DV sagði frá því fyrr í dag að nú væri verið að vinna að því að rekja eitthver þeirra hópsmita sem komið hafa upp nýlega. Samkvæmt heimildum DV er um að ræða 32 smit með óljósan uppruna. Þó er ljóst að um þessi 32 smit eigi sér sama uppruna. Þau séu ekki frá Skandinavíu og ekki frá þeim löndum sem við teljum örugg. Smitrakningateymi vinnur nú hörðum höndum að komast að því hvernig og hvaðan þetta smit komst á kreik.
Sjá nánar: Uppruni hópsmits í Vestmannaeyjum enn óljós – sjáðu aðferðir smitrakningateymisins
Í hópi smitaðra eru nú þrjár óléttar konur. Ekki er vitað til þess að svo margar óléttar konur hafi verið smitaðar í einu áður. Þetta kom fram á upplýsingafundi almannavarna. Þar kom jafnframt fram að slík smit væru ekki hættuleg börnum, né bærist smit með móðurmjólkinni. Kári Stefánsson tók undir þetta í samtali við DV fyrr í dag og sagði að ekkert benti til þess að smit bærist frá móður til fósturs. Veikindi meðal óléttra kvenna væru þó alltaf óæskileg, sagði Kári.
Samkvæmt verklagsreglum heilbrigðisyfirvalda frá því í vor hafa konurnar verið teknar úr mæðraskoðun hjá heilsugæslum sínum og munu skoðanir og hefðbundið meðgöngueftirlit með konunum og ófæddum börnum þeirra fara fram á fæðingardeild Landspítalans.
Herma sömu heimildir að öllum konunum heilsist vel.
Alma Möller sagði á blaðamannafundi almannavarna fyrr í dag að hlutdeild fólks á aldrinum 18-29 ára í heildarfjölda smitaðra væri hlutfallslega hærri nú en áður. Raunar eru flestir smitaðra í dag í þeim aldurshópi.
Enn fremur hefur verið mikið fjallað um ástand á veitinga- og skemmtistöðum í miðbæ Reykjavíkur undanfarið. Sagði lögreglan til dæmis á sunnudaginn síðast liðinn að hún hefði ekki treyst sér inn á suma staði í Reykjavík sökum mannmergðar og tilheyrandi smithættu. Sagðist lögreglan í opinberri tilkynningu ætla eftir uppákomur helgarinnar að fara að beita sektum og lokunum í meiri mæli. Enn fremur var haft á því orð að „líta þyrfti til þess,“ að ungt fólk yrði hugsanlega kærulaust um tveggja metra regluna eftir „nokkra kalda.“
Smit þunguðu kvennanna er einkar athyglisvert í þessu ljósi, en nokkuð ljóst þykir að konurnar fjórar voru ekki ölvaðar.