Lærði stríðstækni og vopnaburð – Gætir öryggis norsku konungsfjölskyldunnar – „Það er mikill agi og búist við miklu af manni“
„Ég myndi ekki segja að þetta væri fyrir alla en ég myndi samt mæla með þessu fyrir bæði kynin. Þú lærir svo ótrúlega margt, ekki síst sjálfsaga og að standa á eigin fótum,“ segir hin tvítuga Iðunn Getz Jóhannsdóttir en hún ber tvo afar ólíka starfstitla. Hún er lærður förðunarfræðingur en hefur undanfarna mánuði gegnt herþjónustu í Osló og meðal annars staðið vaktina fyrir utan höll norsku konungsfjölskyldunnar.
Iðunn ólst upp í Garðabæ til 16 ára aldurs en móðir hennar er norsk og faðir hennar íslenskur og eru þau bæði læknar. Þá á Iðunn þrjú eldri hálfsystkini sem búsett eru í Noregi og einn yngri albróður sem einnig ólst upp hér á landi. Árið 2013 flutti fjölskyldan síðan búferlum til Þrándheims.
„Ég var mikið í hestamennsku þegar ég var yngri og vann lengi í reiðskóla. Svo hef ég verið mikið á skíðum og æfði dans og blak. Ég hef líka alltaf haft mikinn áhuga á söng, leiklist og förðun. Í Noregi fór ég svo í menntaskóla og útskrifaðist þaðan með stúdentspróf með eftir þrjú ár.“
Frá árinu 2015 hefur almenn herskylda verið í gildi fyrir bæði kynin í Noregi en þó er hægt að neita herþjónustu án nokkurra afleiðinga. Iðunn fékk því sent viðeigandi bréf þegar hún var á síðasta árinu í menntaskóla en hún er bæði með íslenskan og norskan ríkisborgararétt. Hún stóð að eigin sögn á ákveðnum krossgötum í lífinu og ákvað því að slá til.
„Ég henti mér bara út í þetta. Nánast allir á átjánda ári fá innköllun í herinn þar sem þú þarft að svara spurningum um sjálfan þig og hvort þú hafir áhuga á að fara í herinn eða ekki. Ég svaraði til baka og sagðist hafa áhuga þó svo að ég vissi í raunni ekkert við hverju ég var að segja já. Ég ákvað bara að skora á sjálfa mig að prófa þetta.“
Þeir sem vilja ganga í herinn í Noregi þurfa að standast ýmis próf sem reyna á líkamlegan og andlegan styrk og því fékk Iðunn að kynnast, en hún þreytti inntökupróf haustið 2015.
„Í inntökuprófunum er meðal annars verið að kanna líkamlega hæfni þol og styrk og þá þarf að gangast undir læknisskoðun til að útiloka öll meiðsli og sjúkdóma. Síðan er bóklegt próf þar sem maður þarf meðal annars að sýna kunnáttu í stærðfræði, tungumálum og rökfræði,“ útskýrir Iðunn en hún sótti sérstaklega um að fá að starfa innan herdeild konungshirðarinnar í Osló.
„Ég hafði síðan tíma eftir að ég var búin með menntaskóla í fyrravor til gera eitthvað skemmtilegt og ákvað þá að fara til Íslands í nokkra mánuði. Þar vann ég á á Te og Kaffi og fór í förðunarskóla og útskrifaðist sem förðunarfræðingur í nóvember 2016.“
Í janúar á þessu ári tók síðan við þriggja mánaða dvöld í þjálfunarbúðum hersins sem staðsettar eru í bænum Elverum, í rúmlega tveggja tíma aksturfjarlægð frá Osló. Iðunn gekkst þar undir grunnþjálfun þar sem kennd voru öll helstu undirstöðuatriði, eins og til dæmis að skjóta af byssu.
„Þarna lærðum við allt mögulegt eins og hvernig þú beitir vopni, kveikir á prímus, setur upp tjald, beitir skyndihjálp og notar kort og áttavita. Það var líka farið sérstaklega út í stríðstækni í skógi og síðan voru bóklegir tímar og líkamsþjálfun. Þetta er semsagt grunnmenntunin sem allir þurfa að fara í gegnum.“
Iðunn hóf í kjölfarið störf hjá einni af herdeildum konungshirðarinnar í Osló. Snýst starfið að miklu leyti um að gæta öryggis í opinberum byggingum og í konungshöllinni, og einnig á öðrum heimilum meðlima konungsfjölskyldunnar. Meðlimir herdeildarinnar standa einnig vaktina á þjóðarhátíðardaginn og við ýmis tilefni eins og setningu þingsins. Starfið innan hersins er sögn Iðunnar afar fjölbreytt og enginn dagur er eins.
„Eftir grunnþjálfunina var ég spurð hvort ég vildi taka ábyrgð á skotvopnum fyrir mína deild og þá bauðst mér einnig að taka meirapróf sem ég gerði. Mitt starf hefur einkum falist í því að vera ábyrgð á skotvopnum fyrir deildina og sinna akstri og þá hef ég staðið vaktina fyrir framan konungshöllina. Við förum líka vikulega á æfingar úti í skógi þar sem við gistum í tjaldi og lærum stríðstækni og hvernig best er að verjast árásum.“
Aðspurð segir Iðunn ýmsa kosti fylgja því að gegna herþjónustu í Noregi. Meðlimir frá föst mánaðarlaun og fjórar fríar máltíðir á dag auk þess sem þeir fá fría læknis og tannlæknaþjónustu.
„Fyrir utan það þá hef ég fengið að kynnast sjálfri mér svo mikið betur. Ég er sjálfstæðari og öruggari og duglegri við að gefa af mér en áður. Auk þess hef ég séð hversu mikið ég get gefið af mér andlega og líkamlega, miklu meira en ég vissi að ég væri fær um. Þú getur alltaf gert meira en þú heldur.“ Hún segir það einnig hafa verið forvitnilega upplifun að vera ung stúlka í hernum. „Strákarnir eru í miklum meirihluta en það eru samt þó nokkuð margar stelpur sem hafa verið að sækja um.“
Daglegt líf í hernum byrjar klukkan sex á morgnana og gengur allt út á rútínur og strangan aga. „Þú færð í raun mjög litlu að stjórna. Það kemst enginn upp með að skrópa og þú hefur ekkert val hvort þú vilt vera með eða ekki,“ segir Iðunn og nefnir sem dæmi umgengnisreglurnar. „Það þarf að þrífa á hverjum degi og hafa allt í röð og reglu. Við þurfum að búa fullkomlega um rúmið og öll fötin eiga að vera fullkomlega brotin saman inni í skáp.
„Það er mikill agi og búist við miklu af manni. En mér finnst þetta hafa hjálpað mér á marga vegu þegar kemur að því að þroskast og taka ábyrgð á sjálfum sér. Hérna er engin mamma sem sér um að þvo þvottinn þinn eða vekja þig á morgnana, þú þarft að læra að standa á eigin fótum.“
Bæði kynin búa saman í húsnæðinu á vegum hersins. „Þetta er búið að vera bæði mjög skemmtilegt og þreytandi á sama tíma vegna þess að við erum að vissu leyti eins og ein stór fjölskylda. Allir eru bræður og systur. Herinn lítur eins á karla og konur. Það er 100 prósent jafnfrétti og bæði karlar og konur þurfa að lúta sambærilegum kröfum. Hérna er ekki horft á kyn heldur hversu vel þú vinnur vinnuna þína.“
Hún kveðst eingöngu hafa fengið jákvæð viðbrögð við því að hafa ákveðið að gegna herþjónustu og margir séu forvitnir að vita meira.
„Þetta hefur að sjálfsögðu komið fjölskyldu minni og vinum á Íslandi á óvart en ég er einnig sú fyrsta í fjölskyldunni í Noregi til að fara í herinn. Þetta er því búið að vera spennandi fyrir okkur öll og bæði íslensku og norsku fjölskyldunni minni finnst gaman að ég hafi ákveðið að prófa þetta,“ segir hún og bætir við að vissulega hafi ákvörðun hennar komið mörgum á óvart.
„Ég er samt þannig manneskja að ég elska að prófa nýja hluti og skora á sjálfa mig. Ég get alveg verið bæði förðunarfræðingur og hermaður med meiraprófið!“
Iðunn mun ljúka störfum sínum innan herþjónustunnar um miðjan mánuðinn og taka þá við jól á Íslandi í faðmi fjölskyldunnar. Hún heldur öllum möguleikum opnum varðandi framtíðina og stefnir á háskólanám annaðhvort á Íslandi eða í Noregi. Hún hefur undanfarna mánuði haldið úti rás á Snapchat þar sem hún hefur deilt myndum og myndskeiðum sem sýna líf hennar í hernum. Í kjölfarið hefur hún fengið spurningar frá kynsystrum sínum sem vilja vita hvort það sé erfitt að vera stelpa í hernum.
„Ég segi að stelpur geti svo sannarlega verið í hernum og sinnt starfinu eins vel og strákar. Þetta er að vissu leyti harka að það er undir þér komið hvernig þú tekst á við það. Þetta er áskorun en ég gæti ekki verið ánægðaðri með að hafa tekið þessa ákvörðun. Mér finnst ég heppin að hafa fengið þennan möguleika.“