Lilja Alfreðsdóttir um æsku sína í Fellahverfi og hvernig hún komst til manns í Suður-Kóreu
Lilja Dögg Alfreðsdóttir varð fyrst áberandi í fjölmiðlum fyrir um ári, þegar hún tók við embætti utanríkisráðherra. Segja má að leið hennar inn í stjórnmálin hafi haldist í hendur við stærðargráðu þeirra verkefna sem störf hennar hafa fært henni, en áður en hún fór í pólitíkina var hún aðstoðarframkvæmdastjóri á skrifstofu seðlabankastjóra og alþjóðasamskipta í Seðlabanka Íslands. Hún starfaði einnig náið með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum á árunum 2010–2013 og segir þá reynslu hafa haft mikil áhrif á sig.
Lilja býr í snotru raðhúsi í Fossvoginum ásamt eiginmanni sínum og tveimur börnum þeirra. Heimili hennar er alþýðlegt og laust við allt sem maður myndi kalla snobb. Anddyrið tekur á móti manni, fullt af yfirhöfnum barnanna og uppi á vegg hangir litríkt fiðrildi, leirlistaverk eftir dóttur hennar sem leikur við besta vin sinn inni í herbergi þegar blaðamann og ljósmyndara ber að garði. Á neðri hæðinni dundar sonur hennar sér í leikjatölvu en Lilja er á fullu að ganga frá í eldhúsinu.
„Ég er að fara að halda smá kokteilboð hérna klukkan sex. Svona er þetta líf nútímakonunnar,“ segir hún og skellir upp úr. Það er ekki að sjá að umræður um stjórnarmyndun séu að taka þessa staðföstu konu á taugum.
„Ég er búin að læra að stressa mig ekki of mikið á stjórnmálunum. Það þýðir ekkert. Maður verður að halda ró sinni enda er alltaf eitthvað sem gengur á,“ segir Lilja sem segist aldrei hafa ætlað sér að fara út í pólitíkina þrátt fyrir að faðir hennar, Alfreð Þorsteinsson, hafi verið mjög áberandi stjórnmálamaður um margra ára skeið.
„Þrasið er auðvitað svolítið krefjandi og ætli það fæli ekki helst fólkið frá þátttöku. Ég ætlaði mér aldrei í stjórnmál en svo leiddu umfangsmikil verkefni í vinnunni til þess að það varð sjálfsagðara fyrir mig að næstu áskoranir yrðu á þessum vettvangi,“ segir Lilja en að loknum ráðgjafarstörfum hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum tók hún aftur við stöðu aðstoðarframkvæmdastjóra á skrifstofu seðlabankastjóra og alþjóðasamskipta í Seðlabanka Íslands í eitt ár og var því næst verkefnastjóri í forsætisráðuneytinu frá 2014, eða þangað til hún tók við embætti utanríkisráðherra árið 2016.
Hún nálgaðist pólitíkina til dæmis þegar hún byrjaði að vinna að almennu skuldaleiðréttingunni og losun fjármagnshafta og þegar hún hóf störf hjá forsætisráðuneytinu varð erfitt að víkjast undan. „Áhugi minn jókst jafnt og þétt. Þegar þáverandi forsætisráðherra sagði af sér og óskaði eftir því að ég tæki að mér embætti utanríkisráðherra þá ákvað ég að mæta þeirri áskorun,“ segir hún.
En hvaðan kemur þessi skelegga Framsóknarkona sem svo margir virðast bera traust til?
„Ég ólst upp í Breiðholtinu og stundaði grunnskólanám í hinum goðsagnakennda Fellaskóla. Þetta var ótrúlega skapandi og skemmtilegt hverfi, iðandi af fjörugu mannlífi og mér leið alltaf vel í þessu umhverfi. Í Fellaskóla var ég meðal annars formaður nemendaráðs í tíunda bekk, fór í ræðulið og tók þátt í helstu spurningakeppnum,“ segir hún og bætir við að þrátt fyrir að hafa ekki verið neinn Breiðholtsvillingur sjálf hafi hún alltaf staðið með sínu fólki.
„Ég var allt of alvörugefinn unglingur til að bera titilinn Breiðholtsvillingur en auðvitað stóð ég alltaf með mínu fólki. Ef upp kom að krökkunum í Fellahverfinu væri kennt um eitthvað að ósekju þá var formanninum að mæta,“ segir hún og hlær að minningunni.
Frá því Lilja var fimm ára hafði langamma hennar alltaf lagt mikla áherslu á að hún færi Menntaskólann í Reykjavík og í hennar huga kom því ekkert annað til greina enda hafa langömmur alltaf lög að mæla.
„Pabbi reyndi að benda mér á að það væru alveg til aðrir skólar. Til dæmis Fjölbraut í Breiðholti. Þá gæti ég bara gengið í skólann. Mér fannst það ekki koma til greina. Ég treysti langömmu, fór MR og sé ekki eftir því í dag. Við völdum þennan skóla, nokkrar vinkonur úr Breiðholtinu. Áttum frábær menntaskólaár og höldum enn mjög góðu sambandi.“
Að loknu menntaskólanámi, árið 1993, hélt Lilja sem skiptinemi, alla leið til Suður-Kóreu þar sem hún lærði kóresku og stjórnmálasögu Austur-Asíu við Ewha University í Seúl og ferðaðist svo um Kína í einn mánuð. Hún segir dvölina hafa haft gríðarlega þroskandi áhrif á sig og að mörgu leyti hafi þetta tímabil mótað heimsmynd hennar síðar meir.
„Ef ég gæti þá myndi ég hvetja alla til að fara í skiptinám erlendis. Enn þann dag í dag bý ég að þessu og reynslan hefur nýst mér alveg ótrúlega mikið. Ég tala auðvitað ekki reiprennandi kóresku en ég skildi þó sitthvað af því sem Ban Ki-moon, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, sagði þegar mér veittist sá mikli heiður að hitta hann þann tíma sem ég gegndi embætti utanríkisráðherra. Aðstoðarmaður hans varð alveg yfir sig hrifinn þegar ég benti honum kurteislega á að kannski skildi ég aðeins meira en þau áttuðu sig á. Þetta var rétt eftir að aðalritarinn hafði kallað „Yobo! Yobo!“ til konunnar sinnar. Yobo þýðir elskan mín á kóresku,“ útskýrir hún og hlær.
Lilja segir reynsluna sem hún öðlaðist eftir árið í Suður-Kóreu einnig hafa nýst sér mjög vel þegar hún vann að endurreisn fjármálakerfis þjóðarinnar með Alþjóða gjaldeyrissjóðnum.
„Þá kom sér vel að eiga greiðan aðgang að hagfræðingum frá Suður- Kóreu. Þótt þjóðirnar virðist í fyrstu mjög ólíkar, rúmlega 300.000 manns hér og 51 milljón í Kóreu, er hægt að gera gagnlegan samanburð. Þetta eru nefnilega lítil og opin hagkerfi og margt sameiginlegt í sögu þessara ríkja á 20. öldinni. Svo er það samanburðurinn við Norður-Kóreu sem gerir mig alltaf fremur leiða. Þar búa til dæmis enn 25 milljónir alveg eins og árið 1953 þegar samið var um vopnahlé. Fólki hvorki fjölgar né fækkar, sem segir okkur að þetta sé ein dýrasta pólitíska tilraun með mannfjölda sem átt hefur sér stað í sögunni,“ segir hún alvarleg í bragði og bætir við að þetta undirstriki mikilvægi stjórnarfars og hagstjórnar.
„Rétt stjórnarfar og opið lýðræðislegt samfélag, byggt á blönduðu hagkerfi, skilar mesta árangrinum við stjórnun ríkja. Þetta var mitt leiðarljós sem utanríkisráðherra, einmitt vegna þess að ég hafði búið þarna á mínum yngri árum þar sem ég pældi endalaust í hagkerfinu og stjórnarfari landsins. Í Suður-Kóreu varð ég líka svo vör við þá miklu samheldni sem þar ríkir. Þessi þjóð ætlar sér eitthvert og stefnir þangað í mikilli samheldni. Samheldni sem er líka til á Íslandi. Árangur Íslands á tuttugustu öldinni hefur verið alveg hreint ótrúlegur. Á mjög skömmum tíma höfum við skapað okkur miklu fjölbreyttara hagkerfi en nokkurn hefði grunað að væri mögulegt. Við stækkuðum landhelgina, fjárfestum í togurunum, sköpuðum útflutningstekjur sem gaf okkur fjölbreyttari innflutning, – við fórum frá því, að vera ein fátækasta þjóð Evrópu, yfir í að verða ein sú sem hefur hæstu þjóðartekjurnar á mann,“ segir hún og eldmóðurinn leynir sér ekki í röddinni.
Lilja gerir stutt hlé á spjallinu til að útbúa snarl fyrir börnin. Tekur fram agúrku og risastóran gulrótapoka sem var keyptur af ungum íþróttaiðkendum. Sker grænmetið niður í ræmur og ber fram í skálum fyrir krakkana. Býður blaðamanni að smakka og stingur einni upp í sjálfa sig.
Fyrir sextán árum útskrifaðist Lilja með meistaragráðu í alþjóðahagfræði frá hinum virta Columbia-háskóla í New York en áður hafði hún búið í Minnesota þar sem hún lærði þjóðhagfræði og heimspeki. Hún segist hafa mótast mikið af því að alið manninn í þremur heimsálfum, telur það meðal annars hafa kennt henni að hugsa eftir óhefðbundnari leiðum og kannski aðeins út fyrir rammann. Einnig segir hún vinnuna með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum hafa haft gríðarleg áhrif á sig sem stjórnmálamann.
„Þar skildi ég til mergjar hversu mikilvægt það er að stýra hagkerfi þjóðarinnar þannig að hún lendi ekki á efnahagsprógrammi hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Þá erum við búin að fá rauða spjaldið,“ segir hún og bætir við að það hafi verið mikil mildi hversu vel við komumst frá þessu.
„Þrátt fyrir að þetta séu mikil inngrip inn í hagstjórn ríkisins þá gekk þetta vel. Viðbúnaðarlánin fóru í gjaldeyrisforðann og voru greidd upp við fyrsta tækifæri. Starfsfólk sjóðsins reyndist okkur vel en ég varð líka vitni að áhrifum Icesave-deilunnar. Til dæmis innan framkvæmdastjórnar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Bretar og Hollendingar vildu absolútt að við greiddum þetta, héldu til baka lánafyrirgreiðslum …“ Hún verður alvarleg á svip og gerir skyndilega hlé á máli sínu.
„Nú erum við kannski að festast í fortíðinni. Ég geri það stundum, en þetta hafði bara svo mikil áhrif á mig,“ segir hún og víkur talinu að Evrópusambandinu.
„Þegar Evrópusambandsríkin voru svona harðákveðin í því að við þyrftum að taka á okkur gríðarlegar fjárhagslegar skuldbindingar sem við réðum augljóslega ekki við, þá varð mér fullljóst að Evrópusambandið þyrfti að endurskoða sína stefnu. Sjáið til dæmis Grikkland. Hvernig er hægt að trúa því að grískt efnahagslíf verði sjálfbært þegar skuldir þjóðarinnar eru tæplega 200 prósent af landsframleiðslu, eins og þetta var á tímabili, ég hef ekki trú á því. Ég trúi ekki að það sé hægt að reka hagkerfi í svona mikilli skuldasúpu. Þess vegna er svo mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að passa vel upp á ríkisfjármálin. Gæta þess að við eyðum ekki um efni fram og að hagkerfi okkar sé sjálfbært.“
Frá lokum síðari heimsstyrjaldar og fram að hruni hafa Íslendingar verið mikið efnishyggjufólk.
Á margan hátt virðist þjóðin hafa þurft að taka út harkalegan þroskakipp (ef svo mætti að orði komast, ) með hruninu til að skammast sín ekki fyrir að kaupa notaðan varning eða nota almenningssamgöngur. Eitthvað sem alltaf hefur þótt sjálfsagt á öðrum Norðurlöndum. Hvaða hugrenningar hefur Lilja í þessu samhengi?
„Íslendingar voru auðvitað alveg sárafátækir í margar aldir. Við áttum ekki neitt. Svo fórum við of geyst en nú held ég að við viljum aðallega hafa eitthvert bakland. Við viljum eiga okkur sjálf. Það vilja allir eiga sig sjálfir,“ segir hún og nefnir í þessu samhengi það sem hún vill meina að sé stærsti menningararfur þjóðarinnar. Bóklæsi og auðugt tungumál. Hún segir, að þrátt fyrir hamfarir og sára fátækt, hafi almennt læsi og unun af bókmenntum gert okkur móttækileg og með á nótunum.
„Það var enginn sem skipaði okkur að lesa og skrifa sögur, þetta er okkar þjóðareinkenni og um leið gersemi. Það er nefnilega mín staðfasta trú að almennt læsi þjóðarinnar hafi örvað skapandi hugsun og hjálpað okkur að ná tökum á ákveðnum vinnubrögðum og skipulagi sem síðar skilar sér í góðum efnahag.“
Lilja á ekki langt að sækja ást sína á bókum. Foreldrar hennar störfuðu bæði lengi vel á Tímanum sáluga, móðir hennar í umbroti og faðir hennar sem blaðamaður. Síðar starfaði móðir hennar hjá Odda og í Bókaprenti.
„Ég hef alltaf borið mikla virðingu fyrir því hvað þjóðin okkar er skapandi þegar kemur að bóka- og blaðaútgáfu. Önnur lönd hafa kannski arkitektúr en við höfum sögur og bækur. Þetta er okkar menningararfur og hann ber að varðveita. Þess vegna talaði ég fyrir því að láta afnema bókaskattinn. Við eigum að gera rekstrarumhverfið enn betra, af því það er svo mikill auður þarna. Sumir sögðu við mig „heyrðu þetta er ekkert Framsóknarmál Lilja mín, þetta er ekki okkar fólk sem er þarna“ en ég tek ekki þátt í þannig pólitík. Ég geri það sem ég trúi á. Það sem ég tel að sé rétt.“
Það verður ekki hjá því komist að spyrja Lilju aðeins út í stöðu hennar sem kona í stjórnmálum. Hvernig upplifir hún tilveruna í þessu samhengi? Eiga konur enn á brattann að sækja og þarf hún að leggja meira á sig til að fá áheyrn í stjórnmálaumhverfi, sem enn er að mestu stýrt af karlmönnum?
„Ég hef alltaf haft það að leiðarljósi að segja einfaldlega það sem mér finnst og hafa ekki áhyggjur af útkomunni. Ég held að það hjálpi sérstaklega í stjórnmálalegu samhengi að tala hvorki inni í karla- né kvennahóp heldur segja bara sína meiningu. Hins vegar er ég á því að kynjakvótar í stjórnum fyrirtækja, og á framboðslistum, hafi hjálpað til við að auka þátttöku kvenna í atvinnulífinu og ég vil meina að það náist meiri árangur með meiri breidd. Það má líkja þessu við meiri áhættudreifingu. Svo er það er líka góð samvinna að blanda saman sjónarmiðum karla og kvenna, enda ólíkir reynsluheimar og menningararfur sem nýtist öllum til góðs. Ég er mjög stolt af því að staða kvenna á Alþingi er sterkust í Framsókn.“
Spurð að því hvernig hennar draumaríkisstjórnin myndi líta út skellir hún fyrst upp úr. Varar svo við því að svarið muni hljóma frekar klisjukennt en engu að síður sé það hreinskilið.
„Mig dreymir meðal annars um að starfa með ríkisstjórn sem væri tilbúin fara á fullu í menntamálin og vera heiðarleg með það hvar við stöndum í þeim efnum. Krökkunum okkar vegnar ekki jafn vel í námi og þeim vegnaði áður og brottfall hefur aukist. Þetta kemur meðal annars fram í samanburðarkönnunum OECD. Við þurfum að skoða hvað sé að og hvernig sé hægt að bæta úr þessu enda höfum alla burði í að vera framúrskarandi á þessu sviði líkt og til dæmis Finnar. Svo er það ferðaþjónustan. Hún skapar mestar gjaldeyristekjur í þjóðarbúið og skipulag og umgjörð kringum hana þarf að vera traust og fyrirsjáanlegt. Þessi atvinnugrein hefur vaxið og vaxið en samt erum við ekki komin með heildstæða stefnu. Við þurfum líka að læra af öðrum ríkjum enda hefur fjölgun ferðamanna gert að verkum að nú erum við allt í einu orðin þjóð sem býr til meiri gjaldeyristekjur en hún eyðir. Þetta er alveg nýtt í sögu landsins.“
Hún segir að í draumaríkisstjórninni sinni sé traust og duglegt fólk, tilbúið að starfa saman næstu fjögur árin, burtséð frá því hvaða flokki hver og einn tilheyrir. Hún vill meina að til þess þurfi mikla stefnumótun, auðmýkt gagnvart viðfangsefnum og einarðan vilja til samvinnu. Að fólkið sé tilbúið að skoða málin út frá sem flestum sjónarmiðum og hafi einlæga trú á því að þátttaka þeirra í stjórnmálum snúist fyrst og fremst um að bæta íslenskt samfélag.
En hvernig nær stjórnmálafólk að treysta hvert öðru, og hvernig nær þjóðin svo að treysta stjórnmálamönnum upp á nýtt?
Lilja telur að með því að leggja áherslu á gagnsæ og vönduð vinnubrögð sé þetta hægt. „Svo þarf þjóðin að fá að fylgjast enn betur með opinberri stefnumótun. Þegar við unnum að losun haftanna reyndist það vel að setja allt samstundis á netið svo að fólk gæti fylgst með. Og ef fólk skildi ekki hugtökin þá lögðum við bara meiri vinnu í að gera þau skiljanlegri,“ segir hún og bendir á að samfélagsmiðlavæðingin hafi sérstaklega orðið til þess að kallað væri eftir auknu gagnsæi.
„Með netinu hefur ákveðin valdefling almennings átt sér stað. Fjölmiðlar, stjórnmál og fyrirtæki hafa þurft að aðlagast enda er þetta heilmikil breyting á því hvernig við eigum samskipti. Maður getur spurt sig að því hvort hér sé fimmta valdið komið? Á samfélagsmiðlum verða til alls konar fréttir, alveg óháðar fjölmiðlum. Hvort sem það sem telst fréttnæmt snúist um pólitík, viðskipti eða persónulega lífið. Það gleymist hins vegar stundum að við vitum ekki nákvæmlega hvað er verið að matreiða fyrir okkur. Við vitum ekki alveg hvernig fréttaveitan á Facebook virkar, hvað verður um öll þessi „læk“ okkar, eða hvað er gert við niðurstöður úr sakleysislegum persónuleikaprófum svo fátt eitt sé nefnt. Það er einfaldlega komið risaapparat utan um líf okkar sem við skiljum enn ekki til fulls og þangað til við gerum það er eflaust hyggilegast að hugsa út í afleiðingarnar, áður en stór orð eru látin flakka.“