Smákranar
Það eru til fleiri kranar en stórir byggingarkranar, og litlir, sérhæfðir kranar eru nauðsynlegir til ýmissa vandasamra verka. Til dæmis þarf oft að hífa upp í mikla hæð þunga hluti innanhúss í byggingum, stórar glerrúður og stálbita, en smákranar koma þar við sögu þar sem önnur tæki komast ekki að og handaflið ekki nóg.
Þessa þörf uppgötvuðu hjónin Erlingur Snær Erlingsson og Hildur Björg Ingibertsdóttir eftir að þau fóru að kynna sér möguleika smákrana skömmu eftir aldamótin síðustu. Þau stofnuðu fyrirtækið Smákrana árið 2004 og hefur fyrirtækið vaxið og dafnað síðan.
„Faðir minn var í þessum hífingarbransa og var með stóra bílkrana. Ég hafði því alltaf mikinn áhuga á þessum hlutum. Árið 2004 sá ég í erlendu fagtímariti auglýsingu um Unic 295 smákranann, svokallaðan köngulóarkrana.“
Erlingur fór síðan með eiginkonu sinni og föður til Bretlands til að skoða þessa kranategund og þau fluttu heim einn Unic 295 smákrana. Hann lyftir þremur tonnum í 1,4 metra radíus en er ekki nema 60 sentimetrar á breidd.
„Upphaflega var ætlunin að höndla með þessa krana og þjónusta kaupendur þeirra en áhuginn var lítill og fáir virtust sjá fyrir sér mögulega notkun þeirra. Þannig að við áttum kranann áfram og ég fór að vinna á honum meðfram öðrum störfum.“
Krönum í eigu fyrirtækisins hefur síðan fjölgað jafnt og þétt í gegnum árin og nú á fyrirtækið samtals átta krana. Þar af eru fjórir smákranar af Unic gerð, tveir flutningskranar af gerðinni JMG, en þeir geta keyrt með hlassið, og svo tveir 45t Liebherr bílkranar sem henta mjög vel með litlu krönunum.
„Við sérhæfum okkur í flutningatæknilegum lausnum. Þar sem erfitt er að koma við öðrum tækjum þar komum við til sögunnar. Tökum sem dæmi það verkefni að setja upp 300–500 kílóa rúðu innandyra. Í áhættugreiningu blikka öll ljós yfir slíku dæmi ef menn ætla að gera þetta með handafli, bæði vegna hættunnar á meiðslum og því að eyðileggja hlutinn.“
Auk krananna býr fyrirtækið einnig yfir ýmsum gagnlegum búnaði við flutninga og hífingu hluta innandyra: „Eitt dæmi eru glersogskálarnar sem sjúga sig fastar á glerið með lofttæmi. Við eigum fimm slíkar og meðal annars stærstu glersogskál til glerísetningar á Íslandi. Með henni getum við híft gler sem er allt að eitt og hálft tonn að þyngd.“
Verkefni Smákrana eru mjög fjölbreytt en fyrirtækið er mest á fyrirtækjamarkaði. Þó kemur oft fyrir að Erlingur og hans starfsmenn sinni einstaklingum vegna glerísetninga. „Við hífum mikið af gleri fyrir smiði sem þjónusta tryggingafélögin og þannig erum við mikið á vettvangi hjá einstaklingum. Þetta eru gler frá 70 og upp í 300 kíló,“ segir Erlingur og bætir við að Smákranar hafi annast hífingar á flestum stærstu rúðum sem hafa verið settar í á Íslandi frá árinu 2008. Nauðsyn smákrananna er augljós við þessi verk, eða eins og Erlingur segir: „Hvernig ætlar þú að setja upp gler sem er 760 kíló að þyngd og 7,2 metrar að hæð?“ og vísar þar til nýlegs verkefnis fyrir nýja verslun H&M í Smáralind.
Meðal annarra nýlegra verkefna er stórt verk fyrir ÍAV Marti í Búrfellsvirkjun, þar sem unnið hefur verið við uppsteypu á stöðvarhúsi sem er 300 metra inni í fjallinu. Þá hafa Smákranar sett upp rúmlega 60 tonn af gleri í nýja hótelbyggingu Bláa lónsins. Einnig hefur fyrirtækið unnið innandyra við breytingar í Perlunni og hjá Marel hf. og sett upp allt nýtt gler á framhliðum H&M og Zöru í Smáralind og H&M og Next í Kringlunni.
Nánari upplýsingar veitir Erlingur Snær í síma 699-4241 eða í gegnum netfangið ese@smakranar.is.