„Ég vil að fólk sem er ekki mikið fyrir hunda geri sér grein fyrir hve mikilvægir þeir geta verið í lífi annara, þeir geta bjargað lífum á svo marga vegu,“ segir Aldís Ösp en hún varð fyrir alvarlegri og tilefnislausri líkamsárás af hendi ókunnugs manns fyrir þremur árum. Það reyndist Aldísi til happs að tíkin hennar Zola var með í för og fullyrðir hún að Zola hafi bjargað lífi hennar þetta kvöld.
Aldís deildi á dögunum frásögn sinni inni á facebookhópnum Hundasamfélagið en umræddur hópur telur hátt í 30 þúsund manns. Hefur færsla Aldísar vakið sterk viðbrögð enda óhætt að fullyrða að hér er á ferð einstakt dæmi um þau sterku og órjúfanlegu tengsl sem geta myndast á milli eiganda og gæludýrs.
Í samtali við blaðakonu DV segir Aldís að Zola hafi verið hennar bjargreipi í lífinu en Zola var svæfð í janúar 2015 eftir að hafa greinst með ólæknandi taugasjúkdóm.
„Zola var fædd í nóvember 2011 og kom til mín í janúar 2012. Hún var rosalega óörugg, en við unnum að því saman og hún komst mjög langt á þessum stutta tíma sem hún fékk með okkur. Við vissum að það væri eitthvað að henni, en unnum bara í kringum það. Hún var rosalega erfið en hún algjörlega bjargaði lífi mínu. Þegar ég fékk hana átti ég fáa vini og var ekki í skóla né vinnu vegna veikinda, en ég er öryrki. Hún hélt mér á tánum, það var alltaf eitthvað sem maður gat gert með henni og hún var dúndurfljót að læra. Ég flutti mikið á milli ættingja á þessum tíma og Zola kom með mér allt, og þar sem hún var gat ég kallað heimilið mitt. Ég var líka mikið heima hjá vinkonu minni, Alexöndru, sem hjálpaði okkur mikið.“
Það var síðan kvöld eitt árið 2014 að Aldís varð fyrir árás á götu úti á meðan hún var úti að ganga með Zolu.
„Ég fór oftast út í göngu með Zolu á kvöldin, það var rólegra og auðveldara fyrir okkur báðar. Ég fer sama göngustíg og ég hef alltaf gengið. Allt í einu kemur einhver aftan að mér, snýr mér við og kýlir mig endurtekið í andlitið og byrjar svo að reyna stinga mig með eggvopni. Hann rústaði úlpunni minni, og það var eiginlega þykka efnið í úlpunni sem kom í veg fyrir að hreinlega kláraði mig.
Zola gjörsamlega tryllist strax, enda ekkert hrifin af ókunnugum mönnum. Ég sleppti taumnum hennar strax og hélt hún myndi bara þjóta heim. En svo sá ég að hún var að bíta hann, endurtekið í fótinn. Hann endar á því að flýja.“
Lögreglu tókst ekki að hafa uppi á árásarmanni Aldísar en líklegt var talið að um hefði verið að ræða einstakling undir áhrifum fíkniefna.
„Ég fékk bréf þremur mánuðum eftir árásina um að þeir væru hættir að leita. Eftir árásina fluttum við Zola eiginlega bara alveg inn á Alexöndru, og mig langar að taka fram sérstakar þakkir til þeirra Alexöndru og Írisar fyrir að hjálpa mér og Zolu eins mikið og þau gerðu. Zola var greind með ólæknanlegan taugasjúkdóm stuttu seinna, og fékk að sofna.“
Árásin sneri lífi Aldísar að hennar sögn á hvolf en hún var í kjölfarið greind með alvarlega áfallastreituröskun. Hún segir það hafa bjargað öllu að hafa Zolu á þessum tíma.
„Hún fann það frá byrjun, bara daginn sem hún kom heim. Ef ég var langt niðri þá kom hún alltaf með dót til mín þar til ég gat ekki staðist það og fór að leika við hana. Og ef ég átti slæman dag í líkamanum og komst ekki mikið framúr þá vildi hún bara vera hjá mér. Það var ekki séns að einhver annar kæmi að reyna gera eitthvað með henni. Hún var alltaf límd við mig og alltaf til staðar.“
Aldís bætir því að hún viti um mörg fleiri dæmi þess að hundar hafi reynst fólki ómetanlegur félagsskapur og þar að auki órjúfanlegur partur af fjölskyldunni.
„Litli bróðir minn er á einhverfurófinu og með ADHD og hundar hjálpa honum svo ótrúlega mikið, að ná úr sér orku og að einbeita sér að einhverju. Það er rosalegur munur á honum þegar það er hundur hjá honum.“
„Við könnumst flest við það að hundarnir okkar geta verið erfiðir, en við verðum að muna að þessir hundar eru þeir sem enda á því að kenna manni svo ótrúlega margt.“
Þá bendir hún á að þó að hundahaldi fylgi oft mikil vinna þá sé það þess virði þegar uppi er staðið.
„Við könnumst flest við það að hundarnir okkar geta verið erfiðir, en við verðum að muna að þessir hundar eru þeir sem enda á því að kenna manni svo ótrúlega margt. Ég vil að fólk sem er ekki mikið fyrir hunda geri sér grein fyrir hve mikilvægir þeir geta verið í lífi annara, þeir geta bjargað lífum á svo marga vegu. Ég vil líka að hundaeigendur viti að allt getur gerst, ég sé mikið eftir öllum hlutunum sem ég gat ekki gert með Zolu því ég sagðist ætla gera það seinna. Stundum er ekkert „seinna“, maður verður að nýta allan tímann sem maður hefur með þeim.“
Hún kveðst enn vera að kljást við eftirköst árásarinnar í dag, þremur árum seinna. Þá hefur fengið sér annan hund í stað Zolu, tíkina Lottu sem hefur reynst henni afar vel.
„Ég tek hlutina einn dag í einu og einbeiti mér mikið að hundum og ljósmyndum til að halda mér upptekinni einnig er ég digital teiknari. Allir þessir hlutir – sérstaklega tíkin sem ég á núna, hjálpa mér rosalega og koma mér í gegn um erfiðu dagana. Ég á ennþá mjög erfitt með að vera ein, sérstaklega úti á kvöldin.“
Hún kveðst engu að engu að síður hafa fyrirgefið árásarmanninum.
„Það er alveg klárlegt að manneskja sem gerir svona á erfitt. Það tók mig dágóðan tíma, en ég fattaði svo að það hjálpar mér ekkert að halda í reiðina. Ég vil bara að hann viti að ég sé búin að fyrirgefa honum þó þetta hafi haft svona mikil áhrif á mig, ég vona að hann hafi fengið