„Eldflaug Skyrora, Skylark Micro, var skotið frá Langanesi um klukkan tíu í morgun og gekk skotið vel!“ Svo segir í tilkynningu Geimvísinda og tækniskrifstofu Íslands.
Verkefnið Skylark Micro Mission I er á vegum Skyrora. Um er að ræða fyrsta geimskotið á Íslandi í 50 ár.
Staðið hefur til að skjóta eldflauginni á loft síðustu daga, en ekki verið veður til þess á Langanesi. Atli Þór Fanndal hjá Geimvísinda- og tækniskrifstofunni segist á Facebook vera stoltur af framlagi þeirra til verkefnisins og að nú hefjist vinna við næstu tækifæri.
Loka markmið Skyrora er að ferja gervihnetti út í heim. Skotið í morgun var liður í tilraunum og prófunum til að gera þeim það kleift síðar meir. Atli sagði við DV á dögunum að Langanes væri ákjósanlegur staður til starfseminnar og má búast við að nesið verið vettvangur frekari eldflaugaskota á næstu misserum.