„Ég held að það sé dauðafæri á því núna að opna umræðuna um þetta mál,“ segir Sigmar í samtali við Morgunblaðið um málið. „Það er hægt að bölsótast út í kórónuveiruna út af mörgu. En það sem er jákvætt við hana er þesssi breyting á skemmtanamenningunni hér á landi, þar sem við erum farin að fara fyrr út að skemmta okkur en áður.“
Síðan skemmtistaðir voru opnaðir aftur þá hafa þeir ekki verið opnir lengur en til kl 23 á kvöldin. „Ég held að það sé ekki vitlaust fyrir okkur sem samfélag að sæta nú færis og stytta almennt afgreiðslutíma skemmtistaða. Þannig gætu leyfi sem gera ráð fyrir því að hægt sé að hafa opið til klukkan fimm um morguninn, færst til klukkan þrjú, og þau leyfi sem gera ráð fyrir að opið sé til klukkan þrjú, myndu gilda til klukkan eitt í staðinn.“
Um aldamótin var opnunartíma skemmtistaða breytt en fyrir það máttu staðir ekki vera opnir lengur en til klukkan 3 á nóttunni. Fyrir aldamótin tíðkaðist mikil hópamyndun á stöðum eins og Lækjartorgi eftir að stöðum var lokað. Með lengingunni á opnunartímanum fækkaði vandamálum vegna hópamyndunarinnar. Sigmar segir að nú séum við að sjá svipuð tilvik með hópamyndun eins og fyrir aldamótin. „Það er álag á lögreglunni eftir klukkan ellefu. Þá flytur fólk sig í heimahús og heldur áfram að skemmta sér þar með tilheyrandi erfiðleikum.“
Sigmar bendir á að styttri opnunartími gæti skilað sér til neytenda þar sem verð gætu lækkað á stöðunum. Þá vill Sigmar líka meina að þetta gæti verið hagvæmt fyrir hagvöxtinn. „Ef fólk skemmtir sér ekki langt fram undir morgun, þá vaknar það fyrr daginn eftir skemmtanahald og er virkara í samfélaginu þann daginn. Þótt ég sé ekki mikið fyrir forsjárhyggju tel ég að þetta sé mjög verðugt umræðuefni.“
Samkvæmt Sigmari eru kollegar hans í bransanum sammála um málið. „Ég held að flestir geti verið sammála um kostina við styttingu afgreiðslutímans. Við vorum neydd út í að hafa styttri afgreiðslutíma út af heimsfaraldri og svo reynast allir vera bara sáttir. Ég held að það sé dauðafæri á því núna að opna umræðuna um þetta mál.“