En allt breyttist 2016 þegar hún féll á lyfjaprófi. Í nýrri heimildamynd frá spænska sjónvarpsfyrirtækinu Movistar tjáir Sharapova sig um þetta í fyrsta sinn.
„Ég vaknaði þennan morgun og fannst að ég ætti að undirbúa mig undir leik. Það var mjög erfitt að hugsa til þess að maður ætti að mæta heiminum og segja að maður hefði eyðilagt allt.“
Segir hún um daginn sem heimsbyggðin fékk að vita að hún hefði fallið á lyfjaprófi. RT skýrir frá þessu.
Sharapova segir að meldonium hafi greinst í líkama hennar en efnið hafði verið sett á bannlista skömmu áður. Hún segist ekki hafa vitað að efnið væri á bannlistanum og að hún hafi tekið það vegna magnesíumskorts, sykursýki í fjölskyldunni og óreglulegs hjartsláttar. Með öðrum orðum, af því að hún hafði þörf fyrir það.
Þessi frétt kom heimsbyggðinni á óvart og viðbrögðin voru sterk. Sharapova segist því hafa ákveðið að eyða öllum samfélagsmiðlaaðgöngum sínum eftir fréttamannafundinn til að hlífa sjálfri sér.
„Ég hélt aldrei að það myndi skipta mig máli hvað öðru fólki finnst um mig en eftir þetta áttaði ég mig á að það skipti mig miklu máli. Ég var mjög leið yfir þessu. Það var mjög óþægilegt að finnast maður skipta svona litlu máli.“