetta var farið að ganga nærri mér, svona mikið og náið samstarf við jafn krefjandi persónur eins og Stein Ármann og Jakob Bjarnar. Mig langaði út úr þessu.“

Þá höfðu útgefendur tímaritsins Bleikt og blátt samband við Davíð og buðu honum ritstjórastöðuna. Á þeim tímapunkti hafði salan dregist mikið saman og til tals kom að leggja blaðið niður. Davíð greip gæsina og breytti tímaritinu eftir eigin höfði. „Þarna var bara læknisfræði og anatómía. Þetta var kynfræðslutímarit en ég vildi gera þetta að tímariti um kynferðismál, kynlíf og erótík.“

Höfðu kynferðismál verið sérstaklega mikið áhugamál fram að þessu?

„Nei, en ég hef alltaf haft áhuga á opinskárri umræðu og andstyggð á tvískinnungi, hræsni og tepruskap. Ég vildi rugga bátum líkt og í útvarpinu og sýna borgaralegu siðgæði puttann.“

Undir stjórn Davíðs gekk Bleikt og blátt ákaflega vel og hann er auðsjáanlega stoltur af árangrinum. „Tölublöðunum fjölgaði úr sex í fjórtán og þegar ég hætti, fjórum árum síðar, var tímaritið eitt það söluhæsta á Íslandi. Blaðið var 52 síður og 16 af þeim lagðar undir erótíska ljósmyndaþætti. Eftir á að hyggja er eins og enginn hafi lesið greinarnar sjálfar,“ segir hann kíminn.

Hvað gerðir þú öðruvísi varðandi myndaþættina en forverar þínir?

„Það eina við ljósmyndaþættina sem breyttist í minni ritstjórnartíð var að þú sást augu fólksins sem sat fyrir. Þetta voru ekki hauslausir kjötskrokkar eins og áður. Þá áttaði ég mig á því að erótískasti líkamshlutinn er augun. Um leið og þú klippir hausinn af manneskjunni er ekki neitt erótískt við þetta heldur aðeins anatómía. Það er persónan sem kveikir lostann, ekki kjötið.“

„Það er persónan sem kveikir lostann, ekki kjötið.“
Ritstýrði Bleiku og bláu „Það er persónan sem kveikir lostann, ekki kjötið.“

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Myndatökurnar óvissuferð

Myndaþættirnir fyrir Bleikt og blátt voru af ýmsum toga og í sumum þeirra áttu raunverulegar samfarir sér stað. Davíð stýrði mörgum af þessum tökum, sérstaklega á seinni hluta ferilsins. „Með því að gera þetta sjálfur gat ég gert betur við fyrirsæturnar. Vinnan við slíka myndaseríu er hvorki meiri né minni en fyrir önnur tímarit. Munurinn er sá að fyrirsæturnar voru með fimm til tíu sinnum hærra kaup.“

Var ekkert vandræðalegt að vera viðstaddur?

„Þetta verður normalt. Langoftast voru það pör sem tóku þátt og undantekningalítið ef raunverulegt samræði átti sér stað. En það var í miklum minnihluta af tökunum og oftar en ekki þá gerðist það í hita leiksins. Við vorum fjögur á tökustaðnum og búin að ræða um hvernig þetta ætti að líta út. Svo gat þetta verið óvissuferð.“

Þetta var ekki eina reynsla Davíðs af gerð erótísks myndefnis því að árið 2000 gerðu hann og Barði Jóhannsson (í Bang Gang) saman kvikmyndina Leyndardómar skýrslumálastofnunar að frumkvæði Skjás 1. „Þeir voru með ranghugmyndir um að gera þetta eins og Playboy Channel en höfðu hvorki efni né mannskap í það. Ég sagði þeim að þeir yrðu að snúa þessu upp í grín eins og dönsku stjörnumerkjamyndirnar. Annars yrði þetta bara hallærislegt.“

Árið 2001 fannst Davíð sem hann væri kominn á sama stað og hjá Radíusbræðrum að því leyti að hann þurfti sífellt að skaffa mikið efni og ekki væri það allt saman gott. Þá varð hann sífellt fráhverfari því fólki sem starfaði í þessum geira. „Margt af því fólki sem ég vann með var ekki á góðum stað í lífinu og var ekki að gera þetta af góðum og uppbyggilegum ástæðum. Eftir þessi fjögur ár fann ég að þetta var ekki bransi sem mig langaði til að tengjast mikið.“

Sala Bleikt og blátt dvínaði eftir að Davíð hætti sem ritstjóri og var það loks lagt af árið 2008. „Fólkið sem tók við áttaði sig ekki á sálinni í blaðinu og hélt að þetta gengi út á að búa til klám. En þetta snerist um að móta skoðanir og viðhorf.“ Jóna Ingibjörg Jónsdóttir, stofnandi tímaritsins, skrifaði sögu blaðsins eftir að það var aflagt líkt og um ævi manns væri að ræða. Davíð segir: „Mér þótti vænt um að hún sagði að eini ritstjórinn á eftir henni sem hefði skilið blaðið væri ég. Með mér hafi blaðið fengið sína fyrstu fullnægingu.“

Gat ekki lengur aflað tekna

Davíð hefur talað opinskátt um baráttu sína við áfengisbölið en hann hefur nú verið allsgáður í rúm tólf ár. Hann segir vandann hafa byrjað strax á unglingsárunum. „Ég taldi mér lengi trú um að ég hefði drukkið eins og maður framan af. Seinna rifjaðist það upp fyrir mér að í 8. bekk (nú 9. bekk) fannst mér erfitt að mæta ekki undir áhrifum á skólaböll, sem er ekki eðlilegt. Ég var alltaf með mjög veikt viðhorf til áfengis þó að ég drykki ekki stíft sem barn.“ Á þeim tíma hafi þó verið allt annað viðhorf til unglingadrykkju en nú. Smám saman vann hann sig upp í að verða dagdrykkjumaður.

„Ég var sennilega löngu búinn að átta mig á því að ég væri alkóhólisti en áttaði mig ekki strax á því að þetta væri sjúkdómur en ekki lífsstíll. Ég taldi mig geta ráðið við þetta og mér gekk vel í starfi, en mér hélst ekki á konum eða peningum. Hægt og bítandi versnaði þetta og ég hætti að geta aflað mér tekna vegna óreglu. Ég vann sjálfstætt og síðasta árið lækkuðu tekjurnar um meira en helming frá árinu áður.“

„Ég gat ekki gefið þeim páskaegg og ekki gefið þeim mat“

Keyrðir þú undir áhrifum?

„Nei, ég stillti mig um það. Ég gerði það stundum sem unglingur en hætti því og lagði frekar áherslu á að búa alltaf í göngufæri við bar.“

Undir lokin var Davíð hættur að þora að láta renna af sér vegna timburmanna. Hann byrjaði að drekka upp úr hádegi og hélt sér símjúkum allan daginn. „Síðustu mánuðina mína í drykkju var ég farinn að verða oftar illa drukkinn en áður, en þá var þol mitt fyrir áfengi búið að minnka mikið. Lifrin hættir að ráða við þetta.“

Fékkstu skemmdir?

„Ég er ekki með lifrarskemmdir, en þegar ég hætti var ég greindur með fitulifur sem er forstig af skorpulifur.“

Skáparnir tómir og botninum náð

Davíð segist hafa snert botninn í drykkjunni páskana 2005. „Páskarnir voru að nálgast og börnin mín áttu að vera hjá mér, þá 14 og 15 ára. Ég áttaði mig á því að ég var búinn að klúðra því. Það var ekki nokkur leið að ég gæti haft þau hjá mér. Ég var búinn að drekka frá mér alla peningana og skápurinn var tómur. Ég gat ekki gefið þeim páskaegg og ekki gefið þeim mat. Þá áttaði ég mig á því að ég var ekki maðurinn sem ég ætlaði að vera. Ég var ekki bara að eyðileggja líf mitt heldur stórskaða börnin mín. Þá brotnaði ég niður, hringdi á Vog og bað þá að taka við mér.“

Föstudaginn langa fór hann á síðasta fylleríið sitt og daginn eftir innritaði hann sig á Vog. „Páskadagsmorgun 27. mars vaknaði ég edrú og lít á það sem minn fyrsta edrú-dag. Ég grínast með að ég hafi ekki verið frumlegri en svo að velja páskadag til að rísa upp frá dauðum.“

Eilíft líf ekki bundið við tíma

Davíð skráði sig fyrst í guðfræðinám 26 ára gamall vegna þess að honum þótti námsefnið sjálft, tungumál og heimsmynd Hebrea og Grikkja, svo heillandi. Hann ætlaði sér þá ekki að verða prestur heldur fræðimaður og grúskari. Hann hefur ávallt verið trúaður á æðri mátt og eftir sigurinn á áfengisbölinu tók hann upp þráðinn í guðfræðinni en þá til að vígjast. Kom það mörgum Íslendingum í opna skjöldu í ljósi fyrri starfa hans.

„Ég er með óhefðbundinn bakgrunn en ég held að ég sé ekki jafn óhefðbundinn prestur og margir telja. Ýmislegt sem ég segi eða geri vekur oft meiri athygli en þegar kollegar mínir segja eða gera nákvæmlega sömu hluti.“

Hefur þú lent í mótlæti frá öðrum prestum eða safnaðarmeðlimum?

„Nei. Ég hef heyrt það utan úr bæ að fólk eigi erfitt með að taka mig alvarlega sem prest og það er bara allt í lagi. Það eru aðrir prestar sem það fólk getur leitað til. Ég veit að sóknarbörn mín á Útvarpi Sögu líta ekki á mig sem björtustu von kristindómsins á Íslandi. En ég veit það af langri reynslu að maður fær hnífana frekar í bakið en í andlitið. Ég hef gengist við minni fortíð og fólk veit að gæinn í hempunni hefur breyst mikið frá þeim tíma sem hann var að ritstýra Bleiku og bláu.“ Davíð segir kynslóðina sem hafði gaman af Radíusbræðrum nú vaxna upp og kynslóðina sem þeir gengu fram af að hverfa. „Krökkunum sem ég er að vinna með finnst merkilegast að ég hafi talað fyrir Sigmar í Svampi Sveinssyni.“

Hefur reynslan af alkóhólisma styrkt þig í prestsstörfunum?

„Já, hiklaust, og ekki bara sem prest heldur sem manneskju. Að hafa þurft að róa lífróður til að halda geðheilsunni og náð í land hefur styrkt mig sem prest, föður, afa, bróður og vin.“

Erfiðast að fá hringingar um miðjar nætur

Trúir þú á líf eftir dauðann?

„Ég trúi á eilíft líf en við mælum það ekki í tíma heldur gæðum. Tími er fullkomlega efnislegt hugtak og verður til með miklahvelli. Tími er ekki til í hinni andlegu vídd tilverunnar. Þegar ég segi að ég trúi á eilíft líf þýðir það ekki að ég trúi á einhverja óendanlega langa tilvist í einhverri hliðarveröld, heldur óendanlega góða tilvist í hinni andlegu vídd.“

En hvað með helvíti?

„Ég trúi að laun syndarinnar séu dauði. Dauði er ekki eilíft líf í kvöl heldur endir tilvistar. Ég skil talið um eldsofninn þannig.“

„Ég hef ekki brotnað niður, en hef þurft að eiga stund með sjálfum mér og guði eftir ákveðin verkefni“

Hvað er erfiðast við prestsstörfin?

„Lang erfiðast er þegar síminn hringir um miðja nótt og ég er beðinn að koma í hús þar sem orðið hefur andlát og lögreglan metur það svo að ábyrgðarlaust sé að skilja fólkið eftir eitt í því ástandi. Ég kem þá á staðinn og reyni að vera til staðar og hjálpa fólki til að fá nógu mikla ró til að geta farið að sofa.“

Hvað gerir þú?

„Ég veit það eiginlega ekki. Ég væri löngu brunninn upp ef ég væri aðeins borinn uppi af sjálfum mér. Ég held að ég sé borinn uppi af einhverjum öðrum á slíkum stundum.“

Hefur þú brotnað niður eftir slíkar heimsóknir?

„Ég hef ekki brotnað niður, en hef þurft að eiga stund með sjálfum mér og guði eftir ákveðin verkefni.“

En hvað er mest gefandi?

„Mér finnst afskaplega gefandi að finna að ég hef orðið einhverjum að liði. Annaðhvort við eitthvert vandamál sem hrjáir hann eða við að kveðja ástvin. Það erfiðasta sem maður gerir getur líka verið það mest gefandi því á þeim stundum getur návist manns verið til mest gagns.“

Davíð segir að sú fækkun sem átt hefur sér stað í Þjóðkirkjunni sé eðlileg þróun og gerist hraðar í nágrannalöndunum. „Ég held að mesti óvinur Þjóðkirkjunnar sé skipulagið sjálft. Þetta er svo stór og mikil stofnun að fólk upplifir hana sem bákn. Staðreyndin er sú að fólk er upp til hópa ánægt með kirkjuna í hverfinu sínu en nánast öll óánægjan beinist að yfirstjórninni. Viðbragðið við þessari þróun ætti að vera að Þjóðkirkjan sjáist vera grasrótarkirkja. Við þurfum að rífa píramídann og búa til raðhúsalengju.“

Myndi kæra Útlendingastofnun

Alla tíð hafa mannréttindamál skipt Davíð miklu máli og hefur hann verið meðlimur í Amnesty International síðan á unglingsárum. Í átta ár sat hann í stjórn samtakanna og í fimm ár var hann formaður Íslandsdeildar. Í seinni tíð hefur hann látið málefni hælisleitenda og flóttafólks sig miklu varða. Hann segir að hvernig Íslendingar taki á móti kvótaflóttafólki sé til fyrirmyndar en öðru máli gegni um hælisleitendur.

„Bjartsýni mín varðandi þessa ríkisstjórn í heild er hófleg.“
Mannréttindin hjartans mál „Bjartsýni mín varðandi þessa ríkisstjórn í heild er hófleg.“

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

„Ég fæ ekki betur séð en að Útlendingastofnun sé hvað eftir annað að brjóta bæði barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og íslensk barnaverndarlög. Í íslenskum barnaverndarlögum segir að þau nái yfir öll börn á yfirráðasvæði íslenska ríkisins. Öll börn eiga rétt á umgengni við báða foreldra og fjölskyldur hafa verið brotnar upp, til dæmis þegar Tony Omos var sendur úr landi. Í barnasáttmálanum, sem á að heita lögfestur á Íslandi, segir að allar ákvarðanir um börn verði að taka með hag barnanna að leiðarljósi. Fólkið er sent út í algjöra óvissu. Það er smánarblettur á íslenskum stjórnvöldum hvernig komið er fram við fjölskyldur og börn sem leita hér hælis.“

Hann segir að skýlaus grundvöllur sé til að kæra Útlendingastofnun fyrir þessar aðgerðir og hann myndi gera það sjálfur ef hann væri hagsmunaaðili samkvæmt lögum. „Ég fagna því að ný ríkisstjórn segist ætla að taka við fleira flóttafólki en ég vona að hún geri skurk í því að skikka Útlendingastofnun til að virða íslensk barnaverndarlög og barnasáttmálann.“

Eins og flestir vita er Davíð fyrrverandi sambýlismaður Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra. „Ég vona það besta og óska henni velfarnaðar en bjartsýni mín varðandi þessa ríkisstjórn í heild er hófleg. Ég hef enga ástæðu til þess að efast um að Katrín verði góður forsætisráðherra. En hún er ekki ein í þessari ríkisstjórn og í henni situr fólk, án þess að ég nefni nein nöfn, sem ég vona að verði fyrir góðum áhrifum og breyti háttum sínum.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Gaf Díegó í jólagjöf

Nýlegt

433Sport
Fyrir 2 klukkutímum

Fimm framherjar á blaði Amorim – Setur það í forgang að sækja í þá stöðu

Fimm framherjar á blaði Amorim – Setur það í forgang að sækja í þá stöðu
Fréttir
Fyrir 2 klukkutímum

Ólga í Mosfellsbæ vegna opnunar meðferðarheimilis fyrir unglinga – Bæjarstjóri segir upplýsingar um gæsluvarðhald í Kveik villandi

Ólga í Mosfellsbæ vegna opnunar meðferðarheimilis fyrir unglinga – Bæjarstjóri segir upplýsingar um gæsluvarðhald í Kveik villandi
433Sport
Fyrir 3 klukkutímum

Sjáðu hið meinta atvik þar sem David Coote og vinur hans eiga að hafa lagt á ráðin

Sjáðu hið meinta atvik þar sem David Coote og vinur hans eiga að hafa lagt á ráðin
Eyjan
Fyrir 3 klukkutímum

Orðið á götunni: Miðjustjórn Viðreisnar, Samfylkingar og Framsóknarflokks

Orðið á götunni: Miðjustjórn Viðreisnar, Samfylkingar og Framsóknarflokks
Fókus
Fyrir 5 klukkutímum

Segist vera hársbreidd frá því að hefja kynferðislegt samband með systur sinni

Segist vera hársbreidd frá því að hefja kynferðislegt samband með systur sinni
433Sport
Fyrir 5 klukkutímum

Ef þjóðin myndi ráða landsliðsþjálfara þá fengi Arnar starfið

Ef þjóðin myndi ráða landsliðsþjálfara þá fengi Arnar starfið
Eyjan
Fyrir 6 klukkutímum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Allar hinar Norðurlandaþjóðirnar með meiri kaupmátt en við!

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Allar hinar Norðurlandaþjóðirnar með meiri kaupmátt en við!
Fréttir
Fyrir 6 klukkutímum

Umdeild Facebook-færsla Brynhildar hvarf eftir að Morgunblaðið spurðist fyrir um hana

Umdeild Facebook-færsla Brynhildar hvarf eftir að Morgunblaðið spurðist fyrir um hana