Meint morðtilraun tekin fyrir í Hæstarétti – Telur rannsókn lögreglu ófullnægjandi
„Það er verið að fremja á mér réttarmorð og öllum er sama. Sekt mín virðist hafa verið ákveðin á staðnum og ég fæ ekki sanngjarna málsmeðferð. Ég er dæmdur í fjögurra ára fangelsi fyrir að verjast hnífaárás fíkils sem ég hef aldrei séð áður. Aðalsönnunargagnið finnst ekki, framburður vitna breytist eftir hentisemi og röksemdir dómsins ganga ekki upp,” segir Árni Gils Hjaltason í samtali við DV. Hann hefur setið í gæsluvarðhaldi í 260 daga síðan árásin átti sér stað en hann telur að vinnubrögð lögreglunnar í málinu séu ámælisverð í meira lagi. Næstkomandi mánudag verður áfrýjun Árna tekin fyrir í Hæstarétti og segist hann óttast niðurstöðuna í ljósi fyrri reynslu hans af réttarkerfinu.
Þann 9.ágúst síðastliðinn var Árni dæmdur í fjögurra ára fangelsi fyrir morðtilraun. Var honum gefið að sök að hafa reynt að stinga fórnarlamb sitt, Aron Bjarna, í höfuðið með hníf. Hin meinta árás átti sér stað í mars á þessu ári en að mati Árna hafa vinnubrögð lögreglu í málinu verið ámælisverð og hún virt rannsóknarskyldur sínar að vettugi.,
Aðdragandi árásarinnar, sem átti sér stað í mars á þessu ári, var sá að Árni keyrði upp í Breiðholt að sækja vinkonu sína. Bíllinn, sem Árni keyrði, var í eigu konunnar. Þegar Árna ber að garði við Leifasjoppu í Fellahverfi er vinkona hans þar stödd ásamt Aroni Bjarna. Þau eru bæði augljóslega undir áhrifum fíkniefna en vinkona Árna, lykilvitnið í málinu, var undir áhrifum Rivotril.
Það efni veldur ofskynjunum, ranghugmyndum og minnisleysi svo eitthvað sé nefnt. Þegar Árni stígur út úr bílnum segir hann að Aron Bjarni hafi lagt til sín með hníf. Hann verst árásinni og þeir falla til jarðar. Í hamaganginum nær Árni að afvopna Aron Bjarna og hendir hnífnum í burtu. „Ég er í yfirburða stöðu gegn honum þá. Sit eiginlega ofan á honum og held hendinni hans fastri með öðrum fætinum. Ég er dæmdur í fjögurra ára fangelsi fyrir að hafa reynt að drepa hann en í þessari stöðu þá rís ég upp og sleppi honum,“ segir Árni.
Nokkru fyrr hafði Árni lent í átökunum við vin Arons Bjarna. „Sá hafði stolið af mér rítalíni sem ég tek vegna athyglisbrests,“ segir Árni. Þegar hann fór á heimili mannsins til þess að freista þess að fá eigur sínar tilbaka kom til átaka milli þeirra.
„Þessi maður er vinur Arons Bjarna og var skammt frá þegar hin meinta árás átti sér stað. Ég er viss um að tilefni árásarinnar var það, að Aron Bjarni hyggðist hefna fyrir það sem gerðist milli mín og vinar hans,“ segir Árni.
Hann segist hafa haldið ró sinni í þessum ólýsanlegu aðstæðum, „Það var fólk þarna í kring og ég vissi að lögreglan væri á leiðinni og ég beið því eftir að hún myndi mæta á svæðið,” segir Árni. Þegar lögreglu bar að garði reyndi hann að útskýra mál sitt en þá var öskrað hvort hann hefði stungið Aron Bjarna. „Áður en lögreglan kom á staðinn hafði Aron Bjarni rætt stuttlega við lykilvitnið og sakað mig um þetta. Það sá enginn nákvæmega hvað gerðist. Síðan náði hann í hnífinn og lét sig hverfa inn í nærliggjandi blokk áður en lögreglan mætti,” segir Árni.
Hann hafi ekki haft miklar áhyggjur á þessum tímapunkti enda fullviss um að sannleikurinn myndi koma í ljós. Það hafi því komið honum á óvart að hann var þegar í stað handtekinn og í kjölfarið úrskurðaður í gæsluvarðhald. Þar hefur hann mátt dúsa síðan í mars. Árni segir að meðferðin á sér hafi verið skammarleg og meðal annars var hann beðinn um að berhátta sig enda stóð til að rannsaka fatnað hans. „Ég er síðan dreginn nánast nakinn fyrir dómara. Ég kvartaði undan því við lögreglu en þá var mér sagt að þetta væri ekki tískusýning,” segir Árni.
Það hafi komið honum í opna skjöldu þegar hann var ákærður fyrir tilraun til manndráps og sérstaklega áverkar Arons Bjarna, höfuðkúpubrot og rofinn slagæð í höfði eftir hina meintu hnífsstungu. „Framburður Arons Bjarna og vitnisins er á þá leið að blóð hafi fossað út um allt, eins og gerist þegar slagæð rofnar. Það kemur meðal annars fram í gæsluvarðhaldsúrskurðinum yfir mér. Sé þetta satt ætti að vera blóð á fötum mínum, út um allt á vettvangi glæpsins, í stigaganginum þangað sem Aron Bjarni fór eftir árásina og í íbúðunum tveimur sem hann dvaldi í áður en hann fór og leitaði sér læknisaðstoðar,” segir Árni.
Ekkert blóð hafi hinsvegar fundist áðurnefndum stöðum að undanskildum þremur blóðdropum. „Ég óskaði eftir því að þeir yrðu DNA-greindir enda bendir flest til þess að þetta séu úr sárum sem ég fékk við að verja mig. Það hefur blóðsérfræðingur lögreglu staðfest. Sú rannsókn var ekki framkvæmd. Þá þekkist það varla að tæknideild lögreglu sé ekki kölluð til þegar svo alvarleg árás, meint tilraun til manndráps, gerist,” segir Árni. Þá hafi fötin, sem hann var rifinn úr í gæsluvarðhaldinu, ekki verið rannsökuð. Einnig hafi lögreglan ekki einu sinni lagt fram myndir af áverkum Arons Bjarna ef undan er skilin mynd sem fórnarlambið tók sjálft á farsímann sinn. „Mínir varnaráverkar voru myndaðir í bak og fyrir. Í dómnum yfir mér er hinsvegar staðhæft að það hafi lítið blætt úr áverkum Arons Bjarna. Hann mætti samt alblóðugur á sjúkrahúsið. Það er öllu snúið á hvolf til þess að fá mig sakfelldan,” segir Árni.
Áverkar fórnarlambsins í málinu, Arons Bjarna, voru á þá leið að flísast hafði upp úr höfuðkúpu hans vinstra meginn. Á meðfylgjandi mynd sést að áverkar hans, eftir eggvopn, voru ofan á kolli hans. Fullyrt er að Árni hafi lagt til fórnarlambsins einu sinni með hnífnum og telur Árni að þetta sýni að málatilbúnaður saksóknara sé byggður á sandi.
„Ég get ekki brotið á honum höfuðkúpuna og skorið hann á tveimur mismunandi stöðum í einu höggi. Ég kom ekki með hníf á vettvang. Hann gerði það. Ég lét ekki hnífinn hverfa. Hann gerði það. Það hefur enginn stigið fram og sagst hafa séð mig leggja til hans. Sú niðurstaða er byggð á líkum. Það fannst ekkert blóð á vettvangi þrátt fyrir slagæðarof og Aron Bjarni flúði af vettvangi áður en lögreglu bar að garði. Fjörtíu mínútum seinna leitar hann sér læknishjálpar og þá fossblæðir skyndilega úr höfði hans. Hann hefur áður fengið bætur fyrir líkamsárás og þekkir það ferli vel. Hann veitti sér þessa áverka sjálfur til þess að koma sökinni á mig,“ segir Árni og er mikið niðri fyrir.
Í gæsluvarðhaldsúrskurði yfir Árna kemur fram að þegar atvikið er tilkynnt til lögreglu þá er hann sakaður um að hafa stolið bíl vinkonu sinnar, mætt með hnífinn á vettvang og að hann sé undir áhrifum áfengis eða fíkniefna. “Það hefur verið sýnt fram á að allar þessar ásakanir voru lygi. Ég var allsgáður þegar árásin átti sér stað. Lögreglan hafði ekki einu sinni fyrir því að setja mig í blóðpróf til þess að sýna fram á það,” segir Árni. Hann furðar sig á því að fórnarlambið og vitni hafi ítrekað verið staðin að lygi en samt sé framburður þeirra notaður til sakfellingar. “Frásögn mín hefur alltaf verið á einn veg og það hefur ekki verið sýnt fram á neitt sem ekki getur staðist. Samt eru orð fíkils, sem staðinn hefur verið að lygi, tekin trúanlegri,” segir Árni.
Þá hafi eitt vitnið staðhæft að Aron Bjarni hafi lofað sér helmingi af væntanlegum skaðabótum ef framburður hennar væri heppilegur. Í dómi héraðsdóm var Árni dæmdur til að greiða Aroni Bjarna hálfa milljón í bætur. „Þessi maður þekkir vel hvernig kerfið virkar. Hann hefur áður fengið greiddar bætur vegna líkamsárásar. Ég var leiddur í gildru. Lögregla og dómstólar virðast ekki hafa neinn áhuga á að sannleikurinn komi í ljós,” segir Árni.
Að hans sögn hefur gæsluvarðhaldið reynt mikið á hann andlega og hann sé að niðurlotum kominn. „Ég á mína fortíð en ég var kominn á góðan stað þegar þessi skelfilegi atburður setti allt úr skorðum. Ég var búinn að vera edrú í fimm mánuði og ætlaði að snúa lífi mínu á rétta braut,” segir Árni. Hann var settur í einangrun á Litla-Hrauni í kjölfar hinnar meintu árásar og þá fái hann ekki að taka geðlyf sem eru honum nauðsynleg. „Ég er að missa vitið hérna inni. Ég get ekki meira,” segir Árni.
Faðir Árna, Hjalti Úrsus Árnason, hefur staðið sem klettur við hlið sonarins í þessu ferli. Í vikunnu fjallaði DV um heimildarmynd sem hann hefur unnið um málið. Hyggst hann frumsýna myndina um hádegisbilið í dag, föstudaginn 24.nóvember.