,,Þetta er svona kropp hérna á Skagaheiðinni hjá okkur þessa stundina en glæðist,“ sagði Pétur Pétursson sem er staddur á Skagaheiðinni með allri fjölskyldunni við veiðar. En veiðin hefur verið ágæt á heiðinni fram að þessu en misjöfn eftir vötnum eins og gengur og gerist.
,,Pétur Jóhann sonur minn var að landa einni bleikju áðan en veiðin gæti glæðst með kvöldinu. Það gerir það oft hérna og við verðum bara að vera þolinmóð. Það er 8 til 10 stiga hiti og hann mætti bæta við nokkrum gráðum,“ sagði Pétur að lokum en hann hefur farið nokkrum sinnum á heiðina og oft veitt vel af fiski í gegnum tíðina.
Við fréttum af veiðimönnum sem fóru í Ölversvatn nýlega og veiddu ágætlega. Bæði urriða og bleikju.
Mynd. Pétur Jóhann Pétursson með flotta bleikju af heiðinni, framtíðarveiðimaður þarna á ferð. Mynd PP