fbpx
Föstudagur 25.apríl 2025
Fréttir

Píratar minnast Jónasar

Jón Þór Stefánsson
Fimmtudaginn 16. júlí 2020 19:10

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Minningargrein um Jónas Ingólf Lövdal birtist á vef Pírata í dag. Jónas hafði verið virkur í starfi Pírata um nokkurt skeið, til dæmis sat hann í framkvæmdaráði flokksins árið 2016 til 2017. Róbert Ingi Douglas, upplýsingafulltrúi Pírata, er skráður fyrir greininni, en í henni fer hann fögrum orðum um félaga sinn og vin.

Í greininni er fjallað um hæfileika og kosti Jónasar. Róbert minnist sinna kynna við Jónas og þá sérstaklega langra símtala, sem styrktu vináttu þeirra.

DV sendir aðstandendum Jónasar Ingólfs Lövdal innilegar samúðarkveðjur.

Greinina má lesa hér að neðan:

„Góður félagi og vinur okkar Pírata er látinn. Jónas kom inn í starf Pírata árið 2015 og tók virkan þátt í grasrót flokksins. Hann sat í framkvæmdaráði Pírata 2016-17 og árið 2019, þar sem hann var tengiliður framkvæmdaráðs við starfsfólk ásamt því að leiða mannauðshóp Pírata. Hann var í stjórn Pírata í Norðvesturkjördæmi og tók mikinn þátt í að móta starfið í því kjördæmafélagi.

Óhætt er að segja að Jónas hafði mikil áhrif á mótun skipulags og innra starfs flokksins, enda var skipulagstækni mikil ástríða hjá honum. Jónas tók að sér fjölmörg verkefni sem tengdust skipulagi flokksins, hann hannaði móttökukerfi grasrótarinnar, tók þátt í nýliðaráði og innanhúsnefnd, fundarstjórn framkvæmdaráðs, skipulagi aðalfundi og skipulag kosningabaráttunnar 2016.

Jónas var hæfileikaríkur myndlistarmaður, grafískur hönnuður og ljósmyndari. Flokkurinn naut góðs af þeim hæfileikum og þeirri hugmyndaauðgi sem hann bjó yfir, þar sem hann vann og hannaði fyrir samfélagsmiðla, aðalfundi og fréttablað flokksins.

Jónas var réttsýnn, hann hafði góðan skilning á félagslegu starfi og mannlegum samskiptum. Hann var iðulega í óformlegu sáttamiðlunarhlutverki innan flokksins ef ágreiningur myndaðist milli félagsfólks. Hann var alltaf reiðubúinn til að miðla málum og lagði sig fram við að skilja afstöðu allra. Hann var aldrei með fyrirfram mótaðar skoðanir á fólki og var ótrúlega duglegur að tala við alla. Jónas þurfti ekki að olnboga sig áfram, það var leitað til hans.

Sjálfur kynntist ég Jónasi fyrir rúmlega ári síðan þegar hann var kosinn í framkvæmdaráð Pírata í annað sinn. Þá var ég nýr starfsmaður að sjá um þær kosningar. Á kynningarfundi frambjóðenda tók ég sérstaklega eftir því hversu margir úr flokknum gáfu sig á tal við Jónas og lýstu ánægðu sinni að hann væri kominn aftur í virkt starf og að hans hefði verið saknað í grasrótarstarfinu. Ég fann þó mest fyrir því að fólk saknaði hans, vináttu hans.

Seinna á árinu vann ég með honum við undirbúning aðalfundar Pírata. Þar fékk ég að kynnast þeim ótrúlega metnaði og ástríðu sem hann hafði fyrir starfinu (og góðu skipulagi). Hann tók öllum sínum hlutverkum alvarlega, flokksstarfinu og hlutverki sínu sem Pírati tók hann alvarlega, vináttu og hlutverki sínu sem vin tók hann alvarlega.

Ég er ekki einn um að minnast með söknuðu langra símtala frá honum, símtöl sem áttu oft að vera stutt og tengd vinnunni urðu ávalt lengri og tengd vináttunni. Þessi símtöl byrjuðu nær alltaf á umhyggju hans um vellíðan manns í starfinu, stundum um skipulag næsta vinnudags, en alltaf þróaðist símtalið yfir í langar og djúpar samræður um allskonar viðfangsefni og áhugamál, myndlist, ljósmyndun, hönnun, kvikmyndir, líffræði, plöntufræði, kenningar Myers-Briggs, NBA deildin og jafnvel stjórnmál. Þarna þróaðist vináttan okkar. Hans er saknað í starfinu, hans er saknað sem vinur.

Síðast þegar Jónas heimsótti skrifstofu Pírata var hann kominn í BS-nám í landslagsarkitektúr og skipulagsfræðum. Hann stoppaði stutt en var ánægður að sjá að við höfðum keypt fjórar plöntur inn á skrifstofuna, augljóslega miklar framfarir á skrifstofu þar sem eitt plastblóm og mynd af Helga Hrafni höfðu hingað til sinnt þörfum flokksins í innanhúshönnun. Þennan dag kvaddi Jónas skrifstofur Pírata með þessum orðum: „Þegar ég klára námið að þá skal ég endurskipuleggja þetta rými. Við verðum að gera þetta útfrá plöntunum. Það skiptir svo miklu máli að plönturnar og Píratarnir hér inni hafi gott loft. Þið verðið að geta andað.”

Fyrir hönd Pírata þakka ég góð kynni og gott framlag til okkar samtaka. Píratar senda fjölskyldu Jónasar innilegar samúðarkveðjur.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Safnaði milljónum fyrir Geðhjálp á sextugsafmælinu sínu með tónleikum

Safnaði milljónum fyrir Geðhjálp á sextugsafmælinu sínu með tónleikum
Fréttir
Í gær

Fyrrverandi bæjarstjóra Fjallabyggðar misboðið vegna auglýsinga SFS – „Þorpin töpuðu. Þorpin urðu undir“

Fyrrverandi bæjarstjóra Fjallabyggðar misboðið vegna auglýsinga SFS – „Þorpin töpuðu. Þorpin urðu undir“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Kynferðisbrotamaður framseldur frá Íslandi – Dæmdur fyrir brot gegn barnungri stúlku í heimalandinu

Kynferðisbrotamaður framseldur frá Íslandi – Dæmdur fyrir brot gegn barnungri stúlku í heimalandinu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Guðni rifjar upp samtal: „Við hlustuðum ekki frekar en fyrri daginn“ – Segir lýsingar Úlfars vera sláandi

Guðni rifjar upp samtal: „Við hlustuðum ekki frekar en fyrri daginn“ – Segir lýsingar Úlfars vera sláandi