Í skjölunum lýsir Giuffre því að þegar hún var 17 eða 18 ára hafi hún verið látin dvelja ein með prinsinum á stórri landareign í Santa Fe í Bandaríkjunum. Þar var hlutverk hennar að sinna prinsinum á meðan hann dvaldi þar. Gilti þá einu hvort um útreiðartúra, sundferðir eða nudd var að ræða. The Mirror skýrir frá þessu. Giuffre segist hafa verið kynlífsþræll Epstein á þessum tíma.
Fyrir „vinnuna“ í kringum prinsinn fékk Giuffre greitt sem svarar til um 130.000 íslenskra króna frá Epstein.
„Vinnan mín fólst í að hafa ofan af fyrir honum í sífellu. Það gat verið að láta hann fá aðgang að líkama mínum í tengslum við erótískt nudd eða bara að fara með honum í reiðtúr.“
Sagði Giuffre fyrir dómi. Hún heldur því einnig fram að það hafi verið Maxwell sem skipulagði þessa dvöl sem átti sér stað 2001. Hún sagði einnig að eftir að dvölinni lauk hafi hún hitt Epstein og Maxwell í New York til að segja þeim frá dvölinni. Epstein var að hennar sögn ánægður með það sem hafði gerst í ferðinni og greiddi henni fyrrgreinda upphæð fyrir.
Mál Epstein er flókið og ljóst að ekki eru öll kurl komin til grafar. Enn er ekki ljóst hversu náin tengsl Andrew prins voru við hann og Maxwell. The Mirror segir að fyrrum starfsmaður á landareigninni í Santa Fe hafi sagt að hann hafi séð prinsinn þar en aldrei nema Epstein og Maxwell væru með í för en það stangast á við það sem Giuffre sagði fyrir dómi. Prinsinn þvertekur fyrir allar ásakanir Giuffre.
Þessi nýju gögn auka enn þrýstinginn á bresku lögregluna um að fá aðgang að skjölum um ferðir prinsins en slík skjöl eru til og ná 30 ár aftur í tímann. Í þeim er hægt að sjá nákvæmar upplýsingar um dagsetningar og tímasetningar ferða hans. Þessi gögn geta væntanlega varpað enn frekara ljósi á málið.
Epstein fyrirfór sér í fangelsi í New York á síðasta ári en hann hafði verið ákærður fyrir mansal. Maxwell á að koma fyrir dóm á næsta ári en hún er meðal annars sökuð um kynferðisbrot gagnvart barnungum stúlkum.