Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag. Haft er eftir Boga Nils Bogasyni, forstjóra Icelandair, að allir þræðir fjárhagslegrar endurskipulagningar félagsins séu háðir því að hlutafjárútboðið gangi vel en stefnt er að því að það fari fram í ágúst.
„Allt er háð því að hlutafjárútboðið gangi vel. Við höfum verið að undirbúa útboðið. Engar formlegar viðræður eru hafnar. Þær munu hefjast í ágústmánuði, þegar skráningarlýsing liggur fyrir.“
Er haft eftir Boga.
Í tilkynningu sem Icelandair sendi frá sér á föstudagskvöldið kemur fram að fyrirtækið hafi samið við flesta kröfuhafa og að viðræður við Íslandsbanka, Landsbanka og ríkið um lánveitingu með ríkisábyrgð séu langt á veg komnar.
Aðspurður sagði Bogi að ekki liggi fyrir á þessu stigi hvort skilyrði hafi verið sett um hve háa fjármögnun þurfi að tryggja fyrir lánveitingu en verið sé að vinna í því. Hann sagði stefnt að því að klára viðræður um fjárhæðir og frágang lokasamkomulags við íslensku bankana í vikunni.
„Nú förum við í að klára formlega samninga við þá lánardrottna sem eftir eru og íslensku bankana. Allt er þó háð því að útboðið gangi upp, þ.e.a.s. lánalínan sem ríkið er að ábyrgjast.“
Er haft eftir Boga sem sagði að einnig væri stefnt að því að klára samkomulag við Boeing um bætur vegna kyrrsetningar Max-vélanna nú í vikunni.