Videnskab.dk skýrir frá þessu. 65 prósent aðspurðra karla, sem tóku þátt í rannsókninni, töldu kynlíf með makanum meira æsandi en klám.
Það verður þó að setja þann fyrirvara á rannsóknina að hún hefur ekki enn verið birt í vísindariti og því hafa aðrir vísindamenn ekki ritrýnt hana.
Rannsakendurnir útbjuggu spurningalista á netinu með 118 spurningum um sjálfsfróun, klámnotkun og kynlíf með makanum. Athygli var vakin á spurningalistanum á samfélagsmiðlum, á veggspjöldum og í bæklingum í Danmörku og Belgíu. 3.267 karlar svöruðu.
„Við komumst að því að karlar horfa töluvert á klám, að meðaltali 70 mínútur á viku, venjulega 5 til 15 mínútur á dag. Sumir horfa mjög lítið en aðrir miklu, miklu meira.“
Er haft eftir Gunter de Win hjá Antwerpen háskólanum.
23 prósent karla yngri en 35 ára sögðust glíma við risvandamál þegar kæmi að kynlífi með maka.
„Þetta eru fleiri en við áttum von á. Við komumst að því að það væru sterk tengsl á milli klámnotkunar og aukinna risvandamála í kynlífi með maka.“
Sagði de Win.
Önnur niðurstaða rannsóknarinnar var að 90 prósent karlanna spóluðu yfir hluta af kláminu til að komast í það efni sem þeim fannst mest æsandi. 20 prósent sögðust hafa upplifað að þeir þyrftu að horfa á sífellt grófara klám til að ná sömu örvun og áður.
De Win benti á að um spurningalista hefði verið að ræða, ekki hefðbundna klíníska rannsókn og að niðurstöðurnar kalli á frekari rannsóknir á áhrifum klámáhorfs á kynlíf karla.