Samkvæmt opinberum tölum hafa 28.432 látist af völdum COVID-19 á Spáni en inni í þeim tölum eru bara þeir sem voru formlega greindir með kórónuveiruna en ekki tilfelli þar sem grunur lék á að um smit væri að ræða en það var ekki staðfest með sýnatöku.
Í upphafi faraldursins var skortur á búnaði til sýnatöku og það gæti hafa skekkt tölurnar.
Blaðamenn El Pais fóru yfir opinberar tölur um staðfest andlát af völdum COVID-19 og þau þar sem grunur leikur á að COVID-19 hafi orðið fólki að bana. Niðurstaðan er að 44.868 hafi hugsanlega látið lífið af völdum COVID-19.