Ljósmyndatækninni fleygir hratt fram þegar kemur að myndavélasímum og verða gæðin sífellt meiri á þeim myndum sem teknar eru með slíkum apparötum. En þó svo gæðin aukist þýðir það alls ekki að hæfileikar handhafa myndavélanna þróist með. Sumum virðist það fullkomlega ómögulegt að taka góðar ljósmyndir af vinum og vandamönnum en málin vandast mjög þegar á að taka ljósmyndir af makanum. Jafnvel má segja að sumum mökum takist sérlega vel upp þegar kemur að því að taka óflatterandi ljósmyndir af sínum heittelskaða og samkvæmt vefmiðlinum Bored Panda, þá eiga karlmenn það mun frekar til en konur að mynda kvenkyns maka í annarlegu ástandi.
Hreyfð andlit og óhagstæð sjónarhorn
Í gagnkynhneigðum samböndum eru konur þá líklegri til þess að setja meira púður í ljósmyndatökuna af karlinum. Þær fara í gegnum hálfgerðar hugrænan tékklista og pæla þá í því hvort ljósið sé hentugt, hvort sjónarhornið sé þeim hliðhollt og hvort það séu nokkuð einhverjir hundar að hafa hægðir í bakgrunni. En þegar karlar taka myndir af konum sínum þá hugsi þeir ekki um þessi atriði. Það eina sem þeir hugsi um sé að festa það sem á sér stað á filmu, sem orsakar oft hreyfð andlit og óhagstæð sjónarhorn.
Konur hafa verið duglegar á samfélagsmiðlum að deila muninu á ljósmyndum sem þær taka af körlunum sínum annarsvegar, og hinsvegar þeim sem karlarnir taka af þeim. Þegar maður lítur yfir sönnunargögnin þá reynist erfitt að sannfærast ekki um réttmæti þessarar kenningar.
Nokkur góð ráð:
En ekki er öll von úti enn. Sértu einn þessara karlmanna sem hefur unun af því að taka ljótar ljósmyndir af konunni þinni, eða ert einfaldlega ófær um að framleiða góðar myndir þegar hún biður um það, þá eru nokkur atriði sem er gott að hafa í huga.
Samkvæmt Niko Karamyan, sem er bæði fyrirsæta og ljósmyndari, er gott að byrja á því að finna rétta ljósið sem hentar andrúmsloftinu. Gefðu þér tíma með viðfangsefninu og finndu út hvar ljósið fellur best á það.
Einnig er gott að skoða sérstaklega hvernig ljós og skuggar falla á andlit viðfangsefnisins. Skuggi getur verið fallegur en hann getur líka alveg skemmt myndina. Ef þú sérð þetta ekki þegar þú lítur í gegnum myndavélina/símann þá skaltu líta á þann sem þú ert að mynda.
Einnig er gott að hafa í huga hvað það er sem á að mynda, þ.e. hvert viðfangsefnið er. Er það makinn eða er það bakgrunnurinn? Stundum vill makinn fá mynd af sér vegna þess hvar hann eða hún er staðsett. En stundum á einfaldlega að festa á filmu hversu vel viðkomandi lítur út þann daginn. Ef síðarnefnda á við er um að gera að finna flottan bakgrunn svo sem litríkan vegg, gott útsýni eða krúttlegt horn í íbúðinni. Rifblöðkur (monsterur) eru til dæmis afar vinsælar þegar kemur að góðum bakgrunni.
Ljósaskiptin er gullfallegur og töfrandi tími og birtan sem þá ríkir er engu lík. Samkvæmt myndbandsleikstjóranum Will Azcona eru ljósaskiptin, sem eiga sér stað tvisvar á dag, rétt fyrir sólarupprás og rétt eftir sólsetur, hinn fullkomni tími til þess að taka upp myndavélina. Flestar myndir sem við þekkjum úr menningunni eru teknar á þessum galdratíma, eða í aðstæðum þar sem verið er að líkja eftir umræddri birtu.
Einnig er gott að hafa í huga að mörgum líkar að láta mynda sig ofanfrá þar sem það sjónarhorn grennir okkur. En það hefur líka sína kosti að taka ljósmyndina neðanfrá. „Flest viðfangsefni í portrettljósmyndsögunni hafa verið mynduð neðanfrá,“ segir Azcona og bætir við að þetta sé einföld og skilvirk leið til þess að gæða viðfangsefnið styrk og valdi á sjónrænan hátt. Þetta sjónarhorn lengir leggina, sýnir hálsinn og eykur á hæð viðfangsefnisins.
Þar hefurðu það. Statt upp, gakk og ger tilraunir! Mundu bara að þó svo þér takist ekki fullkomlega upp þá mun makinn í það minnsta kunna að meta aukavinnuna sem þú leggur á þig til þess að festa þinn heittelskaða á filmu.