fbpx
Mánudagur 21.apríl 2025
Fréttir

Fangelsun á Íslandi – „Fernar buxur, sex bolir, átta pör af sokkum, átta nærbuxur, fjóra brjóstahaldara“

Heimir Hannesson
Laugardaginn 15. ágúst 2020 13:00

Litla-Hraun. Mynd/Fangelsismálastofnun

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fangelsi og refsivist á Íslandi hefur gjörbreyst á örfáum árum. Að láta fanga sitja af sér fulla dómslengd í lokuðu fangelsi á Litla-Hrauni er liðin tíð. Við tóku opin fangelsi, áfangaheimili og ökklabönd. Vandinn nú eru langir biðlistar og lengri dómar sem leggjast þungt á fangelsiskerfið.

Að vera dæmdur í fangelsi er eitthvað sem fæstir fá að upplifa á eigin skinni en flestir hafa skoðun á. Í langflestum samfélögum heims er fangelsisvist alvarlegasta refsing sem lögð er við brotum á samþykktum samfélagsins. Að vera fangelsaður er ekki léttvægt. Það tekur á líf og sál einstaklings, leggst þungt á nánustu ættingja hans og hefur afleiðingar fyrir þann fangelsaða sem ná langt út fyrir veggi fangelsisins og tímaramma fangelsisdómsins. Það er því engin furða að fangelsun einstaklinga hafi verið viðfangsefni fræðimanna og spekinga allt frá tímum Forn-Grikkja.

Í stjórnmálaheimspekinni er einkaréttur hins opinbera á beitingu valds sagður liggja í samfélagssáttmála einstaklinga og samfélagsins. Samkvæmt honum erum við, samfélagsþegnar, bundnir samningi við samfélagið. Við framseljum hluta af einstaklingsfrelsi okkar gegn því að fá að vera þátttakendur í samfélaginu og skuldbindum okkur til að lúta refsingu brjótum við reglur samfélagsins.

Sögðu sömu spekingar að lögum væri ekki hægt að framfylgja án refsinga. Þannig fylgdi til dæmis elstu lögbók Íslendinga, Grágás, refsirammi sem beita mætti við brotum á lögunum. Refsingar voru ýmist fésektir, útlegð, samfélagsleg útskúfun eða að vera dæmdir réttdræpir. Þessi kafli í íslenskri réttarsögu stóð svo til óbreyttur allt fram að síðustu aftökunni, þótt útfærsla refsinga hafi vissulega tekið breytingum í gegnum aldirnar. Þannig voru til dæmis aftökur með gapastokki framkvæmdar hér á landi í um 60 ár í lok 18. aldar.

mynd/Fangelsismálastofnun

Með lögum skal land vort byggja…

Árið 1801 var svo Landsyfirréttur stofnaður hér á landi sem starfaði til 1919 og tók Hæstiréttur Íslands til starfa árið 1920, fyrir sléttri öld. Íslendingar fengu svo eigin stjórnarskrá 1874. Þar sagði: „Sjerhver sá, sem tekinn er fastur, skal leiddur fyrir dómara svo fljótt sem auðið er. Megi þá eigi jafnskjótt láta hann lausan aptur, ber dómaranum svo fljótt sem verður, og í seinasta lagi áður en 3 dagar sjeu liðnir frá því, að sá, sem tekinn er fastur, var leiddur fyrir dómara, að leggja á úrskurð, er byggður sje á tilgreindum ástæðum, um hvort hann skuli settur í varðhald, og megi láta hann lausan móti veði, þá skal ákveðið í úrskurðinum, hvert eða hversu mikið það skuli vera.“ Er þetta eitt örfárra mannréttindaákvæða í upprunalegri stjórnarskrá okkar Íslendinga.

Það hversu mikil áhersla er lögð á persónufrelsi einstaklinga í mannréttindakafla stjórnarskrárinnar er vitnisburður um mikilvægi frelsi einstaklingsins og hve íþyngjandi það er að svipta mann því frelsi. Í dag er öldin önnur. Í dag gildir hafsjór af stjórnarskrárákvæðum, lögum og reglugerðum um fangelsun einstaklinga að ónefndum sjálfum Mannréttindasáttmála Evrópu, auk fjölda fordæmisgefandi dóma Mannréttindadómstóls Evrópu og Hæstaréttar Íslands. Langflestir af þessum textum miða að því að verja einstaklinginn gegn ofríki hins opinbera.

…en eigi með ólögum eyða

Þegar einstaklingur brýtur af sér á Íslandi gilda almenn hegningarlög og er þá einstaklingur dæmdur eftir refsiramma sem skýrður er í þeim. En þegar til afplánunar kemur gilda lög um fullnustu refsinga. Í fyrstu grein laganna er línan lögð fyrir markmið refsinga í íslensku réttarkerfi. Markmið laganna er þar sagt vera að fullnusta refsinga fari örugglega fram, að varnaðaráhrif refsinga sé virk, og að draga úr ítrekun brota „og stuðla að farsælli betrun“.

Fangelsismálastofnun sér um fullnustu refsinga á Íslandi samkvæmt lögunum. Fangelsismálastjóri, sem í dag er Páll Winkel, veitir þeirri stofnun forstöðu og skal hann skipa fangelsisstjóra yfir hverju fangelsi.

Fernar buxur og fjórir brjóstahaldarar

Afplánunarferlið hjá einstaklingi er mismunandi og munar þar mestu um alvarleika glæps. Í alvarlegustu glæpunum, eða ef um endurtekin brot er að ræða, gæti verið að sakborningur sé í gæsluvarðhaldi við dómsúrskurð og hefur hann þá afplánun um leið og dómur fellur. Sé glæpurinn ekki metinn það alvarlegur að hefja þurfi afplánun strax, fer fangi á biðlista eftir afplánun. Fangar geta þó óskað eftir því að hefja afplánun strax og er þá leitast við því eftir fremstu getu að verða við þeirri ósk, að sögn Fangelsismálastofnunar.

Allir sem hefja afplánun mæta í Fangelsið að Hólmsheiði, nema annað sé tilgreint, ekki seinna en klukkan 17.00 á þeim degi sem þeir eru boðaðir í fangelsið. Fangar mega hafa með sér fernar buxur, sex boli, átta pör af sokkum, átta nærbuxur, fjóra brjóstahaldara, þrjú pör af skóm (þar af eitt par af inniskóm og eitt par af kuldaskóm), eina úlpu, einn jakka, eina húfu og eitt par af vettlingum. Ókeypis aðgangur að þvottavélum stendur föngum til boða.

Tannkrem, sjampó, hárnæring, svitalyktareyðir, húðkrem og varasalvi eru til sölu í fangelsinu. Þá má fangi hafa með sér maskara, augnblýant og rakakrem.

Þegar fangi hefur hafið afplánun á Hólmsheiði fer flutningsteymi Fangelsismálastofnunar yfir það hvort viðkomandi afpláni allan tímann þar eða verði fluttur í annað fangelsi. Við slíkar ákvarðanir er litið til aldurs, kynferðis, búsetu, brotaferils og þyngdar refsingar.

Kvíabryggja opnuð öllum

Ef lengd fangelsisdóms og hegðun fanga gefur tilefni til er fangi fluttur í opið fangelsi. Regla Fangelsismálastofnunar er að enginn skuli sitja í opnu fangelsi lengur en í þrjú ár. Því þarf fangi að hafa hlotið talsvert langan dóm til þess að „vinna sér inn“ dvöl á Hólmsheiði eða Litla-Hrauni í lengri tíma.

Einn fangagangurinn á Hólmsheiði. Þar er pláss fyrir 56 fanga. mynd/Fangelsismálastofnun

Í kjölfar vistunar í opnu fangelsi er næsta skref afplánunar dvöl á áfangaheimilinu Vernd í Reykjavík. Þar stunda fangar ýmist nám eða vinnu og eru frjálsir ferða sinna á daginn en þurfa að koma til baka að kvöldi til. Síðasta skref afplánunar áður en sækja má um reynslulausn er svokallað rafrænt eftirlit. Þar þarf fangi að lúta svipuðu útgöngubanni og á Vernd, nema að hann endar daginn heima hjá sér. Er þá sett upp svokölluð heimastöð á heimili fangans sem nemur nærveru ökklabandsins.

Mikil bylting hefur orðið á útfærslu refsivistar á örfáum árum. Í upphafi aldarinnar voru aðeins 14 pláss í opnum fangelsum, öll á Kvíabryggju. Með fjölgun plássa á Kvíabryggju og opnun fangelsisins að Sogni fjölgaði plássum í opnum fangelsum í 44. Það er því þreföldun á örfáum árum. Er þessi breyting sögð hafa opnað á möguleika allra fanga til að komast að í opnu fangelsi og ýtt undir þá menningu innan fangelsanna að góð hegðun skipti máli og sé verðlaunuð. Ímyndin um Kvíabryggju sem hvítflibbaglæpamannafangelsi á því ekki lengur við.

Stóraukin þrepaskipting afplánunarleiða

Lokuðu og opnu fangelsin eiga það eitt sameiginlegt að þaðan má ekki fara. Refsingin er þannig að vera tekinn úr samfélaginu, burt frá fjölskyldu og vinum. Eðli málsins samkvæmt er eftirlit meira í lokuðum fangelsum. Þau eru afgirt og þaðan er erfiðara að strjúka. Raunar hefur enginn strokið úr lokuðu fangelsi á Íslandi síðan árið 2012. Úr opnu fangelsi getur fangi farið ef og þegar hann vill. Fangarnir vita hins vegar að það er þeim dýrkeypt. Strok úr fangelsi hefur áhrif á afplánunarferlið í heild. Fangar missa þannig fríðindi sem þeir kunna að hafa unnið sér inn og það getur haft áhrif á tækifæri fanga til reynslulausnar.

Gert er ráð fyrir því að menn sitji hálfan dóm af sér í fangelsi, en tvo þriðju hluta dómsins ef um alvarlegt ofbeldis- eða fíkniefnamál er að ræða. Fyrir rúmum áratug mátti einstaklingur sem hlaut 12 ára dóm undir „2/3 reglunni“ búast við því að sitja sjö ár í lokuðu fangelsi og svo eitt ár á Vernd. Í dag er staðan allt önnur. Nú má einstaklingur sem hlýtur 12 ára dóm búast við að sitja 2-3 ár í lokuðu fangelsi, 3 ár í opnu fangelsi, allt að 16 mánuði á Vernd og svo ár í rafrænu eftirliti á eigin heimili, eftir það má fanginn búast við reynslulausn. Þannig færist fanginn í þrepum nær fullri þátttöku í samfélaginu í stað þess að fara beint úr lokuðu fangelsi, í stuttan tíma á Vernd og beint út í samfélagið á ný.

Páll Winkel fangelsismálastjóri segir þessa breytingu ekki tilkomna vegna sparnaðaraðgerða heldur sé hún úthugsuð og miði að því að lækka endurkomutíðnina. Segir hann að þessi „dempaða“ endurkoma í samfélagið eftir fangelsisvist mýki höggið og geri mönnum auðveldara fyrir að aðlagast samfélaginu á ný. Endurkomutíðni í fangelsin er líkast til eini mælikvarðinn á velgengni þessarar nýju stefnu og ljóst að Ísland stendur sig vel. Samanborið við Norðurlöndin stendur Ísland sig best með um 20% endurkomutíðni innan tveggja ára. Danmörk, Finnland og Svíþjóð mælast öll yfir 33%.

Bið eftir afplánun „stóra vandamálið“

Stóra málið í fangelsismálum Íslands í dag, að sögn Páls, eru biðlistarnir. Biðlistar eftir afplánun eru ekki gömul uppfinning. Fyrst fór á þeim að bera upp úr 2005 og hafa þeir vaxið síðan. Ef samanlögð lengd fangelsisdóma er skoðuð eftir árum má sjá mikla uppsveiflu upp úr 2005 og eðlilegt að draga þá ályktun að samhengi sé á milli lengdar biðlista eftir afplánun og þyngdar dóma. Að sama skapi má greina hraða fjölgun í meðaltalsfjölda gæsluvarðhaldsfanga per dag. Allt leggst þetta á fangelsiskerfið. Þyngri dómar þýðir að hver afplánun tekur lengri tíma og fleiri gæsluvarðhaldsfangar þýðir að sjálfsögðu færri pláss fyrir „almenna“ afplánun.

Að sögn Páls er Fangelsismálastofnun og fangelsiskerfið í stakk búið til að takast á við þessa þyngingu í dómum. Afkastagetan er nokkurn veginn á pari við dæmdar refsingar dómstóla í dag. Hins vegar þýðir það að kerfið nær ekki að höggva á biðlistana. Til þess að ná að saxa þar á þarf aukið fjármagn.

Fangelsið að Hólmsheiði mynd/Fangelsismálastofnun

Rekstur Fangelsismálastofnunar er sveiflukenndur og erfitt að spá um framtíðarhorfur. Má rekja það til þess að fjöldi fanga veltur auðvitað á umfangi brotastarfsemi sem lögreglu tekst að afhjúpa á næstu misserum og lengd dóma sem falla í kjölfarið. Það er erfitt að sjá slíkt fyrir. Það er jafnframt ljóst að íslenska kerfið er það lítið að aðeins örfá stór fíkniefnamál geta breytt heildarstöðu kerfisins.

Þannig féllu nýverið mjög þungir dómar í tveimur aðskildum amfetamínframleiðslumálum. Í því fyrra voru þrír dæmdir til samanlagðrar 16 ára fangelsisvistar. Í því seinna fengu sexmenningar samtals 22 ára fangelsisdóm. Samanlagt gera það 38 ár. Samkvæmt „2/3 reglunni“ eru það 28 ár af vistun í fangelsi. Það eru 10.220 dagar af fangavörslu, fangaakstri, fangamáltíðum, heimsóknum aðstandenda í fangelsi, dagpeningum fanga og 10.220 nætur á kostnað hins opinbera.

Slíkt er ekki ókeypis.

 

Greinin birtist fyrst í helgarblaði DV síðustu helgi. Fyrir upplýsingar um áskrift að blaði DV má senda póst á askrift@dv.is.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Dularfullt mál: Leita að þremur manneskjum eftir að bátur fannst mannlaus

Dularfullt mál: Leita að þremur manneskjum eftir að bátur fannst mannlaus
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Handrit gefur til kynna að Kólumbus hafi vitað af Ameríku – „Marckalada“

Handrit gefur til kynna að Kólumbus hafi vitað af Ameríku – „Marckalada“