fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fréttir

Reka umfangsmikla leigustarfsemi án leyfa

Leiguherbergi ehf. leigja út um 160 herbergi á þremur stöðum á höfuðborgarsvæðinu

Björn Þorfinnsson
Föstudaginn 1. desember 2017 10:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fyrirtækið Leiguherbergi ehf. rekur gististarfsemi í nokkrum fasteignum á þremur stöðum á höfuðborgarsvæðinu. Fasteignirnar eru að Funahöfða 17a og 19 í Reykjavík, Dalshrauni 13 í Hafnarfirði og Smiðjuvegi 68, 70 og 72 í Kópavogi. Alls býður fyrirtækið upp á um 160 herbergi í þremur stærðum og er leiguverð frá 76 þúsundum og upp í 107 þúsund krónur á mánuði. Verkamenn frá Austur-Evrópu eru uppistaðan af viðskiptavinum félagsins en einnig eru þar Íslendingar á hrakhólum.

Leiguherbergi ehf. er að fullu í eigu fyrirtækisins LTC ehf. sem er síðan alfarið í eigu Símonar I. Kjærnested, eins stofnanda Atlantsolíu og núverandi fjármálastjóra félagsins. Í forsvari fyrir Leiguherbergi ehf. er hins vegar sonur Símonar, Stefán Kjærnested, sem er titlaður framkvæmdastjóri félagsins. Þá fer hann einnig með prókúru í báðum félögunum, Leiguherbergi ehf. og LTC ehf. Fasteignirnar eru í eigu tveggja félaga, Atlants Holding ehf. (Funahöfði og Smiðjuvegur) og D-13 ehf. (Dalshraun). Þessi tvö eignarhaldsfélög eru síðan í eigu LTC ehf.

Sameiginleg rými, klósett, þvottaaðstaða og eldhús eru óþrifaleg.
Óþrifnaður Sameiginleg rými, klósett, þvottaaðstaða og eldhús eru óþrifaleg.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Miklar tekjur en lítill hagnaður

Fyrir þremur árum gaus upp fjölmiðlafár vegna umfjöllunar fréttaskýringarþáttarins Bresta um aðbúnað leigjenda í áðurnefndum húsum. Kastljós þáttarins beindist að fasteignunum við Funahöfða þar sem um fjörtíu einstaklingar bjuggu – útlendingar, einstaklingar á hrakhólum, fíklar, ungt fólk í háskólanámi og fjölskyldufólk.

Í umfjölluninni var fullyrt að óþrifnaður væri mikill og pöddur voru sagðar skríða um gólf. Einnig var að sögn öllu lauslegu stolið. „Hann er bara að bjóða upp á þjónustu sem eftirspurn er á. Það er betra að búa hér en hvergi,“ sagði einn leigjandinn við fjölmiðlamenn fyrir þremur árum.

Síðan þá hefur lítið breyst nema hvað umfang starfseminnar hefur vaxið enda eftirspurnin eftir húsnæði aukist gríðarlega undanfarið. Segja má að feðgarnir hafi fundið ríkulega tekjulind því tekjurnar eru miklar. Þó vill svo til að hagnaður af starfseminni er hverfandi. Leigutekjur Leiguherbergja ehf. árið 2016 voru 131 milljón króna en rekstrargjöld voru 119 milljónir króna. Stærstur hluti var leigugreiðslur til eignarhaldsfélaga feðganna (66 milljónir) og rekstrarkostnaður íbúðanna (33 milljónir króna). Afkoma ársins var um 10 milljónir króna og greiddir skattar tvær milljónir.

Auglýsingin um hækkun á húsaleigunni frá því í sumar hangir enn uppi. Ekki kemur fram hver leigan var fyrir.
Nýr verðlisti Auglýsingin um hækkun á húsaleigunni frá því í sumar hangir enn uppi. Ekki kemur fram hver leigan var fyrir.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Þessi afkoma er talsvert betri en afkoma eignarhaldsfélaga Kjærnested-feðga. Atlants Holding fékk greiddar 48 milljónir króna í húsaleigu. Afskriftir voru um 20 milljónir króna, húsnæðiskostnaður 8 milljónir og 19,4 milljónir í vaxtagjöld. Niðurstaðan var því að félagið hagnaðist aðeins um 345 þúsund krónur árið 2016 og greiddi 90 þúsund krónur í skatta. D-13 ehf. hlaut 18 milljónir króna í húsaleigu en þökk sé 12,7 milljóna króna afskriftum tapaði fyrirtæki 2,6 milljónum króna árið 2016.

Tvær eldavélar eru til taks fyrir leigjendur en hvorki vaskur né kæliskápar.
Eldhúsið Tvær eldavélar eru til taks fyrir leigjendur en hvorki vaskur né kæliskápar.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Mannekla og fjárskortur hamla eftirliti

Það sem er athyglisverðast við húsnæðið sem Leiguherbergi ehf. leigir út er sú staðreynd að það er allt skráð sem iðnaðar- eða skrifstofuhúsnæði. Það er því strangt tiltekið ólöglegt að reka gististarfsemi til einstaklinga í húsnæðinu. Kjærnested-feðgar hafa hins vegar fundið grátt svæði í kerfinu og komast upp með reksturinn því eftirlitskerfi sveitarfélaganna er lamað sökum fjárskorts og manneklu.

DV hefur heimildir fyrir því að húsnæði Leiguherbergja sé á lista yfir „óleyfishúsnæði“ hjá brunaeftirliti höfuðborgarinnar, það er atvinnuhúsnæði sem er leigt út til einstaklinga til að búa í. Það sem gerir yfirvaldinu erfitt fyrir er að rúmlega 200 slíkar fasteignir eru á skrá og því þröngur stakkur er sniðinn með eftirlitsmenn. Samkvæmt nýrri reglugerð á að vera einn brunaeftirlitsmaður á hverja 10 þúsund íbúa á höfuðborgarsvæðinu. Miðað við mannfjölda ættu því 22 brunaeftirlitsmenn að vera starfandi á höfuðborgarsvæðinu en í raunveruleikinn er allt annar. Brunaeftirlitsmenn á höfuðborgarsvæðinu eru fjórir talsins en á næstunni mun þeim fjölga upp í sex.

Brunaeftirlit fer því fram að þannig að farið er í óvæntar heimsóknir endrum og eins, en eftirlitið kemst aðeins yfir örfáar eignir á hverju ári. Þá herma heimildir DV að ef að kröfum eftirlitsins sé fullnægt þá sé gististöðum ekki lokað þrátt fyrir að þeir séu reknir án leyfis í atvinnuhúsnæði. Lokun stórra gististaða eins og þeirra sem Leiguherbergi ehf. rekur myndi einfaldlega þýða mun erfiðari samfélagsleg vandamál.

Alls eru um 60 herbergi til útleigu í fasteignunum þremur við Smiðjuveg.
Ranghalar Alls eru um 60 herbergi til útleigu í fasteignunum þremur við Smiðjuveg.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

„Starfsemin er orðin venjuhelguð“

DV óskaði eftir upplýsingum frá forsvarsmönnum Leiguherbergja ehf. um hvernig brunavörnum væri háttað í fasteignum félagsins. Ekki tókst að ná sambandi í síma við framkvæmdastjóra félagsins, Stefán Kjærnested, en spurningum blaðamanns í tölvupósti var svarað samdægurs. Í svarinu kom fram að félagið leigði vissulega út herbergi og að réttindi og skuldir leigusala og leigutaka tækju mið af núgildandi húsaleigulögum. „Leiguhergbergi ehf. kappkosta að hafa allan aðbúnað eins og best verður á kosið, meðal annars með tilliti til brunavarna. Hefur Securitas séð um árlegar úttektir á húsnæðinu að því leyti til,“ segir í tölvupóstinum.

Þá er því haldið fram að þar sem ekki hafi verið amast við starfseminni í nærri tvo áratugi sé starfsemin orðin „venjuhelguð“. „Ríkir um hana hefð og góð samfélagsleg sátt. Hafa eignir félagsins verið í leigu með þessum hætti frá átta til tæplega átján ára. Aldrei hafa verið gerðar neinar athugasemdir við starfsemina frá yfirvöldum og hafa leigurýmin til að mynda verið nýtt á sviði félagslegrar þjónustu í allmörgum tilvikum.“ Skeytinu lýkur svo með bestu kveðjur frá starfsfólki Leiguherbergja.

Veggjatítlurnar verstar

DV fór og heimsótti einn pólskan viðskiptavin félagsins. Sá býr í mjög litlu herbergi, líklega um 6–7 fermetrar, í einu af húsunum við Smiðjuvegi Hann vildi ekki koma fram undir réttu nafni og þá aðallega af ótta við að honum yrði hent út úr húsnæðinu. „Það er mjög erfitt að finna herbergi eða leiguíbúðir á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er skárra en það sem aðrir þurfa að sætta sig við. Ég er í slæmri stöðu ef ég missi þetta húsnæði,“ segir maðurinn, sem við skulum kalla Andrzej.

Það verður þó seint sagt að Andrzej líði vel að Smiðjustíg. Herbergi hans er agnarsmátt og þar er með herkjum hægt að koma fyrir litlu rúmi, fataskáp og skrifborði. Ýmsir munir Andrzej eru á gólfinu sem þýðir að varla er hægt að stíga til jarðar inni í herberginu. Andrzej vildi ekki heimila myndatökur í herberginu af ótta við að upp um hann kæmist.

Nokkur klósett eru aðgengileg í húsinu sem og þvottaherbergi og sérstök sturtuherbergi. Þessi herbergi eru mörg hver ekki með gluggum og því er loftræstingu ábótavant. Vond lykt, mygla og óþrifnaður er því nánast óhjákvæmilegur enda eru margir íbúar um hituna. Verst þykir Andrzej þó að hann er með lítil bit víða um líkamann, sem að öllum líkindum eru af völdum veggjalúsa (e. bed bugs). „Þetta byrjaði þegar ég flutti hingað inn. Þetta ansi óþægilegt en ég veit ekki almennilega hvernig ég á að bregðast við þessu,“ segir Andrzej.

Hann gengur með okkur um húsið og sýnir okkur króka og kima. Mesta athygli vekur gríðarlegur fjöldi eftirlitsmyndavéla sem eru um allt í húsinu. „Þeir fylgjast vel með,“ segir Andrzej áður en blaðamaður og ljósmyndari DV kveðja.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Kringlan komin á fulla ferð á ný

Kringlan komin á fulla ferð á ný
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Ákærður fyrir kynferðisbrot gegn systur sinni á árunum 2003 til 2007

Ákærður fyrir kynferðisbrot gegn systur sinni á árunum 2003 til 2007
Fréttir
Í gær

Alexandra lætur Sigmund Davíð fá það óþvegið: „Er maðurinn fimm ára?“

Alexandra lætur Sigmund Davíð fá það óþvegið: „Er maðurinn fimm ára?“
Fréttir
Í gær

Sigurður Ingi skýtur hugmynd Miðflokksins í kaf: „Já, þetta er vitlaus hugmynd“

Sigurður Ingi skýtur hugmynd Miðflokksins í kaf: „Já, þetta er vitlaus hugmynd“
Fréttir
Í gær

„Háir stýrivextir eru nefnilega bara mjög fín kjarabót fyrir þau sem eiga peninga“

„Háir stýrivextir eru nefnilega bara mjög fín kjarabót fyrir þau sem eiga peninga“
Fréttir
Í gær

Nýju gögnin í Geirfinnsmálinu eiga að fara til Keflavíkur – „Þarna var sáð fræi sem varð að mesta réttarmorði Íslandssögunnar“

Nýju gögnin í Geirfinnsmálinu eiga að fara til Keflavíkur – „Þarna var sáð fræi sem varð að mesta réttarmorði Íslandssögunnar“