Fyrirtækið True Adventure býður fólki upp á mikla upplifun, en það er svifvængjaflug í öruggum höndum reyndustu svifvængjaflugmanna landsins. Kristín Guðbjartsdóttir, sem er að ná eftirlaunaaldri, gerði sér lítið fyrir og brá sér í svifvængjaflug fyrir nokkrum misserum. Má segja að þá hafi gamall æskudraumur Kristínar ræst, að fljúga um loftin blá.
„Þegar ég var lítil stelpa í sveitinni safnaði ég fjöðrum af hænsnunum og langaði til að búa til vængi á mig. Ég geymdi fjaðrirnar undir bita í hlöðunni og ráðgerði að útbúa mér vængi til að fljúga fram af hænsnakofanum. Sem betur fer gerði ég aldrei alvöru úr þessum áformum,“ segir Kristín. Þegar henni bauðst að prófa svifvængjaflug á efri árum sló hún hins vegar ekki hendi á móti því.
„Það sem mér fannst einna sérstakast við þetta var að finna hvernig maður sveif, hvernig uppstreymið hélt manni á lofti eins og fuglunum. Það var mjög sérstakt að upplifa þetta,“ segir Kristín og þverneitar því að hún hafi verið hrædd.
„Ég greip meira að segja í prjóna á fluginu. Það var nú bara til að stríða örlítið annarri dóttur minni sem var sannfærð um að ég yrði svo hrædd að ég yrði að ríghalda mér.“
Kristín segir að ferðin hafi verið hæfilega löng og það hafi verið stórkostlegt að svífa um hjá Vík í Mýrdal þar sem landslagið er svo fallegt. „Þetta var bara yndislegt.“
Kristín vinnur með börnum í Gerðaskóla en hún býr í Garðinum. „Ég er að smella í eftirlaunaaldurinn en ég verð 67 ára í næsta mánuði. Mér finnst svo frábært að vera amma og svo hækkaði ég í tign um daginn þegar ég fékk fyrsta langömmubarnið.“
Kristín vílar ekki fyrir sér að gera alls konar kúnstir með börnunum í skólanum. „Ég fer í rennibrautina með þeim og svo eigum við aparólu hérna. Síðan eru þau að kenna mér fótbolta og körfubolta. Það gengur svona og svona, það kemur fyrir að ég hitti í körfuna. En þau eru löngu hætt að segja að ég sé of gömul til að gera þetta. Það er líka bara svo gott að hreyfa sig, bæði fyrir líkamann og andann, og einfaldlega gera það sem manni þykir skemmtilegt,“ segir Kristín.
Svifvængjaflug er frábær jólagjöf en núna er hægt að kaupa gjafabréf á heimasíðu True Adventure, trueadventure.is. Þar er einnig hægt að bóka flug fyrir sjálfan sig og fá nánari upplýsingar um þá stórkostlegu upplifun sem svifvængjaflug er.