fbpx
Fimmtudagur 28.nóvember 2024
Fréttir

Kári drap kettling Sonju – Neitar að hafa skotið hann: „Upplýsi ekki hvernig ég drap hann“

Gunnlaugur heldur að Kári hafi skotið kettlinginn – Braut reglugerð og samþykkt

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Föstudaginn 17. nóvember 2017 19:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Mér finnst verst hvernig það var brotið á okkur. Maður býst alls ekki við því að missa dýrið sitt á þennan hátt. Ég veit alveg að dýr deyja og hvernig gangur lífsins er. En ég bjóst aldrei við að kötturinn minn myndi fara á þennan hátt, þetta er ekki rétt,“ segir Sonja Ólafsdóttir.

Úlfur, köttur Sonju var drepinn af dýraeftirlitsmanni Fljótsdalshéraðs. Gunnlaugur Rúnar Sigurðsson, skipulags- og byggingafulltrúi Fljótsdalshéraðs, segir í samtali við DV reikna með að kötturinn hafi verið skotinn.

„Ég hef lengi starfað við það að aflífa svona skepnur og tel mig alveg hafa fulla heimild til þess,“ segir Kári Ólasson, dýraeftirlitsmaður Fljótsdalshéraðs, við DV. Hann neitar að hafa skotið köttinn en vill ekki upplýsa hvernig hann drap hann. Kári braut bæði reglugerð og samþykkt sveitarfélagsins um kattahald.

Úlfur var aðeins sex mánaða og er hans sárt saknað af Sonju, eiginmanni hennar og börnum þeirra sem eru þriggja og fjögurra ára. Fjölskyldan býr á Egilsstöðum. Sonja er sorgmædd vegna málsins en einnig mjög reið. Hún segir að brotið hafi verið á bæði tilverurétti fjölskyldunnar í bæjarfélaginu og kattar hennar.

Saga Sonju og Úlfs hennar er ekki einsdæmi, en Ævar Kristinn Sævarsson hefur svipaða sögu að segja um sama dýraeftirlitsmann. Köttur hans var drepinn 2014.

Sonja og eiginmaður hennar vissu ekki að kötturinn hafði verið tíður gestur á heimili nágranna þeirra. Kötturinn hafði alltaf skilað sér heim og hafði Sonja hvergi séð tilkynningu um kettlinginn á Facebook-síðu Fljótsdalshéraðs fyrir týnd dýr. Nágranni Sonju hringdi á dýraeftirlitið sem sótti köttinn og drap hann innan sólarhrings.

Undarlegt mál

„Ég bý í mjög litlu samfélagi. Daginn eftir að ég tala við þennan mann og fæ þessar fréttir fannst mér ég ekki geta farið út án þess að harðlæsa húsinu mínu og passa að allir gluggar væri lokaðir. Auðvitað læsir maður húsinu sínu en ég fann skyndilega fyrir miklu óöryggi. Að fá þessar tilfinningar í sínum litla bæ er ekki rétt,“ segir Sonja.

Hvað gerðist?

„Við búum aðeins fyrir utan bæinn. Það eru átta hús í götunni minni. Mágkona mín býr í næsta húsi og við fórum í afmæli til hennar á sunnudaginn. Úlfur elti okkur þangað og hann fékk að koma með okkur inn. Þar var fullt af fólki og hann hafði aldrei verið þarna inni áður þannig ég fór fljótlega með hann aftur út því hann var frekar hvekktur. Ég bjóst við að Úlfur færi aftur heim, en hann virðist hafa farið inn til leigjanda mágkonu minnar. Mágkona mín býr í einbýlishúsi og leigir út íbúð á neðri hæðinni. Leigjandinn á kettling úr sama goti. Mágkona mín fékk tvo kettlinga úr sama goti, ég fékk einn og leigjandinn fékk hinn,“ segir Sonja.

Sonja segir að málið sé mjög undarlegt. „Til að byrja með sást vel að Úlfur var ekki villiköttur. Hann var vel hirtur, pattaralegur og ef maður horfði á hann byrjaði hann að mala. Við í bæjarfélaginu erum með mjög virka síðu á Facebook sem heitir „Týnd dýr á Fljótsdalshéraði.“ Ég er með skjáskot þar sem nágranni minn, leigjandi mágkonu minnar, skrifaði fyrir þremur dögum við mynd af ketti sem er líkur Úlfi. Nágranninn skrifaði við myndina að það væri högni úr sama goti alltaf að koma inn til þeirra og spurði hvort einhver vissi hver ætti hann. Þannig nágranninn vissi vel að Úlfur væri ekki villtur. Hann var ekki týndur þannig við vorum ekki að leita að honum. Hann skilaði sér alltaf heim.“

Úlfur var sex mánaða og grár á litinn. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Kettlingur Úlfur var sex mánaða og grár á litinn. Myndin tengist fréttinni ekki beint.

Drepinn innan sólarhrings

„Nágranni minn hringdi í dýraeftirlitsmanninn sem kom klukkan eitt að nóttu sunnudagskvöldið. Nágranninn sagði dýraeftirlitsmanninum að Úlfur væri villiköttur. Hann sagði að kötturinn væri alltaf að koma inn til hans og borða matinn hans. Dýraeftirlitsmaðurinn hefur greinilega tekið þau á orðinu og drepið dýrið á ómanneskjulegan hátt daginn eftir. Ég veit það því ég hringdi í alla dýralæknana hérna á svæðinu á þriðjudaginn.“

Veistu af hverju nágrannar þínir sögðu að Úlfur væri villiköttur, vitandi að þetta væri kettlingur úr sama goti og þeirra köttur?

„Ég geri mér ekki alveg grein fyrir því að öðru leyti en því að þeir hafa látið hann fara í taugarnar á sér; að hann hafi komið inn til þeirra og borðað matinn. Sem við vissum ekkert af. Við hefðum gert eitthvað í því, eins og að hafa hann bara heima og loka glugganum. Það hefði ekki verið neitt vesen.“

Leið skringilega

„Af einhverri ástæðu leið mér eitthvað skringilega á mánudagskvöldið. Ég var ekkert búin að sjá Úlf í sólarhring. Ég fór inn á Facebook-síðu Fljótsdalshéraðs fyrir týnd dýr til að athuga hvort einhver væri búinn að setja inn mynd af Úlfi. En það var engin mynd. Svo sá ég myndina sem nágranni minn hafði skrifað undir nokkrum dögum áður. Myndin var síðan í ágúst. Ég var komin með slæma tilfinningu í magann. Ég sendi nágrannanum skilaboð og spurði hvar hann ætti heima. Nágranninn tjáði mér að dýraeftirlitið væri örugglega með köttinn minn.

Ég var skelfingu lostin, ég veit hvað dýraeftirlitið gerir. Maður hringir ekki þangað, auðvitað á maður að geta gert það, en raunin er önnur. Það er þekkt að maður hringir ekki þangað nema maður býst við að dýrið verði drepið.“

Sonja hringdi samstundis í Kára Ólason, dýraeftirlitsmann Fljótsdalshéraðs, í þeirri von um að fá köttinn heim.

„Ég spurði hvort hann væri með köttinn minn. Hann svaraði neitandi. Ég spurði hvort hann hefði ekki fangað kött kvöldið áður. Hann svaraði því játandi. Ég spurði hvort hann væri í alvörunni búinn að lóga dýrinu og hann sagði já. Ég gjörsamlega trompaðist. Þá sagði hann eitthvað á þá leiðina: „Fjandinn, þetta er alltaf að gerast.“ Þá varð ég enn reiðari og endaði með að skella á hann. Það var augljóst á svari hans að þetta var ekki í fyrsta skipti sem þetta gerist.“

Fylgdi ekki reglugerð og samþykkt

Kári, dýraeftirlitsmaður Fljótsdalshéraðs, fangaði köttinn klukkan 01:00 aðfaranótt mánudags. DV fékk það staðfest frá Gunnlaugi Rúnari Sigurðssyni, skipulags- og byggingafulltrúa Fljótsdalshéraðs. Sonja hringdi í dýraeftirlitsmanninn um hálf tíu á mánudagskvöldið. Það er óvíst hvenær kötturinn var aflífaður en það var innan þess tímaramma. DV fékk það einnig staðfest frá Gunnlaugi.

Kötturinn var hvorki með ól né örmerktur. Samkvæmt íslenskri reglugerð og samþykkt sveitarfélagsins um kattahald þá eiga að líða að minnsta kosti tveir sólarhringar áður en ómerktir kettir séu aflífaðir af dýralækni. Úlfur var drepinn innan við sólarhring af Kára. Það brýtur bæði gegn reglugerð og samþykkt.

Í reglugerð atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis stendur:

„Dýralæknum er einum heimilt að aflífa gæludýr, nema í neyðartilfellum þegar fullreynt er að ekki næst í dýralækni og ætla má að sjúkdómur dýrs eða meiðsl valdi dýrinu óbærilegum kvölum eða séu banvæn.“

Samkvæmt samþykkt um kattahald og önnur dýr, 9 gr.:

„Köttur sem ekki er einstaklingsmerktur í samræmi við 22. gr. laga nr. 55/2013, um velferð dýra, telst vera hálfvillt dýr. Í þeim tilvikum sem hálfvilltir kettir eru handsamaðir er sveitarfélagi heimilt að ráðstafa kettinum til nýs eiganda, selja hann gegn áföllnum kostnaði eða aflífa án bóta eftir tvo sólarhringa frá handsömun.“

„Hann þarf að taka ábyrgð“

„Úlfur var ekki örmerktur né með ól og ég átta mig á mínum mistökum varðandi það. Ég hefði átt að vera búin að örmerkja hann, en samt sem áður samkvæmt lögum þá eiga að líða tveir sólarhringar. Ég hafði samband við dýraeftirlitsmanninn innan við sólarhring eftir að Úlfur var fangaður og þá hefði hann átt að vera enn á lífi,“ segir Sonja og bætir við að hún skilur ekki af hverju Kári hafi ekki sett inn tilkynningu inn á Facebook-síðu Fljótsdalshéraðs fyrir týnd dýr.

„Ég hef átt mörg dýr. Ég kemst yfir það, ég veit það alveg. Úlfur var samt yndislegur köttur og mér finnst ömurlegt að hann sé farinn frá okkur. Það sem mér finnst allra verst er að það var brotið á okkur og honum,“ segir Sonja.

„Ég hafði samband við skipulags- og byggingafulltrúa Fljótsdalshéraðs, Gunnlaug Rúnar Sigurðsson, um málið. Svörin sem ég fékk voru: „Æj, sorry okkur finnst þetta leiðinlegt en svona er þetta. Við erum búin að tala við hann og honum fannst hann hafi verið blekktur [af nágrönnunum sem sögðu köttinn villtan].“ Ég skil það vel að dýraeftirlitsmanninum líði eins og hann hafi verið blekktur en samt sem áður ef kötturinn hefði verið villiköttur þá ber honum skylda að bíða í tvo sólarhringa með að aflífa hann. Hann þarf að taka ábyrgð á því að hann braut lög og reglur. Það er ekki bara hægt að horfa fram hjá því. Ég sagði Gunnlaugi að ég færi fram á að dýraeftirlitsmanninum verði vikið úr störfum. Það er mín einlæga skoðun og verður mín krafa eftir þetta mál. Hann má vel sinna öðrum störfum hjá bænum en ekki dýraeftirliti. Það er ekki í boði. Mín tilfinning er sú að hann vilji ekkert með þetta starf hafa. Ég bauðst til að taka að mér starfið launalaust.“

Ekki einsdæmi

Ægir Kristinn Sævarsson hefur svipaða sögu að segja um köttinn sinn. Ægir býr einnig á Egilsstöðum. Árið 2014 var kötturinn hans drepinn af Kára, dýraeftirlitsmanni Fljótsdalshéraðs, sem einnig drap kött Sonju.

„Kötturinn var búinn að vera týndur í 1-2 daga. Hann var með ól. Maður sem býr rétt hjá fór með köttinn til dýraeftirlitsins og var kötturinn drepinn innan þriggja daga. Það var ekki auglýst eftir eiganda,“ segir Ægir.

Samkvæmt samþykkt um kattarhald stendur eftirfarandi um merkta ketti:

„Kettir sem fangaðir eru skulu færðir í dýrageymslu skv. 2. mgr. 6. gr. Merktum köttum sem ekki er kvartað yfir en lenda í búrum skal þó sleppa lausum og skráðum eigendum tilkynnt um handsömunina og ástæður hennar. Ef merktir kettir eru teknir úr umferð skv. 2. og 3. tölul. 1. mgr. skal það tilkynnt skráðum eigendum. Ef umráðamaður vitjar ekki dýrsins innan viku frá því að honum var tilkynnt um handsömun þess eða ef umráðamaður finnst ekki innan tveggja vikna er sveitarfélagi heimilt að ráðstafa dýrinu eins og um hálfvillt dýr sé að ræða, sbr. ákvæði 24. gr. laga nr. 55/2013, um velferð dýra.“

Veistu hvort dýralæknir eða dýraeftirlitsmaðurinn hafi aflífað köttinn?

„Ég man það ekki alveg, Eyrún hjá MAST hvatti okkur til að kæra en við nenntum því ekki.“

Var sami dýraeftirlitsmaður að störfum og er nú?

„Já. Hann á náttúrlega ekkert að vera í þessu. Hann á ekki að sinna neinu sem tengist einhverju svona. Þetta er þekkt vandamál á Austurlandi, ekki bara hérna, hvernig kettir eru fangaðir og drepnir. Þetta er líka á Vopnafirði, ég er þaðan. Fyrir nokkrum árum var aðför gegn köttum á Vopnafirði, um þrjátíu slátrað og svo var ólunum hent. Þetta er ekkert einsdæmi á Austurlandi.“

Ævar segir dauða Úlfs ekki einsdæmi fyrir austan.
Egilsstaðir Ævar segir dauða Úlfs ekki einsdæmi fyrir austan.

Mynd: © DV ehf. / Sigtryggur Ari Jóhannsson

DV ræðir við yfirmann dýraeftirlits Fljótsdalshéraðs

Blaðakona hringdi í Gunnlaug Rúnar Sigurðsson og tilkynnti honum að hún væri frá DV.

Gunnlaugur sagði að það passaði að kötturinn hafi verið fangaður klukkan 01:00 aðfaranótt mánudags og drepinn daginn eftir. Blaðamaður benti á að Kári hafði brotið á samþykkt sveitarfélagsins um kattahald og reglugerð atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis.

„Nú er eitthvað talað um hálfvillt dýr í samþykktinni. Villikettir eru hálfvillt dýr, ég er nú ekki lögfræðingur þannig það allavega ég, allavega finnst þetta vera skoðunarvert hvort að dýrið teljist hálfvillt og þá er það ekki gæludýr,“ sagði Gunnlaugur.

Blaðakona: „Já [í reglugerðinni] er verið að tala um ketti sem eru ekki merktir, með ól eða örmerki, að það sé litið á þá sem hálfvillta og það þurfi að líða tveir sólarhringar þangað til þeim er ráðstafað annað eða aflífaðir.“

„Já algjörlega. Sú regla var brotin,“ sagði Gunnlaugur.

„Eru það eðlileg vinnubrögð hjá dýreftirlitinu?“

Gunnlaugur svaraði neitandi.

„Hvað kom þá til að kötturinn var aflífaður?“

„Maðurinn hefur verið í fríi síðan þá. Ég hef ekki talað við hann um það. En ég held bara að hann hafi litið á dýrið sem var ómerkt og óskráð, sem villikött, og tekið þessa ákvörðun sem var röng.“

„Þú lítur svo á að ákvörðun hans hafi verið röng?“

„Já með tvo sólarhringana. Ég er ekki endilega sammála því að það þarf dýralækni til þess að lóga dýri sem er ekki gæludýr. Í reglugerðinni er talað um gæludýr.“

„Já en hann á að taka allavega tvo daga til að átta sig á því hvort þetta sé gæludýr eða ekki.“

„Já algjörlega. Ég reyni að vinna úr því sem hefur gerst. Okkur þykir þetta mjög miður og við viljum bæta verklag okkar. Það er það sem ég hef verið að gera núna.“

„Veistu af hverju kötturinn var ekki auglýstur á Facebook-síðu Fljótsdalshéraðs fyrir týnd dýr?“

„Ég bara get ekki svarað því. Það er nú ekki þannig að allir séu jafn virkir á Facebook. Til dæmis er ég ekkert mikið að pósta á Facebook.“

Blaðakona benti á að það væri nú líklegast einfaldara að setja færslu á Facebook heldur en að drepa köttinn sjálfur.

„Veistu hvernig kötturinn var aflífaður? Var hann skotinn?“

„Ég giska á það. Ég veit það ekki.“

„Finnst þér það ekki ómannúðlegt að grípa til þeirra ráða að skjóta kött einum degi eftir að hann er fangaður?“

„Mér finnst það ekki gott en hann hefur nú líklegast dáið samstundis þannig tilgangurinn með því að deyða hann er að hann eigi sem kvalarminnstan dauðdaga.“

Breyttar verkreglur

Blaðakona sagði Gunnlaugi að annar aðili hafi slæma reynslu af vinnubrögðum Kára.

„Er einhvern tíma farið fögrum orðum um einhvern sem brýtur á réttum gæludýra,“ segir Gunnlaugur. „Þessi maður gegnir fleiri störfum en þessu […] Kannski er þetta ekki uppáhalds parturinn hans.“

„Er þá ekki réttara að fjarlæga hann úr starfinu og fá einhvern sem er áhugasamari um velferð dýra í staðinn?“

„Og ráða einhvern í 5 prósent starf sem dýraeftirlitsmann?“

Blaðakona benti á að Sonja hafi boðið sig fram að vinna starfið launalaust.

„Við munum líklegast ekki breyta skipuriti sveitarfélagsins eða breyta öllum verksamningum út af þessu atviki. Við ætlum aftur á móti að breyta verklagsreglum.“

DV heyrir í Kára

DV hafði samband við Kára Ólason, dýraeftirlitsmann Fljótsdalshéraðs og vildi vita hvort það samræmdist reglum og lögum að skjóta kött aðeins sólarhring eftir að hann var fangaður. „Ég hef svo sem lítið um það mál að segja ef þú ert með svona fullyrðingar,“ svaraði Kári. Þá vildi blaðakona vita hvort rétt væri að kötturinn hefði verið skotinn.

„Þú fullyrtir það og ef það er þín frétt þá bara er það þannig. Þá hef ég ekkert meira að segja.“

Greindi blaðakona þá Kára frá því að slíkar sögur væru á kreiki og ef það væri rangt væri honum hér með gefið tækifæri á að leiðrétta slíkar rangfærslur.

„Ég er náttúrlega bara í fríi hér og er ekki í vinnunni þessa daga og ég veit ekki hvað hefur verið sagt og gert. Ef það er verið að leiða mann inn í einhverja gildru þá er best að segja ekki neitt. Mér sýnist þú geta fengið allar upplýsingar á Facebook.“

„Getur þú ekki svarað já eða nei hvort kötturinn var skotinn?“

„Það hefur hvergi staðar komið fram að minni hálfu og það var ekki gert.“

Blaðakona: „Hvernig var kötturinn aflífaður?“

„Ég upplýsi það ekki að svo stöddu. Það var gert á mjög smekklegan og eðlilegan máta sem verður kannski upplýstur síðar. En mér heyrist þetta vera flóknara mál en svo. Lang einfaldast að það sé ekki verið að upplýsa það í fjölmiðla hvernig það var gert. En það eru alveg viðurkenndar og fullgildar aðferðir sem voru notaðar við það án þess að nota byssu. Ég hef ekki byssu og hef ekki fangað svoleiðis í gegnum tíðina. Það er eitt sem er alveg á hreinu að það var ekki þannig sem það var gert.“

„En samkvæmt reglugerð þá er þér ekki heimilt að aflífa ketti.“

„Jájá það eru fréttir fyrir mér.“

„Það er bæði brot á samþykkt og brot á reglugerð.“

„Já það er brot á samþykkt að gera þetta of snemma en ég veit ekki hvort, hver hefur sagt þér það að ég hafi ekki heimild til þess?“

Blaðamaður: „Þú hefur ekki heimild til þess því þú ert ekki dýralæknir og það er brot á reglugerð atvinnuvega- og nýsköpunnarráðuneytis um velferð dýra.“

„Það getur vel verið. Ég hef lengi starfað við það að aflífa svona skepnur og tel mig alveg hafa fulla heimild til þess og það kemur þá bara í ljós á opinberum vettvangi ef það er minn misskilningur.“

„Þannig þó íslensk reglugerð segir þig ekki hafa heimild til þess að aflífa gæludýr þá telur þú þig hafa þá heimild?“

„Ég kannast ekki við þessa íslensku reglugerð.“

„Þó [reglugerðin] tengist beint þinni vinnu, þá kannastu ekki við hana?“

„Nei nei, ég tel það að ég hafi þessa heimild og það getur verið að það sé einhver misskilningur. Það er alveg rétt hjá þér að það var brotin regla um tæpan sólarhring, sem þú ert greinilega búin að fá staðfest.“

Blaðakona: „Af hverju var ekki beðið í tvo sólarhringa?“

„Það ætla ég ekki að upplýsa um í fjölmiðlum.“

„Fyrst kötturinn var ekki skotinn var honum þá drekkt?“

„Hafðu þínar áhyggjur af því en ég upplýsi ekki um það. Þú getur giskað ef þú telur þig færa um að giska á eitthvað. Þú getur lesið þig nánar til um það á Facebook. Mér sýnist það vera besti vettvangurinn fyrir þetta mál. En þú hefur ekki rétt fyrir þér í þessari ágiskun.“

„Ég ræddi við yfirmann þinn og hann sagðist halda að þú hafir skotið köttinn, þess vegna spyr ég.“

„Jájá. Eins og ég segi þá er ég búinn að vera í fríi síðan daginn eftir þetta gerðist. Ég hef ekki komið heim til að ræða við dýraeftirlit eða aðra út af þessu máli en mér sýnist og heyrist þeir vilja tala við mig.“

„Þú veist þá allavega að því núna að samkvæmt íslenskri reglugerð þá hefur þú ekki heimild til að aflífa gæludýr sjálfur.“

„Jájá það eru fréttir bara, jájá.“

Skilningsleysi og sorg

Sonja er eins og áður segir í miklu áfalli. Þá er sorgin mikil að hafa misst dýrið. Aðspurð hvernig fjölskyldan tekst á við missinn sem og börn hennar svarar Sonja:

„Þegar ég var lítil tíðkaðist að segja að dýr færu í sveit þegar þau dóu. Þegar ég varð eldri og lærði sannleikann þá var ég svo sár að það hafi verið logið að mér. Þannig ég tók ómeðvitað ákvörðun á því augnabliki að ég ætlaði ekki að gera það sama við mín börn,“ segir Sonja.

„Ég útskýrði fyrir börnunum mínum hvað hafði gerst, að vondi kallinn hafði tekið Úlf, látið hann fara að sofa og hann myndi aldrei vakna aftur. Ég sagði þeim að kötturinn væri dáinn. Þau voru bæði mjög hljóðlát og rosalega hugsi,“ segir Sonja og bætir við: ,,Stelpan var mjög leið og sagði ekki neitt. Strákurinn sagði eftir smá þögn: „Mamma ég á sverð, ég get bara höggvið í hausinn á honum.“ Ég útskýrði þá fyrir honum að hann mætti ekki vera vondur því þá yrði hann vondur líka. Hann skildi það og stakk upp á því að ég myndi hringja í lögregluna og láta taka vonda kallinn í burtu. Ég reyndi að útskýra fyrir honum að það væri ekki hægt. Það er rosalega erfitt að reyna að útskýra fyrir börnum svona mannillsku.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Umpólun Snorra?

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Ólga í Mosfellsbæ vegna opnunar meðferðarheimilis fyrir unglinga – Bæjarstjóri segir upplýsingar um gæsluvarðhald í Kveik villandi

Ólga í Mosfellsbæ vegna opnunar meðferðarheimilis fyrir unglinga – Bæjarstjóri segir upplýsingar um gæsluvarðhald í Kveik villandi
Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Segir lögregluna hafa ginnt áttræðan föður sinn – Kominn á sakaskrá og fær ekki safngripinn sinn til baka

Segir lögregluna hafa ginnt áttræðan föður sinn – Kominn á sakaskrá og fær ekki safngripinn sinn til baka
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Segir að Rússar séu reiðubúnir til gera fjölda netárása á Bretland

Segir að Rússar séu reiðubúnir til gera fjölda netárása á Bretland
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Engar rauðar línur hjá Frökkum – Opna á að senda hermenn til Úkraínu

Engar rauðar línur hjá Frökkum – Opna á að senda hermenn til Úkraínu
Fréttir
Í gær
Díegó fundinn