Hanna Kristín Skaftadóttir fagnar því á Facebook-síðu sinni að Magnús Jónsson, fyrrverandi kærasti hennar, hafi undirritað dómssátt og muni því greiða henni miskabætur, útlagðan kostnað og lögfræðikostnað. Hanna Kristín hefur kært Magnús fyrir að beita hana ofbeldi á Four Seasons hótelinu í Austin í Texas í mars síðastliðnum en DV hefur ítrekað fjallað um málið. Hún segist auk þess hafa sótt einkamál gegn Magnúsi og hann hafi undirritað dómssátt í því máli.
„Í haust ákváðum við Arnar Þór lögmaður minn hjá LEX, að sækja einkamál á hendur Magnúsi Jónssyni fyrir hrottalegt ofbeldi hans sem átti sér stað í Texas, mars 2017. Nú fer að verða komið ár síðan atburðurinn átti sér stað þar sem ég var illa barin af manninum sem ég taldi elska mig – hrökklaðist heim grátandi, með marið andlit, útþakin varnaráverkum á handleggjum og fótleggjum, sprungna vör og brotna tönn, í flug án síma (hann mölbraut símann og eyðilagði) eftir vinnuferð á SXSWedu sem átti að vera fagnaðarferð fyrir mig til að kynna fyrirtæki mitt Mimi Creations þar sem ég hef síðastliðin 4 ár unnið ötult að því að efla máltöku barna sem eiga við verulega málhömlun að stríða.,“ segir Hanna Kristín.
Hanna Kristín segir að það hafi verið erfitt að koma heim til Íslands frá Texas. „Heimkoman var hörmung og skömmin algjörlega yfirþyrmandi. Mig langaði bara að loka augunum, leggjast niður og ekki vakna aftur. Samband mitt við systkini mín, sem ég hafði alltaf verið mjög náin, og stórfjölskyldu var farið í vaskinn, ég var búin að einangra mig frá flestöllum vinum og kunningjum og Magnúsi tókst haustið áður að mölbrjóta fartölvu mína með kjöthamri svo ég hafði misst mikið af vinnu þar sem öll gögn sem ég átti glötuðust og ekkert var endurheimtanlegt af tölvunni. Ég var á botninum. Hann hótaði mér að ef ég myndi höfða mál gegn honum myndi hann drekkja mér í lögfræðikostnaði,“ segir Hanna Kristín.
Hún segist hafa ákveðið að höfða einkamál gegn Magnúsi þar sem ljóst var að lögregla hér á landi væri undirmönnuð og málið þokaðist lítið sem ekkert. „Í ágúst 2017 fékk ég loks með aðstoð Arnars Þórs lögmanns míns nálgunarbann á Magnús þar sem augljóst var að mér stóð veruleg hætta af Magnúsi. Áreiti hans og hótanir var linnulaust. En þar sem sakamálið gekk hægt og ljóst var að ekki væri hægt að fara í Texas málið sem sakamál hérlendis þá ákváðum við Arnar að tækla það sem einkamál. Það var ekkert auðvelt við að taka þá ákvörðun að höfða einkamál gegn ofbeldismanni sínum. En ég hafði engu að tapa. Sá sem verður fyrir órétti og ofbeldi og heyrir svo ofbeldismann sinn segja opinberlega að maður sé að ljúga eða stunda ærumeiðingar er martröð líkast,“ segir Hanna Kristín.
Hanna Kristín segir að hún hafi ákveðið að sækja málið af hörku. „Sigur vörðu var því náð í vikunni þegar Magnús skrifar undir dómssátt, greiðir mér miskabætur og útlagðan kostnað. Dómsháttinn fól í sér engin ákvæði um þagnarskyldu enda er engin sú fjárhæð sem væri hægt að greiða mér fyrir slíkt. Ég hef hingað til haldið öllum atriðum leyndum af atvikinu í Texas út af einkamálinu, en nú get ég sagt frá því sem átti sér stað. Minn sigur, ef sigur skyldi kallast, felst í að fá undirritað plagg þar sem hann gengst við óréttlætinu sem hann beitti mig,“ segir Hanna Kristín.
Hanna segist vona að mál hennar geti verið fordæmisgefandi fyrir aðrar konur í sömu stöðu. „Ég hélt að það að sjá undirritaða dómsátt myndi veita mér sjálfri einhverja tilfinningu þess að réttlætið hafi sigrað. En málið er að það er ekkert réttlátt við heimilisofbeldi. Það sem þó gefur mér hlýju í hjartað er að hafa þorað að taka málið alla leið og ég bind vonir við að þetta mál verði fordæmisgefandi fyrir aðrar konur í minni stöðu. Hvetji þær til að sækja réttlæti. En þó aðallega að þetta hafi jaðarbreytingaráhrif í átt að réttlátara samfélagi og veiti innsýn í raunveruleika þeirra sem lenda í klóm siðblindra ofbeldismanna.“