New York Times segir að embættismaður hafi komið að máli við Kristi Noem, ríkisstjóra Suður-Dakóta, á síðasta ári til að kanna hver hin „opinbera leið“ væri til að hægt væri að bæta andliti eins forseta við hjá þeim fjórum sem fyrir eru á Mount Rushmore en það eru andlit George Washington, Thomas Jefferson, Theodre Roosevelt og Abraham Lincoln en þeir eru líklegast frægustu forsetar landsins.
Trump tjáði sig um þetta á Twitter í gær og sagði að um „fake news“ væri að ræða en lofsamaði um leið þann árangur sem hann hefur náð á valdatíma sínum.
„Hef aldrei stungið upp á þessu en miðað við árangurinn á fyrstu 3 ½ árinu í embætti, kannski meiri árangur en hjá nokkrum öðrum forseta, þá hljómar þetta sem góð hugmynd.“
Trump hefur að sögn áður hugleitt að fá andlit sitt höggvið út í fjallshlíðina. Kristi Noem er sögð hafa sagt að í samtali við Trump 2018 hafi hann sagt henni að það væri „draumur“ hans að andlit hans yrði höggvið út í Mount Rushmore. Þetta sagði hann að hennar sögn þegar þau hittust í fyrsta sinn í Hvíta húsinu.