fbpx
Laugardagur 23.nóvember 2024

Brotamenn öðlast betra líf með hugleiðslu

Tolli hefur kennt föngum að hugleiða í rúm tíu ár án þess að þiggja krónu fyrir. Hann segir að það þurfi að gerbylta hugmyndum stjórnmálamanna um refsingu og betrun.

Margrét Gústavsdóttir
Miðvikudaginn 20. desember 2017 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Flestir kannast við Tolla Morthens af kraftmiklum málverkum sem prýða fjölmörg heimili á þessu landi en færri vita að í rúman áratug hefur þessi ástsæli myndlistarmaður unnið þrotlaust og óeigingjarnt sjálfboðastarf inni í fangelsum landsins. Hann er haldinn þeirri sannfæringu að með kærleika og sjálfsþekkingu sé hægt að leiða okkar minnstu bræður af ógæfubrautinni og búa til góða og gegna borgara sem verða bæði sjálfum sér, fjölskyldum sínum og samfélaginu öllu til góða þegar fram líða stundir. Margrét Gústavsdóttir heimsótti Tolla á vinnustofuna í Laugarnesi og ræddi við hann um fangelsismál, áfallastreitu og áhrif hennar á mannssálina, varnarviðbrögð og hvernig ást og kærleikur hafa alltaf verið eina augljósa leiðin út úr andlegum ógöngum lífsins.

Það eru óendanleg verðmæti fólgin í því fyrir allt samfélagið að endurheimta, þó ekki sé nema einn, afvegaleiddan einstakling til baka. Næsta kynslóð á eftir honum þarf þá ekki að halda áfram á sömu braut.

Tolli býður blaðamanni upp á efri hæð vinnustofunnar þar sem hann hefur innréttað fallegt hugleiðsluherbergi í anda tíbeska búddismans sem hann aðhyllist. Hann tekur sér sæti með krosslagða fætur á þar til gerðan hugleiðslustól og býður blaðamanni að tylla sér á einum slíkum.

Fljótlega eftir að Tolli setti tappann í flöskuna, fyrir tæplega 25 árum, byrjaði hann að fara með 12 spora fundi á Litla-Hraun í þeirri viðleitni að deila með föngunum reynslu sinni, styrk og vonum og styðja á leið sinni til bata frá áfengis- og vímuefnaneyslu. Með tímanum fékk hann sjálfur áhuga á hugleiðslu og iðkun núvitundar. Hann fann hvernig sú ástundun hafði góð áhrif á heilsu hans og andlega líðan svo ekki leið á löngu þar til hann krosslagði fætur með vinum sínum í fangelsinu og kenndi þeim áhrifin af Omm.

Stöðnuð viðhorf til brotafólks

Tolli byrjar samtalið á því að viðra áhyggjur af áformum ríkisstjórnarinnar um hertar refsingar við fíkniefnabrotum. Hann hefur ekki trú á að slíkt muni skila sér í bættu samfélagi. Meðal annars vegna þess að eftirfylgni með föngum að afplánun lokinni er lítil sem engin og algengt að fangar fari rakleiðis aftur á ranga braut. Hann segir yfirlýsingar stjórnmálamanna einkennast af fáfræði og popúlisma. Bendir á að stjórnmálamenn séu líklega að nýta reiðina sem brýst fram í yfirborðskenndri umræðu á netinu, sjálfum sér til framdráttar.

Hann segir að ef vel eigi að vera þurfi mjög róttækar aðgerðir í fangelsismálum. Gerbreytt viðhorf og nýjar aðferðir sem byggja meðal annars á sálfræðiþekkingu, aukinni sjálfsábyrgð og síðast en ekki síst óeigingjörnum stuðningi samfélagsins sem tekur á móti þeim að afplánun lokinni en sjálfur hefur hann aldrei þegið krónu fyrir sitt framlag til þessara mála.

„Búdda helgaði líf sitt því að finna lausnir á andlegum þjáningum með því að iðka vissar aðferðir og kenna þær áfram. Í mínum huga var hann merkilegasti sálfræðingur sem uppi hefur verið.“
Merkilegasti sálfræðingur jarðar „Búdda helgaði líf sitt því að finna lausnir á andlegum þjáningum með því að iðka vissar aðferðir og kenna þær áfram. Í mínum huga var hann merkilegasti sálfræðingur sem uppi hefur verið.“

Mynd: Brynja

„Mannfólkið er algjörlega staðnað í viðhorfum sínum til brotafólks og hefur verið í rúm 2500 ár. Það er alltaf auga fyrir auga og tönn fyrir tönn, sem er ekki í takt við breytingarnar sem urðu á hugmyndum okkar um Guð fyrir jafn mörgum árum. Um 500 árum fyrir Krist varð nefnilega andleg vakning í heiminum. Hugmyndir okkar um guð byrjuðu að snúast minna um refsandi yfirvald og í staðinn fengum við hugmyndir um kærleiksríkan mátt sem við höfum síðan notað til að hlúa að okkur sjálfum og öðrum. Einnig komu fram kenningar Konfúsíusar og við fengum taóismann, grísku heimspekingana og síðast en ekki síst kenningar Búdda. En hugmyndir um afbrot og refsingu standa enn í stað,“ útskýrir Tolli og bætir við að þetta stafi einnig af ákveðinni afneitun á eðli mannsins og hvernig hægt sé að breyta, bæði sjálfum sér og öðrum, til hins betra.

Það fæðist enginn vondur en allir hafa í sér getuna til að meiða

„Nú liggur til dæmis fyrir gríðarleg vitneskja um hvernig orsök og afleiðingar áfalla geta kallað fram óæskilega og/eða ofbeldisfulla hegðun. Á sama tíma vitum við að það fæðist enginn vondur en allir hafa hins vegar í sér getuna til að meiða og brjóta á öðru fólki. Það hefur löngu sýnt sig að lausnin við niðurbrjótandi hegðunarmynstrum er ekki fólgin í hefðbundinni refsingu heldur markvissri uppbyggingu með faglegum aðferðum. Aðferðum sem ganga út á að betrumbæta líðan þessa fólks og endurheimta það til baka úr myrkrinu – og það getum við, svo framarlega sem við höfum samkenndina og kærleikann að leiðarljósi.“

Þyrfti þá kannski að kærleiksvæða stofnanirnar betur?

„Já, vissulega, en til að kærleiksvæða stofnanir þarf auðvitað að byrja á því að spyrja og svara því hvað átt er við með kærleika. Er kærleikurinn kannski klisja? Nei, svo sannarlega ekki. Læknavísindin hafa sýnt fram á að kærleikur er einfaldlega hluti af tilfinningakerfi heilans sem hefur svo aftur áhrif á boðefnabúskapinn og þar með alla okkar breytni. Nú liggur það einnig fyrir að okkur er unnt að rækta þessa tengingu og örva hana svo að við getum lifað meira í áhrifum kærleikans, sjálfum okkur og öðrum til heilla. Ég veit að það er mikil vakning hjá fagfólki í félagsmálageiranum hvað þessi mál varðar en kærleikurinn samræmist kannski ekki eðli stjórnmálanna? Samtal pólitíkusa við samfélagið er yfirleitt á mjög tilfinningalegum grunni. Þeir eiga það til að fleyta sér á öldum reiði sem kemur upp í umræðunni og það hefur síður en svo dregið úr þessu með tilkomu net- og samfélagsmiðla. Umræðan einkennist oft af hvatvísi og augnabliks hrifnæmi getur orðið að lagalegri útfærslu stjórnmálamanna á örskömmum tíma. Þetta höfum við nokkur dæmi um. Mögulega hentar það ekki stjórnmálamönnum að sleppa tökunum? Það þarf að koma í ljós.“

Mynd: Brynja

Græjan á milli eyrnanna

Tolli vill meina að flest vandamál lífsins megi rekja til þess að okkur mannfólkið skorti vilja til að líta inn á við, eða í eigin barm eins og það er kallað. Við séum flest á stöðugum flótta frá sjálfinu, reynum frekar að benda og refsa í stað þess að pæla í okkur sjálfum.

„Við erum búin að nota þessa forneskjulegu refsilausn, auga fyrir auga og tönn fyrir tönn, í fleiri þúsund ár. Alþjóðapólitík og flest opinber samskipti eru enn í þessu fari. Við refsum ekki aðeins fíkniefnaþrælum, kaupmönnum og þeim sem að slíku koma, með harðneskju og ofbeldi, heldur ganga samskipti þjóðanna einnig fyrir sig með sama óþroskaða hætti. Mannskepnan stendur alltaf á blábrún gereyðingar því það vill enginn taka ábyrgð á þessari græju sem við erum með á milli eyrnanna. Vandamálið er því ekki hvort kommúnismi eða kapítalismi virkar betur, heldur að maðurinn neitar að horfa inn á við þegar hann leitar lausna á tilvistarvanda sínum.“

Refsipólitíkin viðheldur neikvæðri hringrás kynslóð fram af kynslóð

Í þessu samhengi útskýrir hann að glæpamenn lúti alveg sama lögmáli og aðrir þegar komi að orsökum og afleiðingu – eða því sem oft er kallað karma. Vissulega þurfi samfélagið þó alltaf á lögum og reglu að halda og að fangelsisvist geti verið nauðsynleg af ótal ástæðum.

„Til dæmis bara til að stöðva ferlið sem ofbeldismennirnir eru komnir í. Eftir að það hefur verið gert er næsta skref að ná utan um ójafnvægið, heila þessa menn og gera þá betri. Það á að vera hinn augljósi tilgangur vistarinnar. Hvernig þetta er framkvæmt er svo aftur faglegt og pólitískt útfærsluatriði og til þess þarf einarðan vilja. Stjórnmálamenn þurfa að hafa metnað til þess að færa samfélagið upp á hærra þroskastig þar sem velvild og kærleikur ráða för en ekki hið fornkveðna auga fyrir auga,“ segir hann og tengir við umræðuna um alkóhólisma sem fjölskyldusjúkdóm. Hann segir afleiðingarnar af refsipólitík í kringum fíknarsjúkdóma oft ganga kynslóð fram af kynslóð sem viðheldur neikvæðri hringrás.

Maður yfirfærir skelfingar fortíðarinnar yfir á það sem er að gerast í núinu – á makann, yfirmenn, fjölskyldu, samferðafólk og ekki síst yfir á spegilmyndina af sjálfum sér þar sem maður horfir á sig og hugsar „You fucking looser“.

„Það eru óendanleg verðmæti fólgin í því fyrir allt samfélagið að endurheimta, þó ekki sé nema einn, afvegaleiddan einstakling til baka. Næsta kynslóð á eftir honum þarf þá ekki að halda áfram á sömu braut. Þekkingarsamfélagið; meðferðaraðilar, sálfræðingar og þau sem fást við fíknisjúkdóma hafa fyrir löngu lagt fram gögn sem sýna hvernig við förum úr tengslum við tilfinningakerfin okkar þegar við búum við vanrækslu og skort á kærleik. Lækningin er eðlilega ekki flókin. Ofurskammtar af velvild, kærleika, viðurkenningu, ást og umburðarlyndi. Það er meira að segja búið að prófa þetta á rottum og þær urðu mjög kátar!“ segir hann og hlær en bætir svo við, með örlítið alvarlegri tón, að það sé grundvallaratriði að hjálpa föngum að komast í jafnvægi svo að þeir geti spjarað sig áfram í gangverki samfélagsins.

Fordæming og útskúfun að afplánun lokinni

„Ég hef fulla trú á að við getum náð 60 til 70 prósent árangri í fangelsum með því að vinna fanga til baka yfir í að vera ábyrgir samfélagsþegnar. Þeir þurfa að verða menn meðal manna og hætta að láta þennan harm ganga yfir sjálfa sig og aðra,“ segir hann og gagnrýnir í þessu samhengi skort á aðgengi fanganna að sálfræðingum og geðlæknum, sem og skorti á úrræðum að afplánun lokinni. Oft taki ekkert betra við, aðeins fordæming og útskúfun sem verði til þess að mennirnir leiðast aftur út í glæpi og neyslu.

„Við gætum litið til Bretlands í þessu samhengi. Þar er víða mjög virkt starf sem byggir á aðkomu fyrri fanga í gegnum sjálfseignarstofnanir en ekki ríkisvald. Það þarf nefnilega að af-stofnanavæða þessa menn. Koma þeim til ábyrgðar og sjálfsgetu. Hjálpa þeim að hjálpa sér sjálfir með fjárhagsráðgjöf, sálfræðiaðstoð eða annarri tilfinningalegri úrvinnslu og svo framvegis. Valdefling heitir þetta víst og hún á að vera til staðar fyrir þá sem það vilja, en ekki fyrir þá sem það þurfa, eins og oft er sagt. Fangi sem hefur kannski verið edrú inni í fangelsi og búið þar við félagslegt öryggi, eins fáránlega og það hljómar, á stundum ekkert annað að hverfa til en rústirnar sem hann kvaddi þegar hann sleppur aftur út. Hann endist í örfáa daga á AA-fundum, hefur ekki í nein hús að venda, það vill enginn ráða hann í vinnu og hann fær enga viðurkenningu. Það er enginn sem segir: Þú laukst afplánun, maður, vel gert og vertu velkominn! Þeir fá bara mótvind í fangið í staðinn fyrir stuðning, vinaþel og hlýju,“ segir Tolli og bætir við að eftirleikurinn ætti að vera jafn sjálfsagður hluti af betrun fanganna og dvölin innan veggja fangelsisins.

Þegar þetta er ekki meðhöndlað þá dafnar hryllingurinn innra með manni eins og fóstrin í Alien. Að lokum verður hann að skrímsli sem tekur yfirhöndina með kvíða, svefnleysi, fíknarvanda og fleiru.

Með áfallastreituröskun um fermingu

Vímuefnaneysla kom Tolla sjálfum aldrei í fangelsi en hann var orðinn 42 ára þegar hann hætti allri neyslu á vímugjöfum. Hann segist hafa lagt mikla vinnu í að endurheimta sjálfan sig en drengurinn Tolli hafi verið týndur og tröllum gefinn þegar hann hætti loksins að drekka og dópa eftir margra ára neyslu.

Stakk hann þig af upp úr þrítugu þá eða …?

„Nei. Ég var í raun kominn í gríðarlegt ójafnvægi löngu áður en ég byrjaði að drekka og víman var kærkomin lausn. Ýmis tilfinningaleg áföll í æsku leiddu til þess að mjög ungur var ég kominn algjörlega úr tengslum við sjálfan mig. Um fermingu var ég haldinn alvarlegri áfallastreituröskun og því greip ég til einu lækningarinnar í stöðunni – að taka flöskuna og drekka mig í blakkát.“

Hann segir margt geta valdið áföllum og sérstaklega sé barnssálin viðkvæm.

„Vanræksla, aðskilnaður eða augnabliks atvik getur komið fólki úr jafnvægi. Það gerist eitthvað sem verður til þess að hið frumstæða varnarkerfi heilans, þetta sem kallað er „fight or flight“ á fagmálinu, grípur til sinna ráða með ýktum afleiðingum fyrir sálarlífið. Mín áfallasaga í æsku var frekar dramatísk og slíkt getur flækt málin seinna meir í þeim skilningi að þá á maður til að vanmeta aðstæður og uppákomur sem hlaðast svo ofan á streituna sem er fyrir í sálinni. Að upplifa einelti einn vetur í skóla, vera sendur í sveit, mamma kom ekki og náði í mig á réttum tíma … svona lagað getur alveg valdið áföllum sem sökkva sér í undirvitund heilans og hafa svo áhrif á dagvitundina þegar fram í sækir,“ útskýrir hann og tekur sér stutta umhugsunarpásu. Svo heldur hann áfram:

„Ómeðhöndluð áföll geta umbreyst í ástand sem smátt og smátt fer mjög illa með fólk. Étur það að innan. Sem ungur maður tæklaði ég þetta, eða ekki, með því að hunsa erfiðar hugsanir, rokk og ról bara. En svo líður tíminn og þegar þetta er ekki meðhöndlað þá dafnar hryllingurinn innra með manni eins og fóstrin í Alien. Að lokum verður hann að skrímsli sem tekur yfirhöndina með kvíða, svefnleysi, fíknarvanda og fleiru. Það flæðir eins og krabbamein yfir alla tilveruna og maður byrjar að snúast í endalausa hringi, neðar og neðar. Kvíði, vanmáttur, stress, ótti … þegar ástandið er komið í svona hringrásarlykkju þá vindur það upp á sig og svo heldur maður þessu við með því að lifa í neikvæðri orku. Maður yfirfærir skelfingar fortíðarinnar yfir á það sem er að gerast í núinu – á makann, yfirmenn, fjölskyldu, samferðafólk og ekki síst yfir á spegilmyndina af sjálfum sér þar sem maður horfir á sig og hugsar „You fucking looser“.

„Varnarkerfi þeirra sem sitja í fangelsi er gríðarlega sterkt. Maður kemst ekki auðveldlega í gegnum þessar varnir og það er ekki af því strákarnir vilja það ekki heldur vegna þess að þeir eru einfaldlega fastir í vörninni. Það sem gerist svo í hugleiðslu er að menn verða fyrir reynslu sem kemur innan frá.“
Hugleiða sig út úr heimi ofbeldis og glæpa „Varnarkerfi þeirra sem sitja í fangelsi er gríðarlega sterkt. Maður kemst ekki auðveldlega í gegnum þessar varnir og það er ekki af því strákarnir vilja það ekki heldur vegna þess að þeir eru einfaldlega fastir í vörninni. Það sem gerist svo í hugleiðslu er að menn verða fyrir reynslu sem kemur innan frá.“

Mynd: Brynja

Leiðin í ljósið

Á bataleið sinni kynntist Tolli tíbeskum búddisma hjá Hugleiðslu og friðarmiðstöðinni. Hann byrjaði að hugleiða bæði kvölds og morgna og segir fátt hafa gert sér jafn gott enda sé þetta skotheld leið til að leggja rækt við kærleikann.

„Búdda helgaði líf sitt því að finna lausnir á andlegum þjáningum með því að iðka vissar aðferðir og kenna þær áfram. Í mínum huga var hann merkilegasti sálfræðingur sem uppi hefur verið. Þar að auki var hann stórkostlegur jógi af norður-indverska Tantra-skólanum. Hann kunni á líkamann, orkustöðvarnar, tilfinningakerfin og hugann og vissi hvað þurfti að gera til að ná tökum á tilverunni. Þetta gerði hann að einstökum meistara. Meistara sem skildi eftir sig vísdóm sem hefur verið kenndur og iðkaður í rúm tvö þúsund og fimm hundruð ár og á nú stefnumót við nútíma sál- og taugalífeðlisfræði,“ útskýrir hann af eldmóði.

Fangar í fljótandi friðsæld

Í þessu samhengi víkjum við talinu aftur að hugleiðslustundunum sem fóru fyrst fram á Litla-Hrauni og nú síðast í fangelsinu á Hólmsheiði.

„Þetta var ekki flókið til að byrja með. Ég sagði þeim frá þessari frábæru uppgötvun minni og spurði hvort þeir væru til í að prófa. Nokkrir voru það svo við settum spólu með hugleiðslutónlist í gamalt kassettutæki, ýttum á play, krosslögðum fætur og komum okkur í núið með hugleiðslunni. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar. Ég þýddi meðal annars kennslubók, tíu daga námskeið í hugleiðslu, og fór svo að kenna föngunum upp úr henni sem var mjög gagnlegt því þetta gaf svo góðan strúktúr.

Við lásum saman í bókinni og tókum svo hverja æfingu fyrir sig. Það var lesið í korter, hugleitt í hálftíma og svo samhæfðu menn reynslu, styrk og vonir eins og gert er á 12 spora fundum,“ segir hann og bætir við að þetta hafi gripið marga vegna þess að þeir fundu hvað þeim leið vel eftir hugleiðsluna.

„Vá, hvað var þetta!?“

„Varnarkerfi þeirra sem sitja í fangelsi er gríðarlega sterkt. Maður kemst ekki auðveldlega í gegnum þessar varnir og það er ekki af því strákarnir vilja það ekki heldur vegna þess að þeir eru einfaldlega fastir í vörninni. Það sem gerist svo í hugleiðslu er að menn verða fyrir reynslu sem kemur innan frá. Þetta er upplifun sem á sér stað áður en þeir ná að loka fyrir hana: „Vá, hvað var þetta!? Þetta er frábært, ég ætla að koma aftur,“ sögðu þeir og svo héldum við áfram á fullri ferð. Við skipulögðum andlegar ráðstefnur, stúderuðum jóga, taóisma, chi gong og fengum fyrirlesara til að mæta í fangelsið. Fangarnir sáu um matinn og fengu meðal annars tónlistarmenn til að flytja hugleiðslumúsik. Svo lágu þeir bara og flutu um í friðsæld og vellíðan. Og gleðin hélt áfram. Tvö eða þrjú ár í röð mættum við hvern einasta dag, í tíu daga fram að jólum og hugleiddum alla morgna. Enduðum svo á laugardegi þar sem við hugleiddum í þrjá tíma samfellt og borðuðum svo saman góða máltíð. Öll þessi vinna skilaði sér í betri orku innan hússins enda gerði hún strákana sem voru með í þessu að þátttakendum og það er að mínu viti lykillinn að árangri. Að fanganum finnist hann vera á jafnræðisgrundvelli og að ástundun sé að hans eigin frumkvæði.“

Gerbreyttust á þrjátíu dögum

Að lokum segir hann frá fullyrðingu sem hann heyrði þegar hann var að stíga sín fyrstu skref í hugleiðslunni.
„Mér var sagt að ef maður myndi hugleiða kvölds og morgna í þrjátíu daga samfellt þá myndi það breyta manni varanlega. Þegar ég sagði strákunum þetta þá glottu þeir við tönn en prófuðu svo – og viti menn, þetta gerðist! Ekki fyrir einn og ekki fyrir tvo. Það voru fleiri strákar sem lýstu því fyrir mér hvernig viðhorf þeirra og samskipti bæði við fangaverði og hver annan gerbreyttust eftir að þeir byrjuðu að hugleiða. Þetta er nefnilega ekki svo flókið. Hugleiðsla er einfaldlega verkfæri sem virkar jafn vel og skiptilykill. Þú tekur hann, losar og herðir aftur og hluturinn kemst í lag!“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 8 klukkutímum

Þessir tíu leikskólar hafa samþykkt að fara í verkfall 10. desember

Þessir tíu leikskólar hafa samþykkt að fara í verkfall 10. desember
Pressan
Fyrir 8 klukkutímum

Maðurinn sem sviðsetti dauða sinn og yfirgaf konu og börn vill ekki segja hvar í Evrópu hann er

Maðurinn sem sviðsetti dauða sinn og yfirgaf konu og börn vill ekki segja hvar í Evrópu hann er
Eyjan
Fyrir 11 klukkutímum

Óánægjan með Einar og meirihlutann í borginni fer vaxandi en flokkarnir tapa mjög misjafnlega á því

Óánægjan með Einar og meirihlutann í borginni fer vaxandi en flokkarnir tapa mjög misjafnlega á því
433Sport
Fyrir 11 klukkutímum

Breiðablik staðfestir komu Valgeirs

Breiðablik staðfestir komu Valgeirs
Eyjan
Fyrir 13 klukkutímum

Stórtíðindi í nýrri könnun: Viðreisn spólar fram úr Samfylkingu – Framsókn á útleið?

Stórtíðindi í nýrri könnun: Viðreisn spólar fram úr Samfylkingu – Framsókn á útleið?
Fókus
Fyrir 13 klukkutímum

Fjör og flottheit á forsýningu IceGuys 2

Fjör og flottheit á forsýningu IceGuys 2