Krakkarokk í Norræna húsinu, partísýning í Bíó Paradís og fyrirlestur um líðan unglinga
Hin seinheppna Bridget Jones heldur úti dagbók til þess að koma lífi sínu í lag. Ógleymanleg og ljúfsár, stórskemmtileg gamanmynd með þeim Renée Zellweger, Colin Firth og Hugh Grant í aðalhlutverkum. Myndin er af þeirri gerð sem margir vilja sjá aftur og aftur og því er tilvalið að mæta á Partísýningu í Bíó Paradís, þiggja tilboð á barnum og dreypa jafnvel á rauðu eða hvítu en á partísýningum má taka alls konar drykki með inn í sal.
Í Norræna húsinu verður boðið upp á lifandi tónlist fyrir alla aldurshópa ásamt kynningu á tónlistarleiknum Mussila Musical monster adventure.
Dagskráin hefst á tónlistaratriði fyrir yngstu kynslóðina með lögunum af vísnaplötunum, Einu sinni var og Út um græna grundu í útsetningum Gunnars Þórðarsonar. Eftir pásu stígur á svið Góði Úlfurinn sem flytur tvö lög, því næst tekur Vegan klíkan við sviðinu og flytur músíkalskt rapp.
Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.
Álfheiður Guðmundsdóttir, sálfræðingur hjá þjónustumiðstöð Breiðholts, mun fjalla um líðan unglinga á fræðslukvöldi Seljakirkju. Margir unglingar glíma við kvíða, depurð og þunglyndi og mun Álfheiður ræða einkenni og hvernig best sé að styðja við og sporna gegn erfiðri líðan. Fræðslukvöldið er öllum opið og þátttakendum að kostnaðarlausu.