Það er ýmist í ökkla eða eyra. Í vetrarlok bárust þau tíðindi frá Vík í Mýrdal að staðurinn væri orðinn að draugabæ vegna hruns ferðaþjónustunnar í kjölfar kórónuveirufaraldursins. Núna hefur dæmist snúist við: Vík er troðfull af ferðamönnum, flestum íslenskum, en staðurinn annar engan veginn eftirspurninni. Skortur á grundvallarþjónustu, svo sem matsölu, hefur ýmist gert ferðalanga örvæntingarfulla eða froðufellandi af bræði. DV hefur spurnir af því að fokreiðir ferðamenn hafi yfirgefið staðinn á undan áætlun eftir að hafa ekki getað keypt nauðsynjavörur eða aðeins komist í kalda sturtu í sundlauginni. Tjaldsvæðið er svo yfirfullt að fólk er farið að tjalda á mölinni, samkvæmt áreiðanlegum heimildum.
„Klukkan átta á þriðjudagskvöldið var röð inn á alla veitingastaði og þeir hættir að taka við fólki. Þá var líka búið að loka einu matvöruversluninni á staðnum og einu sjoppunni. Það virtist ekki hægt að kaupa svo mikið sem bleiupakka eða mjólkurfernu,“ segir viðmælandi DV. Dæmi eru um að maturinn hafi verið búinn á veitingahúsum þegar röðin kom að fólki sem hafði beðið í yfir klukkutíma.
„Það er allt á suðupunkti hérna og fólk er fokreitt yfir því að geta ekki komist í mat eða keypt neitt,“ segir viðmælandi okkar og greinir einnig frá uppnámi í sundlaug staðarins:
„Það var hleypt allt of mörgum ofan í og í sturtunum var bara kalt vatn. Konur voru að fara út með sjampóið í hárinu. Síðan voru skáparnir bilaðir og fötin læst inni í þeim. Það voru bara þrír að vinna og allt karlmenn. Því gat enginn starfsmaður komið inn í kvennaklefann til að veita hjálp. Sundlaugin var ísköld, klósettið drulluskítugt og gólfin rennblaut. Fyrir þetta var fólk að borga 900 kall og það voru margir brjálaðir yfir þessu. Fólk lætur ekki bjóða sér þetta og fer í fússi héðan. Þetta er því miður subbulegur sælureitur í augnablikinu.“
Ferðamenn á Vík í Mýrdal segja að innviðirnir á svæðinu virðist hvellsprungnir og þeir spyrja hvers vegna ekkert sé gert til að anna eftirspurninni og veita fólki að minnsta kosti lágmarksþjónustu. Og hvers vegna eru bæði sjoppan á staðnum og matvöruverslunin (Krónan) lokuð?
„Júlí er búinn að vera snarbilaður,“ segir Þorbjörg Gísladóttir, sveitarstjóri Mýrdalshrepps, í samtali við DV. Hún viðurkennir að þær lýsingar sem DV hafa borist frá ferðalöngum séu réttar. Vissulega sé ánægjulegt hvað ræst hafi úr ferðamennskunni eftir dapurt útlit í vetrarlok en sorglegt sé að geta ekki annað eftirspurninni og veitt betri þjónustu.
„Það sem okkur er fjötur um fót er að atvinnurekendur hafa ekki starfsfólk. Það var búið að segja öllum upp og þeir sem eru á bótum núna eru ekki viljugir að koma inn. Launin eru ekki mikið hærri en bæturnar og fólkið veit að þetta er bara tímabundið, það er ekki hægt að lofa því framtíðarstarfi og það vill frekar vera á bótunum. Vegna manneklu hafa veitingastaðirnir ekki getað opnað fyrr en klukkan sex á daginn.“
Færri komast að á veitingastöðunum en vilja og í það minnsta eftir klukkan 20 er hvorki sjoppa né matvöruverslun opin á staðnum. Þorbjörg er í fríi og er ekki stödd í Vík í augnablikinu. Hún segist ekki hafa skýringar á því hvers vegna sjoppan á staðnum, Víkurskáli, er lokuð á kvöldin. Krónan rekur matvöruversluninni og Þorbjörg taldi að hún yrði opin til 9 á kvöldin en svo er ekki.
Varðandi uppnámið í sundlauginni segir Þorbjörg að brugðist verði við því ástandi með því að loka fyrr á daginn og hleypa færri ofan í. Einnig eigi að fjölga mannskap við þrif. „Við erum á köldu svæði og erum í mesta basli með að halda lauginni í þokkalegu ástandi. Á veturna er ekki hægt að vera með sundkennslu. En þetta kom fólkinu í opna skjöldu og það áttaði sig ekki á því að það þyrfti að takmarka í laugina.“
Þorbjörg segist hafa skilning á því að fólk á bótum vilji ekki snúa aftur í tímabundna vinnu þar sem líklegt sé að þessi bylgja muni hjaðna snemma í ágúst. „Það er leitt að geta ekki annað eftirspurninni en þetta er rosalegt álag á þá starfsmenn sem eru í vinnu. Þegar veitingahúsin eru farin að selja yfir 300 skammta af mat á stuttum tíma þá kemur það einhvers staðar niður. Ég held að allir séu af vilja gerðir að gera vel miðað við þann mannskap sem þeir hafa. Allir krakkarnir sem voru í vinnuskólanum eru hættir þar og komnir í vinnu. Við höfum aldrei verið með vinnuskóla eftir að ferðaþjónustan fór að blómstra en það var ákveðið að vera með vinnuskóla í sumar vegna ástandsins sem blasti við. En svo hafa þau verið að týnast öll út þaðan og eru komin í vinnu,“ segir Þorbjörg.
Að mati Þorbjargar virðist ekki lausn í sjónmáli. „Það er sorglegt að geta ekki veitt meiri og betri þjónustu en við höfum ekki mannskap.“
Fregnir hafa borist að því að veitingastaðir á Vík í Mýrdal séu að flytja inn fólk til starfa erlendis frá þessa dagana. Einnig hafa borist fregnir af erfiðu ástandi á Höfn í Hornafirði vegna manneklu og stórstreymis innlendra ferðamanna í gegnum svæðið.