Á upplýsingafundi Almannavarna í dag, síðasta fundinum í bili, var rætt um mögulegt bóluefni gegn kórónuveirunni. Margir bóluefnaframleiðendur vinna nú að því að þróa og framleiða bóluefni. Að mati Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis hefur vantað samhæfingu í þessa vinnu og þess vegna hefur WHO sett af stað alþjóðlegt verkefni. Þar verður sameinast um að styðja rannsóknir og framleiðslu á bóluefni og skapa samhæfingu um dreifingu á bóluefni þegar það er tilbúið, til að tryggja réttláta dreifingu milli landa. „Verkefnið heitir Covax og Ísland hefur lýst áhuga á þátttöku og mun taka þátt, þannig að við munum tryggja okkur bóluefni þegar þar að kemur,“ sagði Þórólfur.
Eitt virkt smit greindist á landamærunum í gær en tekin voru tæplega 2.200 sýni. Fá smit hafa greinst á landamærunum að undanförnu og innanlandssmit eru mjög fá eða 11 frá því skimun á landamærum hófst. Öll eru innanlandssmitin rakin til smita á landamærunum.