Samtökin Jarðarvinir hafa birt býsna harðorða auglýsingu á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum undanfarið þar sem ríkisstjórnin er sökuð um stórfellt dýraníð með því að heimila dráp á hreindýrskúm áður en kálfar þeirra hafa náð aldri til að verða sjálfbjarga, eða allt niður í átta vikna.
„Í dag, 1. ágúst, má aftur fara að skjóta hreinkýr, en kálfar þeirra fæðast fram að mánaðarmótum maí-júní, og eru yngstu kálfar því rétt 8 vikna. Ekkert 8 vikna spendýr, hvorki hvolpar, lömb, kálfar né folöld, hafa náttúrlega burði til að standa á eigin fótum, ein með sjálfu sér, enda drekka hreinkálfar móðurmjólkina minnst til 5 mánaða aldurs og fylgja móður sinni fram á næsta vor, ef bæði lifa. Í september í fyrra beindi Fagráð um velferð dýra, undir stjórn yfirdýralæknis, þeim tilmælum til Umhverfisstofnunar (UMST) og umhverfisráðherra, „að kýr verði ekki skotnar frá kálfum yngri en þriggja mánaða“. Skv. því hefði alls ekki mátt byrja að fella hreinkýr fyrr en 1. september. Guðmundur Ingi ákvað þó að fara að vilja Náttúrustofu Austurlands (NA) og UST, þar sem veiðimenn virðast gefa tóninn, eða ráða för, og fjárhagslegur ávinningur þessara stofnana og austfirskra bænda og landeigenda spila stóra rullu, í stað þess að taka af skarið og beita eigin valdi til að forðast augljósu og kaldrifjuðu dýraníði. „Grænt“ var greinilega gleymt. Dýrin kvarta heldur ekki, en veiðimenn vaða uppi og þægilegra að hafa þá stillta og góða. Eins var það gleymt, eða virt að vettugi, að skv. skýrslum NA, benda allar líkur til þess, að um 600 hreinkálfar hafi farizt veturinn 2018-2019, en á sumum svæðum fórst allt að annar hver kálfur. Var vetur þó í mildara lagi. Líklegt er, að mestur hluti þeirra kálfa sem fórust með þessu hörmulega hætti – úr hungri, kulda og vosbúð – hafi verið móðurlausir angar.
Allir, sem láta sig dýra-, náttúru- og umhverfisvernd nokkru skipta, verða að velta því fyrir sér, hvort þeir vilji styrkja þetta fólk til nýrra valda. Það eru kosningar næsta haust.“
Forsprakki Jarðarvina er Ole Anton Bieltveldt og DV hafði samband við hann til að kanna baksvið þessa málflutnings og fræðast betur um gagnrýni Jarðarvina á fyrirkomulag hreindýraveiða hér á landi.
„Ég hef búið lengi erlendis og kom hingað heim síðla árs 2016. Þá fór ég að skoða ýmislegt, meðal annars stöðuna í dýra-, náttúru- og umhverfisverndarmálum og var ekki sáttur við það sem ég sá, miðað við það sem ég þekkti til, en ég bjó lengst af í Þýskalandi. Ég stofnaði því Jarðarvini í framhaldi af því og fór að vinna í þessu. Á þeim tíma var enginn að sinna þessu en við herjuðum á umhverfisráðherra og þá aðila sem fara með málið og það leiddi loksins til þess að yfirdýralæknir, sem er formaður yfir fagráði um velferð dýra, tók þetta fyrir á fundi hjá þeim, í september 2019, og þau tóku undir okkar sjónarmið um það væri allsendis ófært að drepa kýrnar frá svona litlum kálfum. Þau tóku undir það sjónarmið að kálfarnir ættu minnst að vera þriggja mánaða við upphaf veiða, sem var okkar aðalbaráttumál. Í rauninni viljum við stoppa þetta alveg en það er markmið sem ekki er hægt að ná á stuttum tíma. Þannig að við vildum einbeita okkur að því að griðatími kálfa yrði lengdur, lágmark upp í 3 mánuði. Þeir eru að fæðast fram eftir maí, þessir ræflar, en líka alveg fram í júní, og svo er byrjað að drepa kýrnar 1. ágúst.“
Ole vandar hreindýraveiðimönnum ekki kveðjurnar en hann telur að það sem hamli hertari reglum séu ítök áhrifamanna sem stundi hreindýraveiðar:
„Fagráðið tók undir þetta en veiðimenn eru með óhemjusterka stöðu. Það eru margir menn hér í leiðandi stöðum í fyrirtækjum og embættismenn líka, sem eru veiðimenn og þeir standa hatrammlega gegn því að griðatíminn sé lengdur. Í október er fengitími hreindýra og ef ætti að drepa þennan fjölda og ekki yrði byrjað fyrr en 1. september, þá yrðu þeir að drepa eins og þeir gætu í september, en síðan yrðu þeir að gefa dýrunum grið á fengitíma. Þá yrðu menn að veiða líka í nóvember. En þeir veigra sér við kulda og vosbúð sjálfir við veiðarnar, þess vegna hafa þeir barist gegn því að griðatíminn yrði lengdur og veiðitímabilið lengt.“
„Svo kom umhverfisráðherra fram með það núna í síðustu umferð að veiðar mættu aftur byrja 1. ágúst eins og verið hefur en hann beindi þeim tilmælum til veiðimanna að þeir myndu drepa fyrst geldar kýr. Það eru tilmæli sem eru út í hött því það er ekki nema sirka tíunda hver kýr sem er geld. Og hvernig eiga menn að elta uppi þessar geldu kýr. Ég var nú þarna á ferðinni fyrir austan nýlega til að skoða hreindýr og stærð kálfa og burði. Á þessum tíma við fórum þarna vítt og breitt og fundum engin dýr. Það er auðvitað ekki mikið um þessi blessuð dýr og þetta eru stór svæði og það að finna geldar kýr og drepa þær í stórum stíl, það er alveg ómögulegt, þannig að þetta er bara sýndarmennska og fyrirsláttur hjá umhverfisráðherra.“
Ole bendir á að fram til 2010 hafi verið skylda að drepa kálfana með kúnum en framferði veiðimanna hafi gert það ákvæði marklaust:
„Fram til ársins 2010 voru reglur þær að það yrði að drepa kálfana með kúnum vegna þess að ráðamenn þess tíma vissu að kálfarnir gætu illa bjargað sér einir 8 vikna eða jafnvel 10 vikna, þess vegna var það fyrirkomulag í gildi að það yrði að drepa kálfana með kúnum. En veiðimenn voru ekki heiðarlegri en það að þeir drápu oft bara stærsta kálfinn úr hjörðinni til að fá sem mest kjöt. Þannig að þeir voru ekki endilega að drepa kálf kýrinnar sem drepin var heldur kálf einhverrar allt annarar kúar. Þannig að þetta var þvílík djöfulsins ósvinna og það sáu það allir.“
Segir Ole að þessi kálfadráp hafi skapað enn meiri glundroða í hreindýrahjörðum: „Þá missti kýr kálf og svo missti kálfur kú og þetta var allt í einni ringuleið.“ Var þessum reglum breytt og horfið frá því að skylda að drepa kálf með drepinni kú.
„Veiðitími hreindýrakúa byrjar 1. ágúst og stendur til 20. september. En við viljum að veiðitími hreindýrakúa byrji 1. september og fagráð um dýravelferð tekur undir með okkur og studdi okkur alveg í því – og veiðitími verði þá í september og nóvember. Vegna þess að fengitími er í október og það er ekki hægt að ráðast að dýrunum þá. Þannig að okkar tilmæli til umhverfisráðherra eru að kálfanir og kýrnar fái grið til 1. september.“
Helst vilja Jarðarvinir að hreindýraveiðar leggist af og Ole bendir á að það séu aðeins um 5.000 hreindýr í landinu en til samanburðar séu á bilinu 600 til 750 þúsund kindur og um 75 þúsund hross.
„Hreindýr eru fágæt sjón og þetta eru dýr í útrýmingarhættu. Þau eru friðuð nánast alls staðar í Evrópu og þau ættu í raun að vera á skrá yfir dýr í útrýmingarhættu hér. En þar sem þau eru flokkuð sem innflutt dýrategund eru þau undanþegin slíkri flokkun.
Hreindýr voru flutt til landsins á 18. öld en Ole vekur athygli á því að nánast öll dýr í landinu séu af innfluttum tegundum. Það sé einungis stigsmunur en ekki eðlismunur hvenær tegundin var flutt inn í landið. Eini frumbygginn hér sé pólarrefurinn (íslenska tófan), önnur dýr hafi verið flutt inn á mismunandi tímaskeiðum.