„Össur er í Samfylkingunni og Dagur B. Eggertsson er í Samfylkingunni og stjórnar öllu hjá borginni – líka Bs fyrirtækjunum og Strætó. Þetta lyktar sterkt af mikilli spillingu. Ef þetta væri fyrrverandi utanríkisráðherra annars flokks en Samfylkingarinnar þá væri allt logandi í samfélaginu“,segir Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, við Eyjuna í dag, í tilefni umfjöllunar Morgunblaðsins um kaup Strætó á 14 rafmagnsvögnum frá Kínverska framleiðandanum Yutong, fyrir um milljarða króna, í tilraunaverkefni Reykjavíkurborgar um rafvæðingu strætisvagna.
Sagði hún á Facebook í morgun um málið, að Samfylkingin sæi um sína.
Viðskipti Strætó voru gerð í gegnum Yutong Eurobus Scandinavia AS, sem er norskt dótturfélag hins íslenska fyrirtækis GTGroup ehf., sem einnig er aðaleigandi umboðs Yutong ehf. á Íslandi.
Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi formaður og utanríkisráðherra Samfylkingarinnar, er stjórnarformaður Yutong Eurobus Scandinavia AB, umboðsaðila vagnanna, síðan 2018, samkvæmt Morgunblaðinu.
Vigdís segir við Eyjuna að útboðsmálin hjá borginni einkennist af spillingu:
„Útboðsmál Reykjavíkur eru í molum og þau hönnuð á þann hátt að fyrirfram er ákveðið hver verður valinn samanber Yutong, þar sem útboðunum var breitt í tvígang samkvæmt frétt Morgunblaðsins í dag. Það var mjög mikilvægt fyrir fyrirtækið að fá þennan Strætódíl – því Reykjavík var tilraunadýr fyrir Norðurlöndin. Ég minni á það var mikið basl var að koma vögnunum í notkun og endaði það í skaðabótamáli,“ segir Vigís.
Vigdís segir aðkomu Össurar enga tilviljun:
„Fríverslunarsamningurinn við Kína skiptir miklu máli fyrir viðskipti milli Ísland og Kína því með honum erum við gluggi inn á EES svæðið fyrir viðskipti frá Kína. Fyrrverandi utanríkisráðherra vissi alveg hvað hann var að gera með því að mynda þessi viðskiptasambönd – en að blanda Strætó inn í dílinn algjörlega órökstutt er skandall.“
Þess má geta að í umfjöllun Morgunblaðsins segir framkvæmdastjóri Strætó, Jóhannes Svavar Rúnarsson, að hann hafi ekki vitað af því að Össur Skarphéðinsson væri stjórnarformaður Yutong Eurobus Scandinavia AB og að Össur hefði ekki verið í neinum samskiptum við stjórnendur Strætó um viðskiptin:
„Við höfðum ekki hugmynd um að hann væri í þessu fyrirtæki fyrr en við vígslu verkefnisins við Hörpu.“
Morgunblaðið greinir einnig frá því að Össur hafi ekki viljað tjá sig neitt um málið við blaðið, hvorki um hvernig það kom til að hann fékk starfið, eða í hverju starfið felst.
Eyjan sendi Össuri skriflega fyrirspurn um hvort hann vildi bregðast við ummælum Vigdísar, en svör höfðu ekki borist þegar fréttin fór í loftið.