fbpx
Sunnudagur 22.desember 2024

Manneskjan úr miðjunni

Rósa Ómarsdóttir veltir fyrir sér tengslum manns og náttúru í dansverkinu Traces sem sýnt er í Brussel

Kristján Guðjónsson
Sunnudaginn 26. nóvember 2017 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á undanförnum árþúsundum hefur þróast sú hugmynd meðal manna að þeir séu miðja alheimsins, kóróna sköpunarverksins, aðskildir frá og yfir náttúruna hafnir. Náttúran hefur verið álitin viljalaust og skyni skroppið efni sem maðurinn getur notað og nýtt að vild án afleiðinga eða ábyrgðar.

Í verkinu Traces, eftir dansarann og danshöfundinn Rósu Ómarsdóttur, sem verður frumsýnt í sviðslistahúsinu Beursschouwburg í Brussel um helgina er hins vegar gerð tilraun til að hverfa frá þessum mannmiðjaða hugsunarhætti. Í verkinu er umhverfið ekki síður fullt af lífskrafti en mannskepnan, sem er einfaldlega einn hluti af síkvikri og lifandi náttúru.

Blaðamaður DV leit við á æfingu og ræddi við Rósu um náttúruna, leifar af andadýrkun og danslífið í Brussel.

Líkaminn alltaf í snertingu við hluti

Þrátt fyrir að vera búsett í Belgíu hefur Rósa Ómarsdóttir verið nokkuð áberandi í íslensku danslífi að undanförnu. Hún stundaði dansnám í Listdansskóla Íslands og Listaháskólanum áður en hún komst inn í hinn virta dansskóla P.A.R.T.S. (Performing Arts Training and Research Studios) í Brussel þaðan sem hún útskrifaðist árið 2014.

Frá útskrift hefur hún unnið náið með Ingu Huld Hákonardóttur, dansara og danshöfundi, meðal annars í verkunum Wilhelm Scream, Dada Dans, sem þær unnu með Íslenska dansflokknum, og verkinu The Valley, sem þær hlutu sviðslistaverðlaunin Grímuna fyrir, sem danshöfundar ársins. Af kerskni og húmor hafa þær skoðað tengsl og samruna manns og hluta, þar birtast hlutir með mannlega eiginleika eða maðurinn verður sjálfur að hlut eða formi.

„Mér finnst líkaminn mjög áhugavert viðfangsefni, en strax frá byrjun fannst mér svolítið einhæft að pæla bara í honum einum og sér. Við erum aldrei bara líkamar heldur erum við alltaf í tengslum við ýmiss konar hluti. Homo Sapiens varð í rauninni til þegar við byrjuðum að nota tól,“ segir Rósa.

„Ég hef því verið að pæla í því hvernig líkaminn tengist umhverfi sínu og ólíkar birtingarmyndir líkamans í mismunandi samhengi, hvaða myndir það eru sem birtast í sambandi efna, hluta og líkama. Ég hef bæði verið að skoða þetta algjörlega myndrænt en líka verið að velta fyrir mér mismunandi ástandi sem líkaminn fer í þegar hann tengist tilteknum hlutum.“

Maðurinn ekki lengur í miðjunni

Í nýjasta verki sínu, Traces, sem á íslensku gæti útlagst leifar, ummerki, eða þræðir fer Rósa lengra með þessar vangaveltur um áhrif umhverfisins á manninn. Áhorfendur sitja á pöllum í myrkvuðu rými umhverfis dansarana fjóra og sviðsmyndina. Á gólfinu er lítil plastsundlaug og nokkrar upplýstar pottaplöntur á víð og dreif um sviðið sem varpa regnskógarlegum skuggum upp á svarta veggina. Þó að sviðsmyndin og leikmunir séu tæknilegir og manngerðir gefa þeir tilfinningu fyrir lífi: vatn, þurrís og slím. Víðs vegar í rýminu eru hljóðnemar sem dansararnir nota til að mynda dáleiðandi hljóðmynd, láta þá nema titring innan úr hálsinum, nema snertingu við líkamann og örlítil hljóð úr munninum sem eru margfölduð og mögnuð upp í rauntíma til að skapa tilfinningu fyrir náttúrufyrirbærum á borð við rigningu, skordýr eða hvað eina. Dansararnir ferðast hægt um rýmið, virkja sviðsmyndina eða bregðast við henni í hver í sínu lagi eða sameinast og verða að einni lifandi veru á óræðum tíma- og stærðarskala – það sem gæti verið fjallgarður að myndast eða örvera að hreyfa sig úr stað, eða hvort tveggja.

Rósa segir að verkið hafi sprottið út frá aukinni umhverfismeðvitund hjá henni sjálfri og vangaveltum um áhrif mannsins á vistkerfi jarðarinnar. Verkið sé tilraun til að komast frá mannmiðjuðum hugsunarhætti um náttúruna, frá þeirri hugmynd að maðurinn sé miðja heimsins og yfir náttúruna hafinn – enda virðist sú heimssýn mannsins vera að leiða vistkerfið í óhugsanlega miklar ógöngur.

„Ég hef verið að lesa fræði um hvernig við getum hugsað minna mannmiðjað, og það var sérstaklega ein setning eftir Janet Bennet sem mér varð alltaf hugsað til aftur og aftur: „Maybe it is worth running the risks associated with anthropomorphism (superstition, divinization of nature, romanticism) because it, oddly enough, works against anthropocentrism: a chord is stuck between person and a thing, and I am no longer above or outside a nonhuman environment“,“ hefur Rósa eftir bandaríska heimspekingnum á ensku, en tilvísunin, sem kemur úr bókinni Vibrant Matter, hljómar svo í lauslegri þýðingu blaðamanns: „Kannski er það þess virði að taka áhættuna sem fylgir manngervingu (hjátrú, að sjá guði í náttúrunni, rómantík) því að, undarlegt en satt, vinnur þetta gegn mannmiðjukenningum: þráður verður til milli persónu og hlutar, og ég er ekki lengur fyrir ofan eða utan ómannlegt umhverfi“.

„Bennett á við að við ættum að reyna að sjá hlutina í kringum okkur sem lifandi persónur, eins og börn gera. Þegar maður leyfir sér að gera þetta getur orðið til ákveðin tenging milli manns og hlutar, sem byggir ekki á hugmyndinni um að maðurinn sé miðjan. Ég fór þess vegna að reyna að hugsa hvernig maður getur byrjað dansverk á því að gefa einhverju öðru en dansaranum líf,“ segir Rósa, en það gerir hún meðal annars með því að byrja að þróa hljóðin, sviðsmyndina og búningana, gæða þessi fyrirbæri sjálfstæðu lífi sem hefði svo áhrif á dansarana.

Við ættum að reyna að sjá hlutina í kringum okkur sem lifandi persónur, eins og börn gera

Andadýrkun og ofur-hlutir

Fyrir okkur í dag er hinn mannmiðjaði hugsunarháttur eðlilegur, en hann er þó tiltölulega nýtilkominn í mannkynssögunni. Það má til dæmis nefna hvernig flest gömul trúarkerfi byggðu á trúnni á líf, sál og krafta í öllum hlutum: stjörnum, veðurfyrirbrigðum, steinum, plöntum og dýrum jafnt sem mönnum. Manneskjur lifðu ekki í líflausum efnisheimi heldur voru þær í lifandi tengslum við náttúruna, bjuggu í andlegum veruleika sem þær deildu með öllum þessum kröftum. Rósa segir að að vissu leyti séu leifar af þessum hugsunarhætti meðal þeirra sem búa á Íslandi, að minnsta kosti samanborið við íbúa Belgíu.

„Maður finnur þetta svo vel þegar maður er hérna í Brussel, maður er ekki í neinum tengslum við náttúru, það er ekki einu sinni sjór hérna í nágrenninu, bara manngerð borg. Það er kannski klisja en á Íslandi erum við mjög tengd náttúrunni, í daglegu lífi okkar finnum við fyrir áhrifum hennar, það er stormur, eldgos og jarðskjálfti, við finnum fyrir skammdegisþunglyndi og svo framvegis. Maður er svo mikill hluti af náttúrunni. En þegar maður er hérna í borginni fer maður að hugsa um sjálfan sig fyrir utan og andstæðan náttúrunni,“ segir Rósa og bætir við að kannski séu þessi hversdagslegu tengsl við náttúruna ástæðan fyrir því að Íslendingar hafi í einhverjum mæli haldið í hina fornu náttúrudýrkun, til dæmis í trú sinni á álfa.

Þótt það gæti virkað gamaldags að líta aftur til fornra siða og trúarhugmynda ríma þessar hugmyndir að mörgu leyti við það nýjasta sem er að gerast í heimspeki og fræðum í dag. „Við vorum mikið að skoða hugmyndir enska heimspekingsins Timothy Morton en hann notar orðið „hyperobject“ yfir krafta sem eru svo stórir að við sjáum þá ekki, hluti sem eru svo umfangsmiklir að þeir gerast á jarðsögulegum tíma en ekki tímaskala sem mennirnir skilja. Loftslagsbreytingar er til dæmis einn slíkur „hyperobject“. Við vorum mikið að velta þessu fyrir okkur þegar við vorum að vinna verkið og lögðum okkur fram við að finna réttar tímasetningar, hvenær við værum í jarðsögulegum tímaskala og hvenær við værum að nota tímaskala skordýrsins. Svo reynum við að finna einhver mannleg augnablik inni á milli.“

Kvenleg nálgun frekar en femínískt verk

Verkið er kynnt sem hluti af listahátíð í Beursschouwburg sem nefnist The Future is feminist, en Rósa segir verkið þó ekki vera hugsað sem neitt sérstakt innlegg í umræðu um stöðu kvenna í samfélaginu í dag.

„Þetta er að minnsta kosti ekki verk um femínisma, en það getur verið að aðstandendurnir sjái einhverja kvenlega næmni í verkunum mínum. Ég vinn allavega ekki með þessa hefðbundnu dramatúrgíu þar sem framvindan byggist upp í eitt ris og síðan úrlausn. Það eru einhverjir sálgreinendur sem hafa sagt að það sé karllæga leiðin, en ég reyni yfirleitt að nálgast það öðruvísi og hafa strúktúrinn flatari. Þetta er eitthvað sem ég velti fyrir mér þegar ég vinn verk,“ segir Rósa og tekur undir að sýningin sé að vissu leyti afmiðjuð. Uppsetning salarins og ólíkir atburðir sem gerist samtímis í mismunandi hornum geri það að verkum að dansinn er ekki með eina skýra miðju sem stingst á fallískan hátt upp úr sviðinu og kallar á athyglina.

„Sumir hlutir í sýningunni eru svo litlir að maður missir eflaust af þeim, og fólk sér mismunandi hluti eftir því hvar það situr í salnum. En þetta er bara eins og í veruleikanum og náttúrunni. Ef við förum saman á Gullfoss þá sér aðeins annað okkar regnboga sem myndast í fossinum og hitt sér fugl sem flýgur framhjá. Við sjáum mismunandi hluti, en mér finnst það bara mjög fallegt. Ég passa mig á að vera ekki stöðugt að leikstýra auga áhorfandans, heldur leyfi honum að upplifa og fylla í eyðurnar.“

Morton en hann notar orðið „hyperobject“ yfir krafta sem eru svo stórir að við sjáum þá ekki, hluti sem eru svo umfangsmiklir að þeir gerast á jarðsögulegum tíma en ekki tímaskala sem mennirnir skilja. Loftslagsbreytingar er til dæmis einn slíkur „hyperobject“.

Lifandi sena í Brussel

Frá útskrift hefur Rósa náð að vinna í fullu starfi sem danshöfundur og hún segir dansumhverfið sérstaklega gott í Brussel, sem er hálfgerð danshöfuðborg Evrópu. Þar er vel stutt við bakið á danslistafólk og þangað sækir danslistafólk alls staðar að úr heiminum, meðal annars frá Íslandi.

„Brussel er mikil dansborg. Hér er mikið danssamfélag og sýningar um hverja helgi. Senan hérna er mjög áhugaverð, mjög fjölbreytt og mismunandi hlutir í gangi. Hérna er mjög hefðbundinn dans, svo eru þessir stóru danshöfundar, Anne Teresa De Keersmaeker, Jan Fabre, Ultima Vez og fleiri sem komu fram á níunda áratugnum með stór danskompaní – það eru margir dansarar sem koma hingað til að taka þátt í því. Svo er tilraunakenndari sena þar sem fólk er að prófa annars konar hluti. Maður finnur dans alls staðar á rófinu, úr því að vera mjög líkamlegur yfir í að vera hálfgerður performans sýndur í listagalleríum,“ segir hún.

„Hérna er líka mikill stuðningur, jafnvel þótt maður sé í þessum tilraunakenndari hluta danssenunnar. Það er mjög gott styrkjakerfi hérna, styrkjum er úthlutað þrisvar á ári og ég hef verið heppin og fengið mikinn stuðning. Hérna eru líka margir staðir þar sem maður getur farið í vinnustofudvöl eða fengið vinnurými, staðir þar sem þú getur fengið alvöru rými með búnaði og tæknifólki og öllu til alls, Þetta er ekki á hverju strái.“

En veistu af hverju þetta umhverfi hefur þróast hérna í borginni?

„Eftir að þessir stóru danshöfundar slógu í gegn á níunda áratugnum var byrjað að snobba meira fyrir dansi í Brussel. Styrkjakerfið fylgdi eftir og fór að setja meiri pening í dans. Dansskólinn P.A.R.T.S. var svo stofnaður árið 1995 og varð mikil þungamiðja og vakti gott umtal. Það spilar líka inn í að þetta er svo alþjóðleg borg, þar sem fólk talar ýmist frönsku, flæmsku, ensku eða hvað sem er, og dansinn er kannski hið fullkomna sameiginlega tungumál. Í stærstu leikhúsunum hérna er því mjög mikill dans, jafnvel meiri dans en hefðbundið leikhús.“

Dansinn er kannski hið fullkomna sameiginlega tungumál

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 15 klukkutímum

Hjartalæknir segir að þessar fæðutegundir verndi hjartað

Hjartalæknir segir að þessar fæðutegundir verndi hjartað
Pressan
Fyrir 16 klukkutímum

13 ára drengur gerði magnaða uppgötvun þegar hann var í gönguferð

13 ára drengur gerði magnaða uppgötvun þegar hann var í gönguferð
433Sport
Fyrir 18 klukkutímum

Sér alls ekki eftir því að hafa yfirgefið Manchester United – ,,Kom inn í lið sem var í vandræðum“

Sér alls ekki eftir því að hafa yfirgefið Manchester United – ,,Kom inn í lið sem var í vandræðum“
Pressan
Fyrir 18 klukkutímum

Skiptir máli þótt maður gleymi að tannbursta stöku sinnum?

Skiptir máli þótt maður gleymi að tannbursta stöku sinnum?
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Netverjar bjartsýnir eftir kynningu nýrrar ríkisstjórnar – „Faðmlag segir meira en 1000 orð“

Netverjar bjartsýnir eftir kynningu nýrrar ríkisstjórnar – „Faðmlag segir meira en 1000 orð“
433Sport
Fyrir 19 klukkutímum

England: Brentford tapaði á heimavelli – Isak skoraði þrennu

England: Brentford tapaði á heimavelli – Isak skoraði þrennu