Tónlistarkonan Greta Salóme fylgir engu ákveðnu mataræði en hefur fastað fram yfir hádegi í mörg ár. Uppáhaldsmatur hennar er súkkulaði en það er lítið um hann þessa dagana þar sem hún er í sykurlausu átaki til 8. júlí.
„Ég á í rauninni engan venjulegan dag. Ég vinn við að koma fram og dagarnir eru eins misjafnir og þeir eru margir. Síðustu ár er ég búin að vera mikið á tónleikaferðalögum erlendis þannig að það að vera heima í lengri tíma núna er búið að vera mjög skrýtið en líka yndislegt,“ segir Greta Salóme.
„Ég fylgi í rauninni engu ákveðnu mataræði en ég hef fastað í mörg ár þannig að ég sleppi yfirleitt morgunmat og bíð með fyrstu máltíðina fram yfir hádegi. Ef ég mætti ráða myndi ég bara ljóstillífa á virkum dögum og sleppa því að borða þar sem mér finnst það svo tímafrekt og svo borða eitthvað geggjað um helgar og spari,“ segir hún.
Greta Salóme ver töluverðum tíma í eldhúsinu og elskar að elda.
„Það besta sem ég veit er að fá fólk í mat og það er eitthvað sem ég hef frá mömmu minni. Ég hef mikinn áhuga á matargerð og sérstaklega bakstri og fór nýverið að baka stórar og flottar veislutertur. Þetta er svona eins konar þerapía og ég get gleymt mér í eldhúsinu klukkutímunum saman.“
Þessa dagana er Greta Salóme í sykurlausi átaki fram að 8. júlí. Henni tókst að draga um tvö þúsund samlanda sína með sér í átakið. „En ég verð að segja að súkkulaði er uppáhaldsmaturinn minn. Sumir segja að það sé ekki matur en ég er fullkomlega ósammála.“
Morgunmatur
Brýt föstuna yfirleitt með höfrum með möndlumjólk, döðlum og heslihnetum. Það er alveg klikkuð orka í því.
Millimál nr. 1
Ef það má flokka Pepsi Max sem millimál myndi ég segja það, þar sem ég er að vinna með svona 1–2 lítra á dag. Annars finnst mér geggjað að fá mér ristað brauð með avókadó og eggjum.
Hádegismatur
Ég er með æði fyrir mexíkóskum mat þessa dagana og ég geri mér heilhveitivefju með kjúklingi og grænmeti flesta daga núna. Trikkið er að nota grænmetið sem maður á og steikja það með taco-kryddi og setja svo það og kjúklinginn í vefjuna með salsasósu. Hollt og geggjað gott.
Millimál nr. 2
Vanillu- og kaffiskyr frá KEA. Það er ótrúlega próteinríkt og klikkað gott.
Kvöldmatur
Kjúklingur eða fiskur í ofni með grænmeti, fetaosti og einhvers konar kolvetnum eins og byggi, hrísgrjónum eða sætum kartöflum.