Hópur vísindamanna frá University College London (UCL) hefur sent frá sér skýrslu um 43 sjúklinga sem höfðu veikst af COVID-19 og hafa verið með tímabundnar truflanir á heilastarfsemi, fengið heilablæðingar, taugaskaða eða önnur alvarleg áhrif á heilann.
Michael Zandi, einn vísindamannanna sem stóð að rannsókninni, segir að enn sé óvíst hvort faraldur heilaskaða muni fylgja í kjölfarið á COVID-19 en mögulega megi búast við svipuðum faraldri og fylgdi í kjölfar spænsku veikinnar 1918.
COVID-19 er aðallega öndunarfærasjúkdómur sem hefur áhrif á lungun. Taugasérfræðingar og læknar sem sérhæfa sig í heilasjúkdómum segja að fjölgun vísbendinga um áhrif COVID-19 á heilann veki áhyggjur.
Rannsókn UCL birtist í breska tímaritinu Brain. Hún sýnir að níu sjúklingar sem smitast höfðu af kórónuveirunni greindust með sjaldgæfan sjúkdóm, svokallaða bráða heilabólgu (Adem). Vísindamennirnir segja að undir venjulegum kringumstæðum greinist að meðaltali eitt tilfelli af Adem á heilsugæslustöð þeirra í London á einum mánuði.
Á meðan á rannsókninni stóð fjölgaði tilfellunum í eitt á viku og hafa vísindamennirnir áhyggjur af þeirri þróun.