fbpx
Fimmtudagur 24.apríl 2025
Fréttir

Íbúar við Laugaveg ósáttir – Viðburður á einkalóð í leyfisleysi – Ærandi hávaði og slys hjá eldgleypi

Ágúst Borgþór Sverrisson
Mánudaginn 20. júlí 2020 19:40

Frá atriði eldgleypisins sem fór úr böndum. Aðsend mynd

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Föstudaginn 26. júní hélt Reykjavík Kabarett sérstæða og djarfa sýningu í porti bak við húsið að Laugavegi 27. Sýningin var hluti af verkefninu Sumarborgin okkar, en undir formerkjum þess hafa meðal annars verið haldnir götuviðburðir á þeim hluta Laugavegarins sem lokaður er fyrir bílaumferð í sumar. Í kjallara hússins er Vínstúkan Tíu Sopar, sem stóð fyrir viðburðinum og stendur fyrir fleiri götuviðburðum við Laugaveginn í sumar.

Auk þess eru nokkrar íbúðir í húsinu og íbúunum kom sýningin mjög í opna skjöldu því þeim hafði ekki verið gert viðvart um hana. Var sýningin þó á einkalóð, alveg upp við húsið. Þegar kona ein sem er íbúi í húsinu ætlaði út með ruslið fann hún engar ruslatunnur, því þær höfðu verið fjarlægðar áður en sýningin hófst. Þegar konan ætlaði inn til sín aftur var hún rukkuð um aðgangseyri á sýninguna. Henni var þó hleypt inn til sín aftur er hún benti á að hún byggi í húsinu.

Meðal atriða á sýningunni voru leikir með eld. Maður mundaði eldvörpu og eldgleypir lék listir sínar, en tókst ekki betur til en svo að hann missti tök á eldinum en eldurinn var slökktur með eldvarnarteppi. Íbúi í húsinu sem DV ræddi við segir að sér hafi þótt þetta uppátæki sérlega óþægilegt þar sem um er að ræða 100 ára gamalt timburhús og atriði var ofan á timburpalli. Auk þess var sýningin haldin aðeins degi eftir brunann mannskæða á Bræðraborgarstíg 1.

Sjá einnig: Nuddstofa varð að senda viðskiptavini heim út af rokktónleikum fyrir framan húsið

„Þetta snýst ekki um að þola ekki læti og hávaða“

Umrædd kabarettsýning er ekki eina atriðið sem íbúar í húsinu eru ósáttir við. Þeir telja að viðburðahaldi við Laugaveg í sumar hafi fylgt yfirgengilegur og langvarandi hávaði. Íbúar kvarta undan fullkomnu samráðsleysi borgarinnar við sig varðandi samkomuhald og hávaða sem fer svo gjörsamlega yfir öll mörk hvað varðar bæði hljóðstyrk og tímalengd að þeir geti núna ekki verið heima hjá sér stóran hluta vikunnar.

„Þetta snýst ekki um að þola ekki læti og hávaða. Þeir sem búa við Laugaveg vita til dæmis að þar er djammhávaði, en þetta sem hefur verið í gangi er tíu sinnum verra en það,“ segir Grímur Jón Sigurðsson, formaður hússfélagsins að Laugavegi 27. Hann vísar þar til Secret Solstice hátíðar Dillons, að Laugavegi 30, skáhalt við Laugaveg 27. Þar eru í sumar haldnir tónleikar 2-3 daga vikunnar, frá því síðdegis og fram til 11 á kvöldin.

Grímur segir að ólíft sé í íbúðum allan þennan tíma á meðan þetta er í gangi og veggirnir nötri undan dúndrandi teknótónlist klukkutímum saman.

„Það voru ýmsir óánægðir með Secret Solstice í Laugardalnum en það var bara ein helgi, þrír dagar, yfir allt árið. Þetta er í gangi tvisvar til þrisvar í viku og íbúar í næstu húsum eru ekki einu sinni látnir vita. Svo sér maður bara í fjölmiðlum að þetta sé tónleikaviðburður ársins,“ segir Grímur og aðspurður segir hann að það yrði strax til bóta ef það yrði bara lækkað eitthvað í græjunum hjá Dillon. Verst sé hins vegar samráðsleysið og í raun láti borgin oftast eins og það séu engir íbúar við Laugaveginn. Oftast sé fyrirtækjaeigendum við götuna tilkynnt um breytingar eða viðburði, en ekki íbúum.

Frá atriði eldgleypisins sem fór úr böndum. Mynd aðsend.

Grímur vill ítreka að hann og nágrannar hans séu ekki að setja sig á móti götuhátíðum og lífi við Laugaveg. „Við sættum okkur alveg við djammið um helgar og við vitum að það eru læti á 17. júní, Þorláksmessu og Menningarnótt, en þetta sem hefur verið í gangi í sumar er eitthvað allt annað. Ég á ekki desibelamæli en ég er sannfærður um að hávaðinn frá Dillon sprengir þann viðmiðunarkvarða sem borgin setur sjálf um hávaðamengun, það er 30 desibel inni í íbúðum og 45 upp við húsvegg fyrir utan.“

Grímur segir samráðsleysið fullkomið:

„Ég get fullyrt að allir í húsinu séu til í að eiga samtal um hlutina og finna lausnir. Núna er þetta hins vegar þannig að Reykjavíkurborg lætur okkur ekki einu sinni vita um það sem er í gangi, hvað þá að hún spyrji mann álits.“

Segist hafa fengið eitt yfirlætislegt svar

Þegar Grímur hafði reynt um tíu sinnum að hafa samband við aðstandendur Sumarborgarinnar sendi hann eftirfarandi tölvupóst á Miðborgina okkar:

 

Góðan daginn.

Grímur Jón Sigurðsson heiti ég og skrifa hér fyrir hönd húsfélagsins að Laugavegi 27 og íbúa þess, hvar ég er formaður.

Tilgangur þessa bréfs er fyrst og fremst sá að kvarta undan ofboðslegum hávaða og því sem við getum ekki kallað annað en yfirgang af hálfu borgarinnar.

Nú er svo komið að Reykjavíkurborg er farin að halda vikulega viðburði (stundum oft í viku) beint fyrir utan húsið okkar. Þessum viðburðum fylgir ofboðslegur hávaði og ónæði t.d. hefur hingað til  tveimur risastórum hátölurum verið stillt upp báðum megin við tröppurnar inn í húsið. Aldrei voru íbúar eða eigendur hússins spurðir að því hvað þeim fyndist um þessa viðburði eða þeim að minnsta kosti sýnd sú kurteisi að vera látnir vita af því að þeir stæðu til. Samráðið er allavega ekkert.

Auk þess mun skemmtistaðurinn Dillon (sem er ská á móti við götuna) hýsa Secret Solstice tónlistarhátíðina í allt sumar. Nú þegar eru allavega 4 slíkir tónleikar búnir að eiga sér stað og til stendur að halda 10 í viðbót. Þegar þeir tónleikar eru í gangi nötrar allt húsið af hávaða, hávaða sem er svo mikill að það er ólíft í húsinu í fleiri fleiri klukkutíma á meðan. Þetta er hávaði sem er margfalt meiri en sá sem kemur af því skemmtanalífi sem við eigum að venjast að jafnaði í miðborginni og mætti helst líkja við jarðskjálfta.

Það sem íbúar hússins eru samt óánægðastir með (í rauninni alveg brjálaðir yfir) er það að borgin hafi haldið viðburð inn á okkar einkalóð inn í porti á bakvið húsið. Það var viðburður sem var haldinn í fullkomnu leyfisleysi í marga klukkutíma og lauk ekki fyrr en um klukkan 11 um kvöld.  Sá viðburður var Kabarett sýning, byggt hafði verið svið inn í portinu og síðan var selt inn í portið. Þegar einn íbúi hússins ætlaði að fara að henda rusli var búið að fjarlægja ruslatunnurnar og enginn viðstaddur vissi hvert þær hefðu verið settar.

Það sem gekk síðan gjörsamlega fram af fólki er það að fram kom eldgleypir og fór að spúa eldi upp við húsið sem er 120 ára gamalt timburhús. (Þetta var daginn eftir stórbrunann á Bræðraborgarstíg/Vesturgötu)  Eldgleypirinn var ekki betri í sínu fagi en svo að hann kveikti bæði í sjálfum sér og sviðinu og átti í nokkru basli við það að ráða niðurlögum eldsins.

Ég læt fylgja með nokkrar myndir og myndbönd sem ég fékk send frá einum íbúa hússins.

Eins og gefur að skilja er þetta gjörsamlega óþolandi. Ég get ekki ímyndað mér það að íbúar neinnar annarrar götu í borginni myndi vera sýnd slík vanvirðing og yfirgangur.

Er það til dæmis líklegt að borgin myndi ítrekað halda hávaðasama viðburði fyrir utan sama húsið á Tómasarhaga eða Bárugötu án þess að ræða við íbúa þess húss? Hvað þá að halda viðburðina inni í garði hjá fólki.

Nú um daginn var viðburður þar sem langborð var fyrir utan húsið og nokkur stemning sem því fylgdi. Það voru allir í húsinu jákvæðir með það og skildu pælinguna á bakvið það að glæða miðborgina lífi.  En þegar viðburðirnir koma í hrönnum, enginn er spurður álits, enginn látinn vita og ekki hægt að vera heima hjá sér sökum ónæðis nokkra daga í viku þá er upplifun okkar sú að það sé verið að gefa skít í okkur.

Nú er ég ekki bjartsýnn á það að fá nokkur svör eða úrlausnir frá borginni. Ég hef sjálfur margsinnis óskað eftir því að borgin hefji samtal og veiti okkur upplýsingar um það sem viðkemur götunni en þeirri beiðni hefur aldrei verið sinnt þrátt fyrir ítrekuð loforð þar að lútandi. Auk þess finnst mér vert að nefna það hér að ég og fleiri íbúar hússins höfum margítrekað í mörg ár óskað eftir því að borgin geri eitthvað í þeim hátalara sem skemmtistaðurinn Public House er með fyrir utan staðinn sinn og spilar þar háværa tónlist allan liðlangan daginn og fram á nótt.

Það sem við viljum fá svör við er eftirfarandi:

1. Hvaða starfsmaður borgarinnar er ábyrgur fyrir þessum viðburðum og afhverju hafði sá hinn sami ekkert samráð við íbúa og eigendur hússins? Ef um fleiri en einn starfsmann er að ræða viljum við fá nöfn þeirra allra.

2. Hvernig verður brugðist við þessum kvörtunum því að óbreytt ástand er ólíðandi?

3. Hvert er best að senda reikning fyrir afnotum af lóðinni okkar?

 

Við krefjumst svara og það þolir enga bið.

 

Grímur Jón Sigurðsson, Formaður húsfélagsins að Laugvegi 27“

 

Tveimur dögum síðar svaraði Björg Jónsdóttir fyrir hönd Sumarborgarinnar:

Heill og sæll Grímur Jón og kærar þakkir fyrir þennan póst,

 

„Mér þykir leitt að þú verðir fyrir ama vegna viðburða sem fara fram í borginni okkar og þykir jafnframt bagalegt að þú hafir ekki fengið upplýsingar um þá viðburði sem áætlaðir eru í þínu nærumhverfi. Ávallt er óskað að slíkt sé gert og má vera að það hafi verið misbrestir þar á, eða upplýsingar ekki ratað til allra. Ég ræddi við hlutaðeigandi í gær og hann ætlar að gera bragabót á.

Varðandi neðangreindar spurningar þá svara ég þeim hér með og í samhengi við aðrar aðfinnslur sem koma fram í erindi þínu.

  1. Þér til upplýsinga fór Reykjavíkurborg í gang með átak í vor sem ber heitið Sumarborgin. Hluti átaksins felst í samstarfi við rekstraraðila í miðborginni við að gæða borgina lífi og gera hana meira aðlaðandi áfangastað fyrir gesti og íbúa borgarinnar. Meðal annars er það gert með því að lífga uppá borgarýmið, s.s. mála götur, auka við gróður, hressa uppá torg og önnur opin rými, koma fyrir setsvæðum fyrir fólk að dvelja á og að bjóða uppá skemmtilega viðburði af ýmsum toga. Þeir viðburðir sem hafa farið fram í kringum húsnæðið og það húsfélag sem þú ert í forsvari fyrir hafa sannarlega verið unnir í samstarfi við Sumarborgina og felur það samstarf í sér að rekstraraðilar sóttu um og fengu styrk til þessa viðburðahalds. Að öðru leyti hefur Sumarborgin né starfsmenn hennar enga beina aðkomu að skipulagi og framkvæmd viðburðanna.
  2. Eins og fram kemur hér fyrir ofan er búið að hafa samband við hlutaðeigandi við Laugaveg 27. Varðandi Dillon þá munum við hafa samband til að ganga í skugga um það hvort ekki sé verið að fara eftir eftir þeim reglum sem settar eru fyrir viðburði af þessu tagi. Ég, undirrituð ásamt Sæunnu Unnsteinsdóttur erum í forsvari fyrir Sumarborgina.
  3. Varðandi afnot á baklóðinni þá er lóðin einkalóð og viðburðurinn sem þar fór fram var á vegum aðila sem hafa lögmæta heimild til að nýta lóðina sem leiguhafi. Þannig að það er ekki Reykjavíkurborg sem tekur sér það bessaleyfi að nýta baklóðina til viðburðar, en sannarlega fengu viðburðahaldarar, þar af einn „íbúi“ hússins, styrk frá Sumarborginni til að standa að viðburðinum. Að sjálfsögðu er ávallt æskilegt að framkvæmd viðburða af þessu tagi sé gerð í góðu samráði við þá sem deila eignarhaldinu og hvetur Sumarborgin eindregið til þess.

Ef þú hefur frekari spurningar getur þú haft samband

 

Fyrir hönd Sumarborgarinnar,

Björg Jónsdóttir“

Grími þótti svarið vera snautlegt og yfirlætisfullt. Honum þótti líka sérstakt að vera ávarpaður í annarri persónu, svona eins og hann væri bara íbúi að kvarta og kynni ekki gott að meta. Þetta var hans upplifun af svarinu. Hann bendir hins vegar á að hann sé formaður húsfélagsins að Laugavegi 27 og hann sé að bregðast við kvörtunum íbúa, sem honum beri skylda til. Grímur svaraði þessum tölvupósti og ítrekaði kröfur sínar um að brygðist yrði við kvörtunum. Við þeim tölvupósti hefur ekki borist svar. Í honum segir meðal annars:

„1. Hvað ætlið þið að gera? Á þetta bara að vera svona? Núna er ástandið þannig að það er svo mikill hávaði við Laugaveg 27 að íbúar geta ekki verið heima hjá sér svo dögum skiptir.

2. Hvernig ætlið þið að bregðast við þeim samstarfsaðilum sem fara ekki eftir reglum sem þið hafið sett sbr. Tíu Sopa

3. Við förum fram á að það verði komið og hljóðmælt inni í íbúðum.“

Viðurkenna mistök varðandi kabarettsýninguna

DV hafði samband við Ólaf Örn Ólafsson, einn eigenda Vínstúkunnar Tíu Sopar. Hann kannast við að staðurinn skipulegði viðburði við Laugaveginn í sumar og hefði fengið til þess styrk frá Reykjavíkurborg en hún auglýsti eftir umsóknum um styrki.

„Við gerðum mistök með því að láta þau ekki sérstaklega vita af þessu í húsinu. En varðandi eldatriði þá var voru áhorfendur varaðir við og farið yfri eldvarnir. Bæði slökkvitæki og eldvarnarteppi voru til staðar. Við þurftum að nota eldvarnarteppið til að slökkva eldinn.“

Ólafur segir að þetta sé í eina skiptið sem þeir hafi haldið viðburði í portinu. „Þetta var í samstarfi við Margréti Maack og kabarettinn hennar. En svo erum við í samstarfi við verslunina Vonarstræti, sem er í sama húsi, og erum með röð atburða úti á Laugavegi og hafa þegar verið haldnir tveir. Sá þriðji er núna á fimmtudaginn. Þá mun Högni Egilsson mæta og setjast við flygilinn sem verður úti á götu. Þetta verður svartur flygill og ljóshærður Högni, þetta verður eitthvað,“ segir Ólafur og er hæstánægður með hvernig til hefur tekist með þetta verkefni.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Vardy kveður í sumar
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Íbúar og fyrirtæki í miðborginni hvött til að plokka á laugardag

Íbúar og fyrirtæki í miðborginni hvött til að plokka á laugardag
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Hótaði að láta nauðga lögreglumanni

Hótaði að láta nauðga lögreglumanni