Líkt og fjölmiðlar hafa fjallað um í vikunni þá gagnrýndi baráttukonan Sema Erla Serdar framferði þeirra Péturs Jóhanns Sigfússonar, Egils Einarssonar og Björns Braga Arnarsonar, en myndband sem birtist á Instagram-síðu þess síðastnefnda vakti reiði. Sema hefur nú greint frá þeim viðbrögðum sem hún hefur fengið vegna ummæla sinna í Facebook-færslu sem hún birti í gærkvöldi.
„Í gær setti ég fram harða gagnrýni á Pétur Jóhann, Björn Braga og Gillz fyrir framkomu þeirra og hegðun í myndbandi – sem einn þeirra birti opinberlega – sem einkennist af fordómum, kvenfyrirlitningu og (menningarlegum) rasisma. Viðbrögðin hafa ekki staðið á sér. Ekki frekar en í öll hin skiptin sem ég hef fjallað um fordóma, hatur, kvenfyrirlitningu og rasisma (sem oft haldast í hendur) sem ég hef rannsakað vel og lengi og þekki (of) vel af áralangri persónulegri reynslu af slíku ofbeldi.“
Sema segist standa við allt það sem hún sagði þrátt fyrir að hafa orðið fyrir miklu aðkasti. Hún segist hafa fengið ofbeldisfullar hótanir, þar sem að fjölskyldu hennar var til dæmis hótað lífláti.
„Ég stend við allt sem ég sagði um framkomu og hegðun þessara manna.
Þrátt fyrir alla mögulega gaslýsingu í minn garð frá sjálfskipuðum sérfræðingum um málefnið, sem eiga það allir sameiginlegt að hafa ekki hugmynd um hvernig það er að vera þolandi rasisma og haturs og telja sig þurfa að standa vörð um hvíta yfirburðahyggju og viðkvæmni hvíta forréttindakarlsins. Þrátt fyrir ótrúlega áreitni síðasta sólarhringinn frá þeim sem tóku þetta til sín (og ættu frekar að eyða tíma sínum í að íhuga vel hvers vegna það er í stað þess að áreita mig), þrátt fyrir hótanir um ofbeldi og að fjölskyldan mín yrði skotin. Þrátt fyrir það þá stend ég við það sem ég sagði og ítreka það hér með.“
Megininntak færslu Semu er þá að hún spyr sig hvers vegna að hún þurfi að svara fyrir gagnrýni sína fremur enn að Pétur, Egill og Björn svari fyrir hegðun sína. Hún segist vera máluð upp sem vondi gæjinn fyrir það að benda á þeirra hegðun.
„Þessir einstaklingar sýndu af sér rasíska hegðun (já, þú ert þátttakandi í hegðuninni þegar þú mígur næstum því á þig úr hlátri yfir rasisma og kvenfyrirlitningu og/eða birtir subbuskapinn á netinu). Viðbrögðin frá þeirra helsta aðdáendahópi, sem eru að mestu leyti strákar og karlar, staðfestu allt sem ég sagði með viðbrögðum sínum. Þessar „fyrirmyndir“ ala á fordómum og kvenfyrirlitningu hjá aðdáendum sínum og ýta undir slíka hegðun hjá þeim. Það sást skýrt á sorpinu sem fylgdarlið þeirra skildi eftir á instagraminu hjá mér (og einkenndist af sömu efnistökum) og varð til þess að ég þurfti að loka fyrir athugasemdir þar.
Viðbrögðin við því sem ég sagði endurspegla mjög vel hvert við erum komin í leiðangri okkar að því að útrýma fordómum, kvenhatri og rasisma í íslensku fjölmenningarsamfélagi. Þau endurspegla því miður hversu ótrúlega langt er í land hjá okkur. Ein skýrasta birtingarmynd þess er að ÉG hef verið gerð að aðal persónu þessarar sögu (sem hefur í raun ekkert með mig að gera). ÉG (konan – af erlendum uppruna) er sett í fyrirsagnir – ekki það sem þeir gerðu. Það hefur ítrekað verið kallað eftir því að ÉG svari fyrir það sem ÉG var að gera. ÉG gekk of langt. ÉG gerði rangt. ÉG er dóni. ÉG er látin sitja fyrir svörum og látin skýra það sem MÉR gekk til. Á sama tíma krefst enginn þess að þessir „flottu“ og „frægu“ gaurar svari fyrir ógeðfellda framkomu sína. Það er enginn að biðja þá um að svara fyrir hegðun sína, rasisma sinn og kvenfyrirlitningu. Nei, ÉG er vondi gæjinn í þessari hryllingsmynd.“
Að lokum ræðir Sema um að hún ætli sér ekki að hætta að afhjúpa kvenfyrirlitningu og rasisma, þó að það kunni að koma henni í erfiða stöðu. Hún segir að rasismi sé aldrei í lagi, þar sem að hann sé ofbeldi sem valdi dauðsföllum.
„Ég á ekki í erfiðleikum með að svara fyrir það sem ég gerði og ræddi það meðal annars í Harmageddon í morgun. Ég afhjúpaði kvenfyrirlitningu og fordóma hjá þekktum einstaklingum sem eiga að heita fyrirmyndir. Ég mun ekki hika við að gera það aftur. Ég mun ekki sykurhúða kvenfyrirlitningu eða tipla á tánum í kringum rasisma. Ég mun ekki þegja eða hugsa mig tvisvar um áður en ég afhjúpa fordóma og rasisma. Ég hef aldrei gert það og sé enga ástæðu til þess að byrja á því núna. Ég iðka and-rasisma í mínu daglega lífi og hluti af því er að afhjúpa rasisma, óháð því um hvern ræðir eða hversu óþægilegt það kann að vera.
Rasismi er aldrei í lagi, óháð því hvernig hann er settur fram eða hver setur hann fram. Rasismi er ofbeldi. Rasismi er hættulegur. Rasismi drepur! Ég skora á þá sem hafa fjallað um málið að krefja þessa gaura um svör við því hvort þeir ætli virkilega að vera þátttakendur í slíku ofbeldi. Á meðan ekkert heyrist frá þeim þá eru þeir það!“