Brooklyn Beckham, elsti sonur Beckham hjónanna David og Victoriu, er trúlofaður kærustunni sinni, leikkonunni Nicola Peltz. Brooklyn sem er 21 árs og Nicola sem er 25 ára gerðu samband sitt opinbert í janúar þegar Brooklyn óskaði sinni heittelskuðu til hamingju með afmælið á Instagram. Parið staðfesti svo trúlofunina laugardaginn 11. júlí á samfélagsmiðlum eins og frægra er siður og í færslu frá Brooklyn segir hann meðal annars; „Fyrir tveimur vikum bað ég sálufélaga minn um að giftast mér og hún sagði já! Ég er heppnasti maður í heimi. Ég lofa að vera frábær eiginmaður og einn daginn frábær pabbi. Ég elska þig ástin mín xx.“
Þrátt fyrir ungan aldur er Brooklyn síður en svo óreyndur í ástarmálum en hann hefur átt vingott við all margar ungar konur í gegnum tíðina. Sú sem hann var lengst með er leikkonan Chloë Grace Moretz en samband þeirra hófst árið 2014 þegar Chloë var 18 ára og Brooklyn var bara 15 ára síli. Þau voru voru ítrekað að hætta og byrja aftur saman þar til að þau létu gott heita í ágúst 2016. Ári síðar voru þau aftur byrjuð saman en þau slitu endanlega samvistum snemma árs 2018. Þrátt fyrir langa sögu með Chloë tókst Brooklyn að bæta í reynslubankann og átti til að mynda vingott við fyrirsætuna Hana Cross, frönsku leikkonuna Sonia Ben Ammar, leikkonuna Sofia Richie, söngkonuna Madison Beer, Playboy fyrirsætuna Lexi Wood og fyrirsætuna Alex Lee Aillón.
Fregnir herma að foreldrar Brooklyn séu hæstánægðir með ráðahaginn og bíði spennt eftir brúðkaupinu