Sjaldan hefur Jöklusvæðið byrjað eins vel og í sumar og það var engin smálax sem braut 100 laxa múrinn núna í dag.
Ungur erlendur veiðimaður Jules Goldberg frá Þýskalandi setti í og landaði 107 cm hrygnu núna síðdegis sem tók litla Snældu 1/4 tommu á veiðistað sem ber nafnið Sjálfhelda.
Fáir fara á þann stað sem er kannski ekki undarlegt miðað við nafnið, en allavega borgaði það sig og félagi hans tók aðra hrygnu þar 89 cm! Laxinn var mjög sver og almennt eru hrygnur þyngri miðað við lengd en hængar. Líklega er þetta því stærsti laxinn sem veiðst hefur á landinu ennþá þetta sumar.
Besti dagurinn var líka í dag í Jöklu það sem af er sumri en það stefnir í að 12-15 laxar komi á land fyrir kvöldið. Yfirfall lítur vel út allt til mið eða seinnihluta ágúst þegar von er á því miðað við stöðuna í dag. Og Jölka er komin yfir 100 laxa.