DV sagði frá því fyrir skemmstu að erni hafi verið stolið fyrir framan Landsbankann á Egilsstöðum. Verkið, um 50 kílóa þungt trélistaverk eftir Grétar Reynisson, var á steyptum stöpli sem skemmdist við þjófnaðinn í síðustu viku. Var þá haft á eftir Óðni Gunnari Óðinssyni, skrifstofustjóra Fljótsdalshéraðs, að styttunni hafi verið ruggað til og síðan rifin upp.
Sjá nánar: Lögreglan á Austurlandi rannsakar furðulegan listaverkaþjófnað
Nú er styttan hins vegar komin í leitirnar, en þeir seku leika enn lausum hala. Segir vefurinn Austurfrétt frá því að eftirgrennslan hafi leitt til þess að erninum var skilað. Í tilkynningu lögreglunnar á Austurlandi segir að hann hafi fundist við hringtorg á Þjóðvegi 1 þar sem vegurinn liggur um Kirkjubæjarklaustur, um 400 kílómetra frá heimili sínu. Örninn veglegi er nú í vörslu lögreglunnar á Suðurlandi og bíður heimferðar, segir lögreglan á Austurlandi. Verkið er óskemmt.
Málið er enn í rannsókn og segir lögreglan að líklegt þyki að um „bernskubrek fullorðinna,“ að ræða.