Mál tölvuleikjaspilarans Eggert Unnar Sæþórsson veldur miklum titringi innan tölvuleikjasamfélagsins á Íslandi. Eggert hefur fengið harða gagnrýni fyrir að hafa birt á Youtube myndband sem hann gerði með rappara sem gengur undir nafninu 6IX9INE og hafa neitað að taka myndbandið niður. 6IX9INE þessi er dæmdur kynferðisbrotamaður eftir að hafa gert tónlistarmyndband þar sem 13 ára stúlka kom fram nakin og veitti munnmök. Eggert hefur varið birtingu myndbandsins með 6IX9INE og er það enn í spilun á Youtube. Þetta leiddi til þess að Sýn rifti samningi við Eggert um sýningar á sjónvarpsþætti á nýrri sjónvarpsstöð helguð tölvuleikjamenningu, Stöð 2 eSport.
Linnulausar umræður, rökræður og deilur hafa staðið yfir um málið í Facebook-hópnum Tölvuleikjasamfélagið. Fyrr í dag sér ung kona ástæðu til að stíga fram og biðjast afsökunar á því að hafa stutt Eggert í deilunni. Segist hún vera andsnúin nauðgunarmenningu. Pistill hennar er eftirfarandi:
„Ég vil biðjast afsökunar á því sem gerðist hér í gær. Ég veit að margir urðu fyrir vonbrigðum þegar þau lásu kommentið sem ég skrifaði við myndbandið hans Eggerts. Ég er ekki vön að vera í sviðsljósinu og hef alltaf verið vön að öllum er sama um það sem ég segi þegar ég skrifaði komment. í umræðunni hjá honum var ég fyrst og fremt að hugsa um að styðja við Eggert því mér fannst leiðinlegt að sjá hvernig hans orðspor var undir árás. En það réttlætir ekki að ég gerði mistök með því að segja það sem ég sagði. Eggert er góður gaur en hann gerir mistök eins og allir aðrir. Ég persónulega er á móti því að normalísera nauðgaramenningu og er þess vegna ekki hrifin af myndbandinu og eins og fólk hér í gær sá varð ég mjög reið, sár og endaði á því að setja inn póst eftir að fólk hefði sagt að ég væri að styðja nauðgara sem ég sagðist aldrei gera. Já ég gerði mistök eins og fólk gerir og þess vegna er ég að skrifa þetta til þess að biðjast afsökunar og taka í burtu allan vafa á því að ég er á móti því að upphefja svona gæja þó að þeir séu celeb, content creators þurfa líka að axla ábyrgð á því sem þeir birta þó það geti boostað ferlinum þeirra.“
Í umræðunum sem stúlkan vísar til taka sumir upp hanskann fyrir Eggert Unnar og einn þeirra segir: „Þó að myndbandið sjálft eigi kannski ekki skilið góðar viðtökur, þá finnst mér ansi hart að reka manninn útaf einu myndbandi þar sem hann spilaði með manninum yfir netið.“
„Hahaha, svaka gaman að sjá hversu viðkvæmt fólk getur verið. Eggert gerði ekkert annað en að spila tölvuleik með 6ix9ine. Rosalegt óþarfa hate sem verið er að setja á drenginn,“ segir annar.
Eggert Unnar segir sjálfur: „Sko ég mótmæli ekki ákvörðun Stöðvar 2 að hætta við þáttinn. En fannst það bara svolítið hart.“
Raddirnar gegn Eggerti Unnari eru þó ekki síður áberandi. Einn skrifar: „Þetta er mjög einfalt, það er ekki umburðarlyndi fyrir meðvirkni með barnaníðingum. Ekki spila með barnaníðingum, líka þegar þeir eru celebs.“
Ugla Stefanía Kristjónudóttir Jónsdóttir, formaður Trans Íslands, er ómyrk í máli:
„Það er mér fyrirmunað að skilja hvernig fólki finnst það bara í lagi að búa til myndband með gaur sem nauðgaði 13 ára barni og tók það upp. Hvern langar að spila tölvuleik með svoleiðis gaur, hvað þá búa til myndband með honum?“
Sumir bera blak af rapparanum með skrýtna nafnið og benda á að hann hafi haldið því fram að hann hafi ekki vitað réttan aldur á stúlkunni sem tók þátt í tónlistar-kynlífsmyndbandinu. Hann var ákærður og sakfelldur fyrir athæfið.
Eggert bendir á að hann styðji ekki það sem rapparinn gerði og hann muni læra af þessu máli. Honum er þá bent á að hann hafi ekki tekið myndbandið niður: „Á meðan myndbandið stendur ertu dæmdur meðvirkur…“