Bleksmiðjan
„Ég er búin að vera í níu ár í faginu. Þetta hefur breyst nokkuð frá því um aldamótin þegar „tribal“-tákn og kínatákn voru vinsæl, núna eru þetta oft stærri og íburðarmeiri myndir og sífellt meira um sérhannanir fyrir fólk. Það eru mörg stór verkefni í gangi, fólk kemur með sínar eigin hugmyndir sem við útfærum og oft velur það síðan hugmyndir frá okkur – og mjög oft ganga hugmyndir á milli okkar og viðskiptavinanna,“ segir Sigrún Rós Sigurðardóttir hjá Bleksmiðjunni, sem staðsett er í Húsi verslunarinnar, Kringlunni 7. Sigrún á þetta fyrirtæki með eiginmanni sínum, Ingólfi P. Heimissyni, en alls starfa átta húðflúrarar á stofunni.
„Þetta er krefjandi starf, bæði tímafrekt og krefst þess að maður haldi sér alltaf skapandi. Fólk er misjafnlega lengi hverju sinni, sjaldan er þó fólk hjá okkur skemur en þrjá tíma í einu. Að jafnaði tekur hver heimsókn um þrjá til sex tíma. Hver húðflúrari sinnir yfirleitt ekki nema einum viðskiptavini á dag. Svo koma sumir oft út af sömu myndinni þegar um stærri verkefni er að ræða. Svo er líka misjafnt hvað fólk þolir mikið í einu,“ segir Sigrún en hún vill meina að sársaukinn sem fylgi því að fá húðflúr sé alls ekki óbærilegur: „Ef svo væri þá væri þetta ekki svona vinsælt. Líkaminn venst sársaukanum og deyfir hann. En auðvitað tekur þetta dálítið á.“
Sigrún segir að starf húðflúrarans sé mjög persónulegt og mikilvægt sé að skapa góða tengingu við viðskiptavininn. „Traust byggist oft upp þegar viðskiptavinurinn skoðar verkin mín en mannleg samskipti eru alltaf mikilvæg í þessu fagi og eru grunnurinn að því að eignast fastakúnna, því ef ekki verður nógu sterk tenging getur fólk alltaf leitað eitthvert annað.“
Viðskiptavinahópur Bleksmiðjunnar er afar stór. „Við tökum ekki yngri en 18 ára en aldurbilið er alveg frá 18 og upp í 70. Stærsti aldurshópurinn er kannski milli tvítugs og þrítugs en þetta er fólk á öllum aldri og úr öllum starfsstéttum.“
Þess má geta að líkamsgötun er einnig í boði á Bleksmiðjunni.
Gjafabréf fyrir húðflúri er góð jólagjöf sem gleður marga. Gjafabréf fyrir upphæð að eigin vali eru í boði í Bleksmiðjunni. Þau er hægt að sækja á staðinn eða láta senda sér hvert á land sem er. Gjafabréf er hægt að panta í gegnum Facebook-síðu Bleksmiðjunnar eða með því að hringja í síma 823 57575.