Löngum hefur verið gert grín að karlmönnum þegar kemur að veikindum og meintri sjálfsvorkun þeirra. Þeir eru oft sagðir bera sig miklu verr en konur þegar flensa herjar á, séu nánast við dauðans dyr á meðan konurnar harka þetta betur af sér.
Mörgum konum finnst fátt aumlegra en veikir karlmenn en á móti halda margir karlmenn því fram að þeim líði miklu verr en konum þegar veikindi herja á. Niðurstöður nýrrar rannsóknar styðja þessa hugmynd karlanna eftir því sem segir á vef videnskab.dk.
Það var ástralski prófessorinn Gabrielle Belz hjá Walter og Eliza Hall stofnuninni í Melbourne sem stóð fyrir rannsókninni. Samkvæmt niðurstöðunum þá eru líffræðilegar, félagslegar og sálfræðilegar ástæður fyrir að karlar og konur bregðast mismunandi við sjúkdómum og meðferðum.
Mismunandi kynhormónar kynjanna hafa mikil áhrif á ónæmiskerfið sem sér um að berjast við sjúkdóma og halda þeim frá okkur.
Sýkingar leggjast til dæmis verr á karla því ónæmiskerfi kvenna bregst mun harkalegra við þegar sýking kemur við sögu. Konur þjást á móti oftar af sjálfsónæmi samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar. Talið er að það geti verið þróunarlegt atriði sem tengist viðleitni tegundarinnar til að lifa af.
Testósterón hjá körlum hefur tilhneigingu til að halda aftur af viðbrögðum ónæmiskerfisins en hjá konum eykur kvenhormónið estrogen fjölda ónæmisfruma og herðir viðbrögð þeirra. Þetta hefur í för með sér að konur eru fljótari að jafna sig af sýkingum.
Það er því rétt að hafa í huga þegar grínast er með hina svokölluðu „man-flu“ (karlaflensu) að hún er kannski ekki svo fjarstæðukennd sem ætla mætti. Ónæmiskerfi karla er ekki eins öflugt og ónæmiskerfi kvenna og því leggjast flensur þyngra á þá greyin.