Daði Freyr, næstum því sigurvegari Eurovision og forkólfur Gagnamagnsins, birti í dag ábreiðu sína af laginu Jaja Ding Dong. Jaja Ding Dong varð frægt í nýjustu mynd Wills Farrells um Eurovision keppnina og fulltrúa Íslands í henni. Myndin, Eurovision Song Contest: The Story of Fire Saga, hlaut afburða slæma dóma en Íslendingar virðast hafa tekið henni fagnandi því lagið Jaja Ding Dong hefur hangið á vinsældalistum hér heima síðan hún kom út.
Ábreiða Daða má sjá hér að neðan, en í innganginum segir hann að þetta sé í fyrsta og síðasta skipti sem hann spili lagið. Hvort það sé staðhæfing hans, eða tilvísun í myndina verður að koma í ljós – en (höskuldarviðvörun) í myndinni er sífellt beðið um að þetta lag sé spilað umfram önnur lög sem aðalpersóna myndarinnar vill frekar spila.
Hér að neðan má sjá ábreiðu Daða Freys.