Fjöldi fólks kom saman við húsnæði Vegargerðarinnar í Borgartúni nú í hádeginu en þá fóru fram þögul mómæli. Mælirinn er fullur hjá bifhjólasamfélaginu á Íslandi sem krefst úrbóta á hættulegum vegköflum víða um land. Ljósmyndari DV var á staðnum og náði meðfylgjandi myndum.
Líkt og fram hefur komið þá létu tveir lífið eftir alvarlegan árekstur mótorhjóls og húsbíls á Vesturlandsvegi á Kjalarnesi í gær. Slysið átti sér stað á vegarkafla á milli Grundarhverfis á Kjalarnesi og Hvalfjarðarganga en þar var nýlagt malbik sem reyndist vera nokkuð sleipt eftir rigningu. Tildrög slyssins eru nú til rannsóknar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og rannsóknarnefnd samgönguslysa.
„Við trúum þessu ekki. Andrúmsloftið er ofboðslega þungt. Það eru allir hálf lamaðir yfir þessu,“ sagðiÞorgerður Hoddó Guðmundsdóttir formaður Snigla bifhjólasamtaka í samtali við DV í gær. Þá bætti hún við: „Við höfum talað við Vegagerðina og Samgönguráðherra en það hefur bara ekki verið hlustað á okkur. Ég frétti í gær að fyrir nokkrum árum síðan varð banaslys á svona malbiki, á svona vegkafla. Mér var sagt að það hafi verið að minnsta kosti þrjú önnur slys.“
Í Fréttablaðinu í dag er rætt við Ólaf Guðmundsson umferðaröryggissérfræðing sem segir að um léleg vinnubrögð sé að ræða og margoft sé búið að benda á hættuna sem skapist vegna malbiks sem þessa. Vegagerðin er veghaldarinn og ber endanlega ábyrgð.
Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, segir í samtali við Fréttablaðið að verið sé að rannsaka hvað hafi farið úrskeiðis. Bendir hann á að ekki sé hægt að segja á þessari stundu hvort eitthvað hafi brugðist í framleiðslunni og sé það eitt af því sem þurif að skoða gaumgæfilega.“
Í samtali við Vísi í gær sagði Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar að fyrsta mat hafi bent til þess að yfirlögn á vegkaflanum, þar sem banaslysið varð og lagt var síðastliðinn fimmtudag, hafi ekki samræmst útboðsskilmálum.