– sálfræði, hafragrautur og heillangir matartímar
Ragnhildur Þórðardóttir, einnig þekkt sem Ragga Nagli, fæddist 1. október árið 1979. Hún ólst upp í Fossvoginum hjá foreldrum sínum og systur. Faðir hennar er Þórður H. Ólafsson, forstöðumaður Vatnajökulsþjóðgarðs, og móðir hennar er Lilja Hilmarsdóttir, fararstjóri hjá WOW air. Eldri systir Ragnhildar er Ingibjörg, starfsmaður hjá CNN fréttastöðinni í London.
Ragnhildur lauk masternámi í heilsusálfræði frá Háskólanum í Surrey á Englandi og árið 2014 útskrifaðist hún sem klínískur sálfræðingur frá Kaupmannahafnarháskóla. Hún býr í Kaupmannahöfn ásamt eiginmanni sínum, Snorra Steini Þórðarsyni arkitekt, og rekur sálfræðistofu í Frederiksberg.
Ragnhildur byrjaði að blogga um heilsutengd mál árið 2005, undir nafninu Ragga Nagli en árið 2015 gaf hún út lífsstílsbók sem hét einfaldlega Heilsubók Röggu Nagla.
„Ég vakna oftast í kringum 6.30–7.00 og það þarf ekki vekjaraklukku til. Ég hef ekki notað vekjaraklukku í mörg ár. Líkamsklukkan er það sterk í rútínumanneskjunni. Eftir tannburstun og það allt fæ ég mér pre-workout amínosýrur frá Now og hef mig til fyrir æfingu, þar sem ég tæti upp járnið eða hoppa og hleyp og vesenast. Svo kem ég heim, fer í sturtu og fæ mér morgunmat sem er alltaf hafragrautur í einhverri útfærslu, kaldur, heitur, bakaður eða næturgrautur. Svo er ég alltaf með þrjú til fimm egg, fer eftir því hvað ég er svöng. Grauturinn er alltaf með einhverju smjöri, hnetu-, kókos- eða möndlusmjöri og gjarna frá Monkey, sem mér finnst frábær framleiðandi. Ég hef alltaf sagt að hafragrauturinn sé auði strigi málarans, það má bæta hverju sem er í hann.“
„Alltaf að sækja á brattann því auðveldasta leiðin er leiðin til uppgjafar. Þetta sagði langamma mín og orðin höfðu þau áhrif á mig að ég er alltaf að reyna að skora á sjálfa mig, gera eitthvað sem mér finnst bæði erfitt og óþægilegt.“
„Það er betra að sjá eftir því sem þú gerðir frekar en að sjá eftir því sem þig langaði að gera en gerðir ekki.“
„Að mataræði snýst meira um matarvenjur heldur en hvaða mat maður borðar. Það er ekki eins flókið og okkur er talin trú um.“
„Upp úr níu er ég mætt í vinnuna. Ég er ýmist með viðtöl á stofunni eða á netinu í gegnum fjarfundabúnað. Margir skjólstæðingar mínir búa á Íslandi og þá kemur tæknin að gagni. Ég sérhæfi mig í að hjálpa fólki til að öðlast heilbrigt samband við mat. Margir glíma við sektarkennd og togstreitu þegar kemur að mat og mataræði en ég hjálpa fólki að öðlast heilbrigt samband og hugarró í þessu samhengi. Annars er ég með almenna sálfræðiþjónustu, og aðstoða fólk við að takast á við vandamál eins og til dæmis kvíða, depurð, streitu eða fæðingarþunglyndi. Svo veiti ég einnig sambandsráðgjöf. Mér finnst þetta yndislega nærandi og gefandi starf. Það er svo gott að sjá fólk öðlast hamingjuna aftur og ná andlegu þreki. Það er ekki hægt að koma því í orð hvað þetta gefur mér mikið.
Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á fólki, man til dæmis eftir öllum sem ég hef hitt um ævina. Ég velti mikið fyrir mér þessu ótalaða, eins og til dæmis líkamstjáningu og karakterum, hvers vegna fólk er eins og það er. Ég held reyndar að sálfræðin hafi valið mig en ekki öfugt, ég átti aldrei að verða annað en sálfræðingur.“
„Þegar maður vinnur hjá sjálfum sér þá getur tíminn teygst svolítið til og ég er ekki endilega með fast hádegishlé. Ég næri mig samt alltaf einhvern tímann á milli klukkan tólf og tvö og þá er mismunandi hvort það eru afgangar frá deginum áður eða hvort ég skrepp á einhvern stað hér í grenndinni. Það er nóg af svona salatstöðum á Frederiksberg. Best finnst mér þó að elda í bunkum og eiga rest fyrir næsta dag til að taka með í vinnuna.“
„Í kringum fjögur eða fimm held ég heim á leið á reiðhjólinu. Ég bý á Nørrebro en þar keyptum við okkur íbúð í fyrra, rétt við Bispebjerg-stöðina. Ég er Nörrebroari inn að hjarta, 2200 alla leið og áfram fjölmenning! Við höfum aldrei átt bíl í Kaupmannahöfn svo við förum allra okkar ferða hjólandi. Ég hugsa að ég hjóli að lágmarki svona tíu kílómetra á dag. Til og frá vinnu, í búðina og svo að hitta fólk á kaffihúsum. Að hjóla er mitt „mindfulness“ og á hjólinu fæ ég bestu hugmyndirnar mínar.“
„Yfirleitt eldum við Snorri einhvern hollan mat saman. Við grillum svona 360 daga á ári, meira að segja á aðfangadag. Í matinn er yfirleitt grillað kjöt eða fiskur og með því hrísgrjón, kartöflur eða rótargrænmeti. Sem sagt, kolvetni af einhverri gerð ásamt fullt af salati og öðru grænmeti. Við erum aldrei með sjónvarpið eða neitt í gangi þegar við borðum enda legg ég áherslu á að nærast í núvitund, eins og ég kalla það. Þetta þýðir að við gefum okkur góðan matartíma, leggjum frá okkur hnífapörin, tyggjum, tökum þau svo upp aftur og svo framvegis. Þetta snýst um að upplifa og njóta matarins og samverunnar eftir vinnudaginn og getur tekið allt upp í klukkutíma.“
Yfirleitt fer ég í að gera klárt fyrir morgundaginn, legg fram æfingafötin, geri hafragrautinn og svo framvegis. Eftir kvöldmatinn reyni ég að forðast bæði snjallsímann og tölvuna enda finn ég að þetta hefur truflandi áhrif á svefninn. Við setjumst samt niður og horfum á eins og einn sjónvarpsþátt, svo reyni ég að vera komin upp í rúm milli 21.30 og 21.45, sem skýrir kannski hvers vegna ég vakna sjálf eftir átta og hálfan eða níu klukkutíma. Þennan tíma þarf ég til að funkera. Þegar maður æfir mikið þá þarf maður sinn svefn.“