Orðabanki Birtu: Snobb
Snobb er ekkert annað en fánýtleg eftirsókn eftir upphefð og fólk sem er snobbað lítur óþarflega mikið upp til þeirra sem hafa einhvern titil eða stöðu í samfélaginu.
Orðið er upprunalega enskt og virðist í öndverðu hafa verið notað um fólk af lægri stéttum og stigum sem vildu tileinka sér siði og hætti yfirstéttarinnar og komast þannig ofar í virðingarstigann. Orðið varð fyrst vinsælt í Cambridge háskólanum en þar lýstu nemendum öllum þeim sem ekki voru í skólanum sem „snobs“.
Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum lýsir snobbi sem höfðingjasmjaðri, fánýtri eða hégómlegri eftirsókn eftir upphefð þar sem lágstéttarmanneskja smjaðrar fyrir höfðingjum og er haldin hégómlegri sýndarmennsku.
Íslensk samheiti yfir þetta frábæra orð eru til dæmis hið frábæra orð tildurgosi og einnig dyndilmenni, dusill, dyndill, höfðingjasleikja, snobbhæna, ríkismannakrassi, smámenni og taglhnýtingur.
Önnur orð sem lýsa fyrirbærinu sjálfu í skyldri mynd eru til dæmis: smjaður, smjaðurmæli, blíðmæli, dyndilmennska, fagurgali, flaður, flaðurgirni, flaðurmæli, flaðuryrði, fleðulæti, fleðuskapur, flírulæti, hræsni, kjassmæli, miga, mjúkmæli, skjall, skjallmælgi, sleikjuháttur, sléttmælgi, uppmiga, uppmiguháttur og uppskafningsháttur svo fátt eitt sé nefnt.