„Vil endilega vekja athygli á því að þeir sem höfðu keypt miða á Secret Solstice sem átti að halda í júní hafa ekki ennþá fengið miðana sína endurgreidda. Síðast kom tölvupóstur 27. maí en ekkert hefur heyrst meira eftir póstinn og engin endurgreiðsla komin. Algjörlega ömurlegt,“ segir óánægður borgari sem hafði samband við DV.
Secret Solstice hátíðin fellur niður í sumar vegna kórónuveirufaraldursins. Þeim sem keypt höfðu keypt miða var boðið upp á að velja milli þess að fá endurgreitt eða að miðinn gilti á Secret Solstice sumarið 2021. (Þess má geta að sérstök útgáfa af Secret Solstice er í gangi 2-3var í viku með tónleikahaldi í porti bak við Dillon á Laugavegi).
DV hafði samband við Jón Bjarna Steinsson, einn forsvarsmanna Secret Solstice, vegna málsins. Jón Bjarni segir að allir muni fá miða sína endurgreidda en það taki nokkurn tíma. Raunar eru endurgreiðslurnar ekki verkefni Secret Solstice heldur erlends miðasölufyrirtækis sem annast miðasöluna:
„Miðasalan okkar er erlend og er að endurgreiða fyrir fjölmarga viðburði, tugi milljóna miða og það gengur bara hægt hjá þeim. Það er samkvæmt þeim búið að endurgreiða flestum þeim sem sóttu um endurgreiðslu hjá okkur. Vegna persónuverndarlaga höfum við ekki aðgang að upplýsingum um hverjir það eru sem eru eftir. Þetta er bara það sem í gangi í þessum bransa núna, þetta er svo ofboðslegt magn af viðburðum sem var frestað eða hætt við.“
Jón Bjarni vill hins vegar taka það skýrt fram að ef misbrestur verður á endurgreiðslum frá miðasölunni muni aðstandendur Secret Solstice tryggja að allir fái endurgreitt.
Jón Bjarni lætur þess jafnframt getið að langstærstur hluti miðahafa hafi ekki óskað eftir endurgreiðslu heldur ætli að nota miðann á frestaða hátíð sem haldin verður sumarið 2021.
Heimasala miðasölunnar er hér en starfsmenn hennar svara fyrirspurnum á netfangið support@xtix.com